21.12.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

54. mál, fjárlög 1979

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. kom saman á síðasta fund sinn fyrir 3. umr. kl. 1 eftir hádegi í dag, svo að ekki hefur gefist langur fyrirvari til þess að undirbúa þessa umr. Það mundi æra óstöðugan að tína til þau firn og stórmerki sem yfir okkur hv. þm. hafa gengið við þessa fjárlagaafgreiðslu. Loksins í gærkvöld, þegar hv. þm. Alþfl. voru leystir úr álögum, komst skriður á málin. Hæstv. forsrh. hefur raunar beðið afsökunar á vinnubrögðum hér á hinu háa Alþingi af hálfu stjórnarflokkanna. Ég skal því ekki orðlengja frekar um þessi efni. Einungis vil ég að það komi fram, að allur þessi málatilbúnaður hefur ekki síst komið niður á störfum fjvn., raunar bæði þeirra í meiri hl., sem sinna vilja þingskyldu sinni á eðlilegan hátt, og okkur í minni hl.

Við minnihluta-menn í fjvn. treystum okkur ekki til þess að flytja neinar till. með meiri hl. við þessa lokaumr. fjárl., eins og í pottinn er búið. Ástæðan er fyrst og fremst gífurleg aukning útgjalda og skattaæði ríkisstjórnarflokkanna, en að auki hvernig þeir hafa staðið að fjárlagaafgreiðslunni. Á hinn bóginn flytjum við sjálfstæðar till. um niðurskurð ríkisútgjalda og skattalækkun, sem því miður hefur ekki verið útbýtt hér enn, en ég vona að verði útbýtt síðar á fundinum og mun víkja að þessum till. síðar.

Við 2. umr. fjárl. sagði ég að fjárlagafrv. og fjárlagaafgreiðslan hefði eftirfarandi megineinkenni:

1. Stórvaxandi hlutfall útgjalda ríkissjóðs miðað við þjóðarframleiðslu.

2. Gífurlega aukna skattheimtu.

3. Fjármagnstilfærslur, einkum í formi niðurgreiðslna, sem færu út fyrir öll eðlileg mörk.

4. Verklegar og félagslegar framkvæmdir og viðfangsefni séu skorin niður og ríkissjóður sölsi á sama tíma undir sig skattstofna, sem runnið hafi til annarra þarfa.

5. Ríkisbáknið þenjist út.

6. Tekjuhalli sé fyrirsjáanlegur, ef nýjum skattaálögum sé ekki bætt við eða skorin niður útgjöld.

7. Fjárlög ársins 1979 verði verðbólgufjárlög, ef allt fer sem horfir.

Þessi heildarmynd hefur nú skýrst eftir að fjvn. hefur lokið störfum fyrir 3, umr. Heildardæmið, sem nú liggur fyrir, staðfestir í einu og öllu þessar niðurstöður, þegar blekkingum og talnaleik er sleppt og raunveruleikinn afhjúpaður.

Í fyrsta lagi er hlutfall útgjalda ríkissjóðs. Það eykst úr 27–28% síðustu tvö ár í 31–31.5% af þjóðarframleiðslu á árinu 1979. Ríkisbáknið þenst út.

Skattheimta af heildartekjum þjóðarinnar vex um a.m.k. 3% á þessu tímabili eða um það bil um 20 milljarða kr. miðað við desemberverðlag í ár.

Svo langt er gengið í niðurgreiðslum nú í des. að ríkisstj. hefur ákveðið að snúa af þeirri braut og lækka niðurgreiðslur á næsta ári um 2800 millj. kr.

Verklegar framkvæmdir eru skornar niður um 12% að magni til frá árinu 1978, þótt Alþb. og Alþfl. hafi gagnrýnt harðlega sem hægri villu niðurskurð fyrri ríkisstj. í þessu efni. Þetta er allverulegur niðurskurður í viðbót við það sem áður var gert, en er staðfesting á því að rétt var stefnt miðað við aðstæður og gerir fyrri gagnrýni þessara flokka marklausa að þessu leyti.

Ríkissjóður hefur sölsað undir sig gamla skattstofna og velt útgjöldum yfir á almenning og dregið úr útgjöldum með bókhaldsblekkingum og vanáætlunum, svo að nemur lágt áætlað 10–15 millj. kr. með þessum fjárlagatillögum.

