21.12.1978
Efri deild: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1919 í B-deild Alþingistíðinda. (1616)

146. mál, heimild til lántöku vegna lánsfjáráætlunar 1978

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um ábyrgðarheimildir og heimild til lántöku vegna endurskoðaðrar lánsfjáráætlunar 1978, en þetta frv. kemur frá Nd.

Í raun og veru er hér fyrst og fremst um að ræða ákvarðanir í sambandi við lánsfjáráætlun þessa árs, — að mestu ákvarðanir sem fyrrv. ríkisstj. tók á sínum tíma og nauðsynlegt er að gangi fram.

1. gr. frv. fjallar um það, að fjmrh. f.h. ríkissjóðs sé heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán er Akureyrarbær tekur að fjárhæð allt að 4.8 milljörðum kr., eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, til fjármögnunar á hitaveituframkvæmdum. Ábyrgðin skal vera með þeim kjörum og skilmálum sem fjmrh. ákveður og tekur hún jafnt til greiðslu afborgana og vaxta og annars kostnaðar.

Þessar framkvæmdir á Akureyri, sem hafa staðið lengi yfir, eins og hv. þdm. er kunnugt um, hafa verið fjármagnaðar með bráðabirgðalánum fyrir milligöngu Landsbanka Íslands, og menn hafa beðið eftir hentugu tækifæri til þess að ganga frá langtímaláni í sambandi við þessa framkvæmd. Þetta tækifæri hefur nú boðist og Landsbankinn mun að líkindum sjá um þessa lántöku. Hér er leitað heimildar til þess að ríkissjóður ábyrgist með sjálfskuldarábyrgð þessa fyrirhuguðu lántöku. Þetta er ekki nýlunda að neinu leyti, að ríkissjóður ábyrgist slíkar lántökur. Það hefur verið gert áður, t.d. í sambandi við Hitaveitu Suðurnesja, og fleiri dæmi mætti nefna í því sambandi. Ekki þarf að hafa mörg orð um það, að hitaveituframkvæmdirnar eru í raun og veru forgangsframkvæmdir hjá okkur í kapphlaupinu við olíukreppuna og hækkun á orkuverði.

2. gr. fjallar um það, að fjmrh. sé f.h. ríkissjóðs heimilt að ábyrgjast allt að 230 millj. kr. lán fyrir Lánasjóð ísl. námsmanna á árinu 1978, og er þetta viðbótarheimild. Málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna hafa fram að þessu verið fjármögnuð með greiðslum úr ríkissjóði í samræmi við þær fyrirætlanir sem samþykktar voru við seinustu fjárlagaafgreiðslu, og þessi heimild, sem hér er sótt um lögfestingu á, allt að 230 millj. kr. lán, er til þess að ganga endanlega frá þessu máli.

3. gr. fjallar um það, að fjmrh. sé f.h. ríkissjóðs heimilt að taka lán vegna endurskoðaðrar lánsfjáráætlunar fyrir árið 1978 er nemi allt að 4000 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.

Í lögum um heimild til erlendrar lántöku fyrir árið 1978 nam erlend lántaka alls 4 milljörðum 866 millj. kr. Þessa heimild er nauðsynlegt að hækka um 4000 millj. kr. vegna þess að lántökur innanlands verða 2.5 milljörðum kr. minni en áætlað var svo og vegna meiri umsvifa á árinu en ráðgerð voru.

Á miðju ári 1978 var lánsfjáráætlun ríkisstj. endurskoðuð. Sú endurskoðun fól m.a. í sér 2110 millj. kr. hækkun lánsfjármagnaðra framkvæmda. Hækkun þessa var áformað að fjármagna með útgáfu ríkisskuldabréfa til sölu innanlands að fjárhæð 1500 millj. kr., 500 millj. kr. erlendri lántöku og 110 millj. kr. lántöku hjá Framkvæmdasjóði Íslands vegna hönnunar Bessastaðaárvirkjunar. Á árinu 1978 yfirtók Fiskveiðasjóður lántökuheimild ríkissjóðs að upphæð 1 milljarður kr. Ætlast var til að ríkissjóður fengi á móti sömu fjárhæð af sölu skuldabréfa Framkvæmdasjóðs til lífeyrissjóðanna. Kaup lífeyrissjóðanna hafa hins vegar ekki gengið fram svo sem áætlað var og þar af leiðir nauðsyn á lántökuheimild. Þá er að geta lántökuheimilda í tengslum við Rafmagnsveitur ríkisins, alls 631 millj. kr., en sú fjárhæð greiðist þannig:

Skuld byggðalína við RARIK 259 millj. kr., skuld Orkusjóðs við RARIK vegna styrkingar dreifikerfa í sveitum 77 millj. kr. og almennur rekstrarhalli fyrirtækisins að upphæð 295 millj. kr. Loks er að geta láns að upphæð 90 millj. kr. vegna graskögglaverksmiðja.

Í Nd. kom inn viðbót við 3. gr. á þá leið, að fjmrh. f.h. ríkissjóðs eða Póst- og símamálastofnunarinnar væri heimilt að taka lán til byggingar jarðstöðvar og sjálfvirkrar millilandasímstöðvar er nemi allt að 1550 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.

Í upphaflegri lánsfjáráætlun voru Pósti og síma ætlaðar 370 millj. kr., eða um 1.7 millj. dollarar, vegna jarðstöðvar á árinu 1978. Kostnaðaráætlun er hins vegar sem hér segir fyrir framkvæmdirnar í heild, bæði á þessu og næsta ári: Jarðstöð við Úlfarsfell 5.1 milljarður, hluti Mikla norræna ritsímafélagsins 1.8, mismunur 3.3 milljarðar. Millilandasímstöð við Suðurlandsbraut 2.4 milljarðar, húshluti Suðurlandsbraut 0.9 milljarðar. Samtals eru þetta 6.6 milljarðar. Lánsheimild, sem þegar er til í lögum, er 1.7 milljarðar, og þess vegna verður þörf á viðbótarlánsfjárheimild nálægt 1550 millj. kr. Þessi framkvæmd hefur sem sé gengið fram á annan veg en ætlast var til þegar lánsfjáráætlun var gerð fyrir yfirstandandi ár. En í þessum efnum standa menn frammi fyrir gerðum hlutum og ekki um annað að ræða en ganga þannig frá þessum málum, að hægt verði að standa við samninga sem þegar hafa verið gerðir í sambandi við þessa framkvæmd.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2, umr. og hv. fjh.- og viðskn.