21.12.1978
Efri deild: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

139. mál, nýbyggingagjald

Frsm. minni hl. (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Minni hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. d., fulltrúar Sjálfstfl., leggur til að þetta frv. verði fellt. Í þessu sambandi viljum við benda á að almennt óttast menn að atvinna við byggingarframkvæmdir í landinu muni fara mjög minnkandi á næstunni. Veldur slíku almennur fjárskortur og sívaxandi rekstrarerfiðleikar atvinnuveganna. Með slíkar aðstæður fyrir sjónum nær það engri átt að af hálfu hins opinbera sé verið að stofna til nýrrar áður óþekktrar skattheimtu, sem vitað er, að hefur þær einar afleiðingar að skerða stórlega atvinnumöguleika almennings.