Þótt skattheimta sé stóraukin, framkvæmdir skornar niður og ríkissjóður leggi undir sig gamla skattstofna eða velti af sér útgjöldum með ýmsum hætti er tekjuhalli fyrirsjáanlegur á fjárl. ársins 1979, eins og afgreiðslu frv. ber að við 3. umr., ef fjárlagafrv. er raunsætt lagt fyrir.

Fjárlög ársins verða því verðbólgufjárlög, ef þau verða samþ. að tillögu meiri hl. fjvn.

Þegar fjárlagafrv. var lagt fyrir voru útgjöld ríkissjóðs 198 milljarðar 485 millj. kr. Eftir 2. umr. bættust við 3. milljarðar 324 millj. kr. Við 3 umr. bætast við 1 milljarður 195 millj. Frá því dragast 804 millj., svokallaður niðurskurður meiri hl. fjvn. sem ég kem að síðar. Samtals verða því útgjöldin eftir þessu 202 milljarðar 200 millj. kr.

Tekjur verða eftir spá Þjóðhagsstofnunar, og þá er tekið hærra tilvikið, 208 milljarðar 738 millj. kr. Þegar þessar hækkanir eru dregnar frá og lánahreyfingar einnig, þá eru eftir 2 milljarðar 486 millj. kr.

Um þetta tekjudæmi vil ég segja það, að það breyttist um 1.5 milljarð og rúmlega það á tæpri viku. Forstjóri Þjóðhagsstofnunar kom á fund fjvn. fyrir tæpri viku og spáði þá tekjum ríkissjóðs 1500 millj. kr. lægri en er í þessu dæmi. Samt sem áður er greiðsluafgangurinn ekki nema 2.4 milljarðar kr. og eru þó ekki öll kurl komin til grafar. Utan þessa dæmis eru áðurnefndar niðurgreiðslur, þ.e.a.s. 2800 millj. kr., sem ekki er gert ráð fyrir í þessu dæmi að greiða niður verðlag eins og er gert nú. Þetta var gert 1974, eins og ég rifjaði upp við 2. umr., þegar þáv. vinstri stjórn stóð að fjárlagagerð. Þá átti að spara niðurgreiðslur, en efndirnar urðu þær, að þær voru stórauknar. En það er sérstaklega athyglisvert, að ríkisstj. skuli hugsa sér að komast þannig út úr fjárlagadæminu að gera ráð fyrir stórlækkun niðurgreiðslna á árinu 1979, því að í forsendum þjóðhagsspár, sem hv. formaður n. vitnaði til, er sagt:

Í dæminu er gert ráð fyrir, að niðurgreiðslur haldist óbreyttar út næsta ár frá því sem þær eru í des., og ekki er reiknað með neinum meiri háttar breytingum á óbeinum sköttum.

Þessi fyrirætlan ríkisstj. er því ekki einungis ekki raunverulegt fjárlagadæmi, heldur er hún í fyllsta ósamræmi við þær þjóðhagsforsendur sem sjálft fjárlagadæmið byggist á.

Í öðru lagi er utan þessa dæmis 3% kauphækkun opinberra starfsmanna 1. mars, en sú kauphækkun kostar ríkissjóð vegna A-hluta stofnana 1300 millj. kr. Ef við þetta er svo bætt einungis vanáætlun tveggja liða, t.d. útflutningsbóta um 1 milljarð kr., en það kom fram í máli hæstv. landbrh. að þær væru vanáætlaðar í frv. um 1000 millj. kr., og að ríkisstj. hyggst nú við afgreiðslu fjárl. leggja 940 millj. kr. á sjúklinga í nýjum skatti, í hækkuðum lyfjagjöldum og sérfræðingsgjöldum, — ef aðeins þessu er bætt við, en miklu fleira mætti telja til, þá kemur ríkissjóðsdæmið í raun og veru út með greiðsluhalla upp á 4 milljarða kr. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn með 3.6 milljarða kr. halla á þessu ári svo að því miður er dæmið heldur dapurlegt þrátt fyrir alla skattasúpuna.

