25.10.1978
Efri deild: 8. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

15. mál, happdrættislán vegna framkvæmda við orðurveg og Austurveg

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Ég kveð mér nú fyrst og fremst hljóðs til þess að þakka þeim þm., sem til máls hafa tekið, fyrir góðar undirtektir við þetta mál, sem vissulega gefur vonir um að það fái greiðan gang og fljóta skoðun í nefnd. Ég harma það, að hæstv. samgrh. skuli ekki vera hér viðstaddur, en hann dvelst erlendis. Ég hef þó rætt mál þetta við hann, og ég hygg að hann muni einnig fagna því, að málið fari til n. svo að unnið verði að því þar, þó hann hefði vafalaust mjög gjarnan viljað hafa aðstöðu til að taka hér til máls. Vona ég að það sé réttur skilningur, því ég hef af minni hálfu a.m.k. boðið þá samvinnu sem ég get í té látið til þess að afla fjár með einhverjum þeim hætti sem væri í líkingu við það sem frv. gerir ráð fyrir, en tók sérstaklega fram, að mér er ekki kappsmál að frv. sé afgreitt nákvæmlega eins og það er fram lagt.

Ég held að happdrættislán til vegagerðar gætu orðið miklu stærri liður í fjáröfluninni heldur en þetta litla frv. gerir ráð fyrir. Mér er tjáð að t.d. í Þýskalandi hafi margir helstu vegir verið lagðir fyrir fjármagn sem aflað er einmitt með þessum hætti, þar séu slík happdrætti rekin með nútímalegum hætti, fólk hafi gaman af að taka þátt í þeim, það séu háir vinningar, og peningarnir koma frá fólkinu án þess að það þurfi að skattleggja menn, menn leggja þetta fram með glöðu geði. Og ég held næstum því að Íslendingar mundu ekki leggja neina peninga fram með glaðara geði heldur en einmitt til þess að bæta vegina, því allir vita hvernig bílar fara og hvernig er að ferðast um landið þegar vegir eru verstir. Ég held að ef yrði tekið upp nútímalegt snið á slíku happdrættisláni, þar sem t.d. væri dregið mánaðarlega, vinningar væru allstórir, þetta væri auglýst eins og þörf er á að gera í nútímaþjóðfélagi, — það þarf að kunngera fólki hvað á seyði sé, — þá væri hægt að afla miklu meira fjár en hér um ræðir.

Nú kynnu sumir að halda að auknar vegaframkvæmdir mundu kynda undir verðbólgu. Ég fæ ekki séð að þær mundu gera það ef fjármagnið er inntennt, ef það er fengið frá fólkinu, vegna þess að þessir peningar rynnu til annarra framkvæmda sem væntanlega mundu í flestum tilfellum heimta miklu meira vinnuafl en vegagerðin gerir. Ég held þess vegna að það sé rangur skilningur, að auknar vegaframkvæmdir fyrir innlent lánsfé muni auka á verðbólgu og þenslu. Ég held þær geri það ekki, af því að vegirnir heimta lítið vinnuafl, gagnstætt því sem er við ýmsar aðrar nytsamar framkvæmdir, eins og skólabyggingar, sjúkrahús og annað slíkt, þær sem vinnuafl er mjög drjúgur liður í framkvæmdinni. Í vegagerð eru það vélarnar fyrst og fremst sem vinna eins og allir vita.

Ég get líka hugsað mér að það væri heimilað almennt að menn legðu fram fé að láni til ákveðinna lítilla verkefna, t.d. að það væru boðnir út nokkrir km vegagerðar einhvers staðar í nágrenni við kaupstaði, þar sem fólkið þráði mjög að fá fullgerða vegi, fólkið á þessum stað lánaði þetta fjármagn fullverðtryggt eða gengistryggt, fengi annaðhvort happdrættisvinning eða einhverja lága vexti. (Gripið fram í: Og visst um að það færi þangað.) Já, það er nákvæmlega það sem ég tók fram í minni frumræðu, hv. þm. var víst ekki við þá. Það hefur verið einn af göllunum við framkvæmdina á lögunum fram að þessu, að fólk hafði enga vissu fyrir að féð einu sinni færi í Norðurveg eða Austurveg, heldur kannske bara beint í Vegasjóð eða ríkishítina, eins og ég orðaði það. Þar að auki átti auðvitað að bjóða sérstaklega út lán í Norðurveg og sérstaklega lán í Austurveg. Ég hugsa að Norðlendingar hefðu frekar keypt happdrættisskuldabréf í Norðurveginum og Austfirðingar og Sunnlendingar væntanlega í hinum. Og ég held það mætti gjarnan búta þetta miklu meira niður, eins og hv. þm. benti á, og menn hefðu vissu fyrir því, að það færi í þessa framkvæmd og færi strax í hana, yrði ekki étið upp af verðbólgunni.

Að því er varðar ummæli hv. þm. Alexanders Stefánssonar um Borgarfjarðarbrú, þá held ég að það skilji ekki mjög mikið á milli okkar í því efni. Ég sagði að það hefði verið byrjað of fljótt á henni. Hvort henni lýkur of snemma, við skulum ekki deila um það. En auðvitað hefði verið hagstæðara að ljúka þessu verkefni á einum til tveimur árum og afla fjárins fyrir fram. Þetta er liðin tíð og má segja minni háttar mistök. Við þurfum að ljúka við Borgarfjarðarbrúna, það er alveg ljóst. En það er alveg rétt sem þm. sagði, að hinar brýrnar eru að bresta. Við skulum vona að það slys gerist þó ekki og við getum lokið þessari mikilvægu framkvæmda strax á næsta ári. Það er ekkert annað að gera en að ljúka þessari framkvæmda. (Gripið fram í.) Það er það vitlausasta sem hægt er að gera. Það hefði verið nóg að byrja á henni s.l. vor og ljúka henni næsta haust. Það var það sem ég átti við fyrst og fremst, svo að ég held að okkur greini ekki mjög á í þessu efni.

Ég vona sannarlega að allir hv. þdm. samþ. þetta frv. í einhverju formi, þegar það kemur hingað aftur, og kannske meira að segja verði það djarftækir að hækka upphæðina, t.d. úr 2 milljörðum í 3 — þetta er ekki nema heimild hvort sem er — eða jafnvel í 4 milljarða á ári og reka þetta happdrætti með krafti og sjá til þess, að vegirnir komi og þeir komi á næstu árum, það verði ekki endalaust beðið og fjármagnið hrifsað til annars.