21.12.1978
Neðri deild: 44. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (1581)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Við þessa umr. um frv. til l. um verðjöfnunargjald hefur umrætt gjald verið gagnrýnt á margan hátt. Ein af þeim röksemdum, sem settar hafa verið fram gegn gjaldinu og hækkuninni nú, er að verðjöfnunargjaldið renni ekki til verðjöfnunar. Það eru að vísu mörg önnur rök sem mæla gegn þessu gjaldi og hækkuninni, en ég fer ekki orðum um þau hér, en ræði eingöngu þetta atriði sem till., sem hér hafa verið lagðar fram, snúast um.

Þegar atkvgr. hafði farið fram við 2. umr. og ljóst var að frv. mundi ná fram að ganga, þó að með naumum meiri hl. væri, leyfði ég mér í upphafi 3. umr. að leggja fram brtt. sem skyldi taka af allan vafa um að verðjöfnunargjaldið rynni til þess að greiða niður þá taxta sem hæstir væru hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Þetta var gert vegna þess að fram hafði komið — ekki kannske úr ræðustól, en að einhverju leyti þó frá hæstv. ráðh. og m.a. frá þm. utan úr sal, að þessi röksemd mín væri á misskilningi byggð, verðjöfnunargjaldið væri sannarlega til þess að greiða niður hæstu taxta. Að vísu stangaðist það á við það sem reynslan segir okkur. Ég tók hins vegar fullt tillit til þessara upplýsinga og þessara sjónarmiða og vildi sem sagt taka af allan vafa um að þarna væri rétt með farið og þessi leið yrði farin.

Það skal játað, að sú till., sem ég lagði fram, var hripuð í flýti milli umr. og á örfáum mínútum og má vera að hún hafi á sér einhverja galla, enda fór svo að hæstv. iðnrh. gerði tilraun til þess að lagfæra þá till. mína — og ekkert nema gott um það að segja — og hefur nú lagt fram nýja brtt. Hún hnígur í sömu átt og till. sú sem ég lagði fram, en á þessum tveimur till. er þó nokkur munur. Í till. hæstv. ráðh. er talað um að verðjöfnunargjaldinu skuli varið til að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins, en þessa setningu hafði ég tekið út, og síðan segir að hækkun gjaldsins skuli varið til að ná fram verðjöfnun á töxtum til heimilisnotkunar og iðnaðar hjá þessum aðilum, og get ég vel fallist á að það sé eðlilegt að bæta iðnaðartaxtanum við. En það var fullkomlega eðlilegt að hv. þm. Gunnar Thoroddsen spyrðist fyrir um það; hvernig skilja bæri þessa tillögu. Hann vildi fá úr því skorið í svörum hæstv. ráðh., hvort þessu fé skyldi varið til að ná fram þessari verðjöfnun með niðurgreiðslu á hæstu töxtunum eða til að greiða þann skuldahala sem liggur fyrir hjá RARIK núna og að einhverju leyti til frekari framkvæmda. Ég gerði mér vonir um að hæstv. ráðh. tæki af skarið um það, að hækkun gjaldsins núna skyldi einvörðungu ganga til þess að lækka hæstu taxta. Það urðu mér því nokkur vonbrigði þegar hann svaraði þessari fsp. frá hv. þm. Gunnari Thoroddsen, vegna þess að svar hans var alls ekki nægilega ljóst. Hann tók að vísu fram að leitast yrði við að jafna taxtana, en tók enn fremur fram að það orkaði þó nokkurs tvímælis að greiða beinlínis niður taxta. Hann tók síðan fram að þessu fé yrði ekki varið til að mæta vaxandi rekstrarhalla hjá Rafmagnsveitum ríkisins í framtíðinni, en hafði engin orð um hvernig með þann vanda skyldi farið sem nú liggur fyrir. Þess vegna finnst mér alls ekki nægilega svarað þessari spurningu sem var sett fram og skiptir öllu máli.

Nú vil ég mælast til þess, hæstv. forseti, með hliðsjón af þessum umr. núna og þar sem mér hefur verið tjáð að ætlunin sé að ljúka þessari umr. klukkan 2 á morgun, að 3. umr. verði nú frestað og mælendaskrá ekki lokað, þannig að tími gefist til að athuga þessar tillögur öllu betur og átta sig á því, hvort möguleiki sé á því fyrir mig t.d. að draga till. mína til baka eða hvort að ég geti gert á henni breytingu. Ég held að það þjóni hagsmunum allra aðila að þessi vinnubrögð séu viðhöfð, og ég á ekki von á að það þurfi út af fyrir sig að tefja þessar umr. mjög mikið þó að þessi háttur verði hafður á. Ég geri ráð fyrir að þetta mál fáist afgr. út úr þessari d. engu að síður á tiltölulega skömmum tíma á morgun, ef fundur verður haldinn hér kl. 2, þó að ég geti að sjálfsögðu engu lofað um það varðandi aðra þm. En alla vega liggur ljóst fyrir að ég er búinn að tala mig dauðan að mestu leyti í þessari umr. Hugmynd mín er að fá frestun á umr. og mælendaskrá sé ekki lokað, þannig að ég geti eftir atvikum komið fram með breytingu á brtt. minni eða lagfæringar á henni eða þá hafa frekari samráð við ráðh., eftir því sem atvik segja til um.