Á fundi, sem forstjóri Þjóðhagsstofnunar sat í fjvn., kom fram að þjóðarframleiðslan 1979 er metin á 663 milljarða kr. á sama verðlagi og fjárlagafrv. er gert upp, þ.e.a.s. desemberverðlagi. Útgjöld ríkissjóðs samkv. till. meiri hl. fjvn. verða um 30–31% af þjóðarframleiðslu þannig metinni samkv. útreikningum Þjóðhagsstofnunar. En þetta merkir að milli 31 og 31.5% af tekjum þjóðarinnar eru teknar í sköttum til ríkissjóðs á árinu 1979, en þessa skatta hafði tekist að lækka í 27–28% af þjóðarframleiðslu síðustu tvö árin, þ.e.a.s. 1976 og 1977. Jafnvel á árinu 1978 hækkar heildarskattbyrðin til ríkissjóðs út af september- og desemberráðstöfunum ríkisstj. verulega að sögn Þjóðhagsstofnunar.

Hér er ekki um neinar smáupphæðir að ræða. Munurinn að ríkið taki 3–4% meira af þjóðarframleiðslu samkv. framansögðu merkir a.m.k. 20 milljarða kr., eins og ég sagði áðan. Það hlýtur að teljast afrek út af fyrir sig að naglfesta svo stórauknar skattálögur og útþenslu ríkisbáknsins á einungis fjögurra mánaða valdaferli, einkum fyrir þá sem lofuðu þveröfugu fyrir kosningarnar í sumar. Heildarskattheimtu ríkisins af þjóðartekjum verður að setja ákveðin mörk, þannig að þjóðfélagsþegnarnir og samtök þeirra, m.a. sveitarfélögin, hafi nægileg fjárráð og verði ekki meira eða minna ofurseld framfæri miðstýrðs ópersónulegs ríkisvalds.

Á það er einnig að líta, að þessi gífurlega aukna skattheimta er tekin af þjóðinni að miklu leyti með beinum tekju- og eignarsköttum sem ætlunin er um það bil að tvöfalda, ef miðað er við fjárlög í ár. Nýju skattþrepi er bætt við tekjuskatt einstaklinga. Þetta skattþrep hirðir 50% af tekjum skattgreiðenda eftir að ákveðnum tekjum er náð, og samkv. nýja frv. um tekju- og eignarskatt hefur það í för með sér að nálægt 64 kr. af hverjum 100 eru teknar í skatt til sveitarfélags og ríkis, ef hvort tveggja er meðtalið. Þyngja á einnig tekjuskatta á lægri tekjur frá því sem nú er. Þetta er gert með beitingu skattvísitölunnar. Þótt hún eigi að hækka samkv. brtt. meiri hl. fjvn. úr 43% í 50 frá því í fyrra er nú búist við að tekjur hækki almennt um 52–53% samkv. nýjustu upplýsingum Þjóðhagsstofnunar. Með þessari beitingu skattvísitölu næst um það bil 1 milljarður kr. sérstaklega af tekjum í miðlungs- og lægri tekjustigum.

Auðvelt er að sýna fram á að slík skattlagning á menn, þegar þeir eru að afla sér tekna og þjóðfélaginu um leið, verður til þess að draga úr vinnuframlagi þeirra. Fáir vilja leggja á sig vinnu, t.d. fjarri heimilum sínum, síðari hluta árs þegar þeir vita að í hlut þeirra sjálfra koma 36 kr. af hverjum 100 sem þeir hafa í tekjur. Freisting vex einnig til þess að komast undan slíkri skattheimtu, auk þess sem bæði beiting skattvísitölunnar og 50% skattþrepið gerir tekjuskattinn að enn þá meiri launamannaskatti en áður. Um þetta atriði sagði hv. þm. Sighvatur Björgvinsson við síðustu umr. fjárl.: „Tekjuskatturinn er orðinn svo til einvörðungu launamannaskattur með þeim afleiðingum, að hækkun hans kemur fyrst og fremst niður á venjulegu launafólki.“ Hafi þetta verið rétt í fyrra, þá er þetta ekki síður rétt nú, þegar skattvísitalan hjá einstaklingum er einungis hækkuð um 50% frá því í fyrra, en tekjur hækka um 52–53% og nýju skattþrepi er bætt við sem gefur í ríkissjóð 1850 millj. kr. á næsta ári.

