21.12.1978
Efri deild: 46. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

138. mál, skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég vil flytja hv. stjórnarandstæðingum þakkir fyrir það, hversu greiðlega þeir vinna að því að koma þessum málum fram. Skil ég vel að þar er aðeins um afstöðu til vinnuaðferðar að ræða, en ekki efnisafstöðu til málanna, það liggur í augum uppi.

Ég mæli nú fyrir frv. til l. um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Frv. þetta, sem lagt er fram á þskj. 188, er eitt af þeim mörgu málum sem flutt eru í tengslum við afgreiðslu fjárlagafrv. Með frv. er lagt til að á árinu 1979 verði lagður sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði er nemi 1.4% af fasteignamatsverði þessa húsnæðis. Er áætlað að tekjur ríkissjóðs af þessari skattlagningu nemi 550 millj. kr. á næsta ári.

Þegar núv. ríkisstj. tók við stjórnartaumum í sept. s.l. blasti við stórkostlegur vandi í efnahags- og atvinnumálum. Eitt af meginstefnumálum ríkisstj. í því sambandi var að marka breytta fjárfestingarstefnu. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. er því lýst yfir, að fjárfestingunni skuli beina í tæknibúnað, endurskipulagningu og hagræðingu í þjóðhagslega arðbærum atvinnurekstri. Sú gegndarlausa fjárfesting í skrifstofu- og verslunarhúsnæði, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, hefur ekki að mati ríkisstj. uppfyllt þessi markmið. Úr þessari fjárfestingu er þörf að draga. Sérstök skattlagning á verslunar- og skrifstofuhúsnæði mun að einhverju leyti sporna við þeirri þróun, að menn verðtryggi fé sitt í slíkri fjárfestingu í stað þess að beina því í fjárfestingu hjá framleiðsluatvinnuvegunum.

Að sjálfsögðu þurfa atvinnufyrirtækin á skrifstofuaðstöðu að halda. Þess vegna er í frv. gert ráð fyrir því, að sé sama eignin notuð undir skrifstofu eða verslun, en einnig aðra starfsemi, skuli eignin undanþegin þessum sérstaka skatti, ef 75% eða meira af rúmmáli hennar er notað undir aðra starfsemi en fyrir skrifstofu- og verslunarhúsnæði.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða einstakar greinar frv. Ég hef rætt meginatriði þess. Þau eru augljós og auðskilin. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.