Álagning á atvinnurekstur er ekki síður gífurleg og í hinu hugvitssamlegasta formi. Eins og ég minnti á í fyrri umr. um þetta fjárlagafrv., veldur slík ofsköttun á einstaklinga og atvinnurekstur atvinnuleysi, minni þjóðartekjum og versnandi lífskjörum. Ég hef beðið Þjóðhagsstofnun að gefa mér upplýsingar um hvað einungis nýir skattstofnar, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur verið iðin við að leggja á fólk, muni flytja mikla fjármuni úr vösum almennings í ríkissjóð á árinu 1979. Þetta yfirlit er þannig:

Fyrst eru tekju- og eignarskattar einstaklinga: Eftirstöðvar sérstaks tekjuskatts- og eignarskattsauka, álagðs í sept. 1978, gefur 810 millj. kr., hækkun eignarskattshlutfalls einstaklinga 630 millj., nýtt 50% skattþrep einstaklinga 1850 millj., hækkun á mati eigin húsaleigu gefur 800 millj. Hér er um 4090 millj. kr. að ræða.

Óbeinir neysluskattar einstaklinga: Hækkun sérstaks vörugjalds úr 16% í 30% á ýmsar vörur 1300 millj., skattur á ferðalög til útlanda 1600 millj., hækkun vörugjalds úr 16 í 18% 1150 millj. kr., flugvallaskattur 350 millj. kr. Þarna eru 4400 millj. kr. eða samtals 8 milljarðar 490 millj. kr.

Skattar á atvinnurekstur: Eftirstöðvar sérstaks tekju- og eignarskattsauka á félög, álagðs í sept. 1978, 810 millj. kr., hækkun eignarskatts 1200 millj. kr., afnám verðstuðulsfyrninga 1300 millj. kr., afnám flýtifyrninga á fasteignum 350 millj., lækkun flýtifyrningahlutfalls úr 30 í 10% 710 millj., hækkun skatthlutfalls félaga úr 53% í 65% 1200 millj., nýbyggingagjald af húsbyggingum 300 millj., skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, 1.4% af fasteignamati, 550 millj. kr. Þarna er um heildarskattheimtu að ræða sem nemur 6 milljörðum 420 millj. kr. Hér er sem sagt um nýja skattstofna að ræða sem eru 14 milljarðar 910 millj. kr. Þetta eru skattstofnar sem dunið hafa yfir þjóðina á aðeins 4 mánuðum.

Á móti kemur svo lækkun sjúkratryggingagjalds, segja menn, sem rýrir tekjur ríkissjóðs um 1450 millj. kr. Ekki er þó allt sem sýnist með þetta sjúkratryggingagjald. Við umr. í fyrra sögðu hv. þm. Geir Gunnarsson og Sighvatur Björgvinsson efnislega eitthvað á þá leið, að hæstv. þáv. ríkisstj. hefði fundið bráðefnilega skattgreiðendur, sem eru sjúklingar. Þá átti að leggja á 500 millj. kr. í þessu skyni, en var aldrei gert. Nú á að leggja 940 millj. kr. skatt á sjúklinga með hækkun á lyfjagjaldi og greiðslu fyrir sérfræðiþjónustu. Á yfirstandandi ári átti að firra ríkissjóð 500 millj. kr. með þessum hætti, en var ekki gert, eins og ég sagði áðan. En hér er um að ræða nýjan skatt á sjúklinga, ef svo mætti að orði kveða, eins og hv. þm. gerðu, þannig að fyrir innlend lyf verða sjúklingar að greiða 600 kr. í stað 325 sem þeir greiða nú, fyrir erlend lyf 1000 kr. í staðinn fyrir 650 sem þeir gera nú og fyrir sérfræðiaðstoð 1500 kr. í stað 600 kr. sem þeir gera nú. Það verður því að skoða þessa lækkun sjúkratryggingagjalds í því ljósi, að hæstv. núv. ríkisstj. hugsar sér að hækka þannig álögur í raun og veru á þetta fólk. Hér kann að vera um nauðsyn að ræða, að sjúklingar greiði hluta af kostnaði við lyf og læknishjálp, en menn mega ekki hrósa sér af því að ívitna sjúklingum einvörðungu þegar þeir fara þannig að.

Þessi skattahækkun á sjúklinga vegur tiltölulega þungt upp í lækkun sjúkratryggingagjalds.

Menn spyrja e.t.v.: Kemur ekki afnám söluskatts á matvörum upp í þessar nýju skattahækkanir? Því er til að svara, að markmið ríkisstj. með afnámi söluskatts er fyrst og fremst að lækka vísitöluna og er því nánast um niðurgreiðsluaðferð að ræða. Hvað sem því líður hefur ríkissjóður víða krækt sér í ný ja skattstofna auk þeirra sem að framan eru taldir, t.d. með 10% niðurskurði framlaga í fjárfestingarsjóði, stórauknum sköttum á umferðina og þannig mætti lengi telja. Niðurstaðan nálgast því að hreinir nýir skattar í tíð núv. ríkisstj. nemi 15 milljörðum kr. og að þessir nýju skattstofnar leggist með fullum þunga á þjóðina.

Formaður fjvn. ræddi hér um lækkanir meiri hl. n. um niðurskurð meiri hl. Ég vil ekki segja mikið um þessar till. hv. þm. í meiri hl. fjn., aðeins benda á að mér sýnist við fyrstu sýn að þessar till. séu næsta léttvægar og raunar sumar broslegar. Dæmi um það er að uppbætur á lífeyri ríkisstarfsmanna, sem ríkissjóður skuldar Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna, eru lækkaðar um 234 millj. kr. Hér er um skuld að ræða sem á að fresta að greiða. Sama er að segja um Vátryggingarsjóð fiskiskipa. Þar á að fresta greiðslu á 68 millj. kr., en í fjárlagafrv. sjálfu stendur að þar skuli vera um lokagreiðslu að ræða.

Iðntæknistofnunin var hækkuð nokkuð við 2. umr. fjárl. og henni veittar heimildir til að ráða nýtt fólk. Nú er þar skorið niður um 15 millj., þ.e.a.s. fjárveiting er hækkuð við 2. umr., en lækkuð við 3. umr.

Að því er varðar hafrannsóknaskipið Baldur, þá vita hv. þm. að það er búið að leggja mikið fjármagn í að gera þetta skip upp. Þessar till. hv. meirihlutamanna sýnast miða að því, að skipið verði ekki nema hálfnýtt á árinu 1979, og verður það þá heldur léleg nýting á þeirri fjárfestingu sem þarna er búið að leggja í.

Ég ætla ekki að ræða frekar um þessar till., aðeins gera að umræðuefni nokkrar till. hv. meiri hl., sem eru í samhengi, en það eru svonefndar félagslegar aðgerðir.

1. des. var launþegum lofað því, að þeir skyldu fá ýmsar félagslegar aðgerðir gegn því að þeir létu af kröfum um 3% hækkun í vísitölu og þar með kaupi. Það var löngum talað um að þetta mundi kosta ríkissjóð 1000 millj. kr. á næsta ári og raunar gert ráð fyrir því allt fram að 3. umr., en þá urðu þessar till. í heild — ég hef margspurt eftir því í fjvn. — alls um 260–300 millj. kr. ef allt er talið saman. Sýnist sitt hverjum um hvað eigi þar að telja, en hv. meirihlutamenn gátu aldrei bent mér á liði í þeirra hækkunartillögum sem fóru yfir 300 millj. kr. Þetta er allt og sumt sem kemur inn í fjárlög nú til þess að efna þetta mikla fyrirheit.

Herra forseti. Við minnihlutamenn í fjvn. höfum leyft okkur að flytja nokkrar till. Ég veit ekki hvort búið er að útbýta þeim hér, en þessar till. eru í lækkunarátt, til lækkunar á sköttum og lækkunar á ríkisútgjöldum. Þær felast í nokkrum lækkunarliðum. Ég skal nefna hér þá helstu.

Við leggjum til, að sérfræðileg aðstoð við þingflokka lækki um 5 millj. kr. Við vitum að þingflokkum hefur fækkað og óþarfi að hafa þessa upphæð eins háa og nú er.

Við leggjum til að forsrn. verði lækkað um 11 millj. 833 þús. Þar er um að ræða embætti blaðafulltrúa. Háskóli Íslands leggjum við til að lækki í rekstrargjöldum um 75 millj. kr., og þar förum við þá leið að lækka þessi útgjöld um vissa prósentutölu. Þá aðferð að lækka öll rekstrarútgjöld fjárlaga ríkisins um ákveðna prósentutölu tel ég vera fráleita. Hins vegar er hægt að beita þessari aðferð í ýmsum grónum stofnunum, og þetta leggjum við til að sé gert nú í Háskóla Íslands, en hann hefur gífurlegt fjármagn til umráða, eins og menn vita sem flett hafa fjárlagafrv.

Við leggjum til að stofnkostnaður nokkurra menntaskóla verði lækkaður, t.d. Menntaskólans í Reykjavík, Menntaskóla á Austurlandi, en ég sé að meiri hl. gerir till. um hækkun til hans. Það má vera að það sé raunhæft, en eftir því sem við höfum upplýsingar um verður ekki unnt að ljúka þar verki, þótt aukið fjármagn sé lagt til, og því leggjum við til að fjármagnið verði lækkað og rekstri skólans frestað, en þar er um 18 millj. kr. lækkunartill. að ræða.

Ég skal fara fljótar yfir sögu. Við Menntaskólann í Kópavogi leggjum við til að gjaldfærður stofnkostnaður verði lækkaður um 30 millj. og við Kennaraháskóla Íslands um 50 millj. Ríkisútgáfa námsbóka, rekstrargjöld verði lækkuð um 20 millj. rúmar, endurskoðun námsefnis um 50 millj. Varðandi Nýja hjúkrunarskólann leggjum við til að hjúkrunarnámið verði meira sameinað en nú er og að Nýi hjúkrunarskólinn verði lagður niður síðari hluta á þessu ári.

Við leggjum til að prófdómarastörfum í grunnskólanum verði hætt að mestu leyti, á svipaðan hátt og gert er nú við Háskólann. Vistheimilið í Breiðuvík verði lagt niður. Byggingarsjóður Þjóðarbókhlöðu verði skorinn niður um 150 millj. Útgerð Drafnar, sem er hafrannsóknaskip, verði hætt, og við teljum slíkar till., að ákveðnir liðir séu hreinlega skornir út, miklu vænlegri til árangurs í niðurskurði heldur en till. eins og þær sem hv. meiri hl. flytur um að nota Baldur bara hálft árið, — skip sem búið er að eyða í hundruðum millj. kr. í fína fjárfestingu og aðbúnað fyrir fiskifræðinga.

Við leggjum til að vistheimilið á Kvíabryggju verði lagt niður, að flugrekstri verði hætt á annarri flugvél Landhelgisgæslu, að sjúkratryggingar verði verulega lækkaðar, vegna þess að hægt er að steypa saman sjúkrasamlögum og umboðum Tryggingastofnunar ríkisins og spara þannig verulegt rekstrarfé. Einnig er unnt að fara sömu leið í rekstri spítala úti um land, eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. að verði gert í ríkisspítölunum í vaktavinnu, og spara þannig stórfé. Svo mætti lengi telja. Við leggjum einnig til að lögð verði niður fjárveiting til fæðingarheimilis hér í Reykjavík, en sú stofnun er hálfnýtt eins og sakir standa og ætti að vera í lófa lagið að sinna þeirri þjónustu á annan og ódýrari hátt. Þannig mætti telja upp. Við leggjum t.d. til að rekstrardeild ríkisskipa verði lögð niður, en hún kostar ríkissjóð 64 millj. kr. Rekstrardeild ríkisskipa á að annast útgerð allra skipa sem gerð eru út á vegum ríkisins og er það mjög óhagkvæmt fyrirkomulag, en í staðinn fyrir að þessi starfsemi verði lögð niður leggjum við til að Skipaútgerð ríkisins fái aukna fjárveitingu til að sinna hluta af því sem þessi stofnun hefur með höndum.

Till. okkar eru þannig raunhæfar. Þær eru um það að skerða ákveðna þætti í ríkisútgjöldunum og byggjast á raunhæfu mati, eins og við gátum framast lagt á á eins skömmum tíma og hefur til þessa verkefnis gefist. Einnig leggjum við til, og um það eru langflestar till., að sértekjur stofnana verði hækkaðar yfirleitt um 20%, en að sumu leyti verði þær hækkaðar um miklu hærri fjárhæð og sumar stofnanir látnar standa þannig algerlega undir sér. Þetta gefur 515 millj. kr. í sparnað. Alls nema sparnaðartillögur 2000 millj. kr.

Þessar tillögur eru gerðar af okkar hálfu fyrst og fremst til þess að freista þess að velta af almenningi litlum hluta af skattokinu sem nú er um að ræða. Forsenda þessara tillagna er því skattalækkun. Við leggjum til í till. á sérstöku þskj. hvernig þessi skattalækkun komi fram í tekjudæmi ríkissjóðs. Okkur er ljóst að hér er um frumtillögur að ræða. Miklu betur má gera á þessu sviði með yfirgripsmeiri athugun en kostur hefur verið á þessa daga í jólaönnum þingsins. En við væntum þess, að þingheimur taki þessum till. okkar vel og framhald verði á því að reyna að ráðast á ríkisbáknið með þessum hætti og létta sköttum af almenningi.