21.12.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1934 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

54. mál, fjárlög 1979

Frsm. samvn. samgm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 254 er brtt. frá samv. samgm. um aðstoð við þá er annast flutninga sérstaklega á sjó og vetrarflutninga á landi í einstökum héruðum. Nál. með þessum till. er á þskj. 253.

Eins og kunnugt er hafa flutningar hér á landi verið fyrst og fremst lengi vel á sjó með ströndum fram og önnuðust þá að verulegu leyti og gera enn skipafélög sem annast siglingar landa á milli og flytja vörur beint til hinna einstöku hafna úti um landið. Á síðustu áratugum hefur Skipaútgerð ríkisins annast þessa flutninga, einnig með strandferðum í kringum allt land, og gerir svo enn. Á yfirstandandi ári hafa orðið nokkrar breytingar á rekstri hennar og starfsemi og hafa þær breytingar orðið til þess, að flutningar Skipaútgerðarinnar hafa aukist verulega frá því sem áður var, þó að langt sé frá því að hún sé rekin hallalaust.

Enn fremur hafa á síðustu árum farið mjög í vöxt flutningar með bifreiðum, bæði vöru- og fólksflutningar, og sérstaklega eru það vöruflutningarnir á landi sem hafa aukist hin síðustu ár. Þessu til viðbótar hefur svo flugið annast að mestu leyti fólksflutninga innanlands og fer það árvaxandi.

Þessa þætti, sem ég hef nefnt að framan, hefur ríkið ekki stutt að öðru leyti en að því er varðar rekstur Skipaútgerðar ríkisins. Sá þátturinn, sem hefur fallið í hlut ríkissjóðs að styrkja nokkuð, hefur verið fólginn í því, að á sérstökum sviðum hafa nokkur skip annast flutninga innan svæða og frá svæðum til og frá höfuðborginni. Þessir flutningar hafa og farið vaxandi á síðustu árum, sérstaklega eftir að Herjólfur var keyptur til að annast flutninga á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar.

Ekki orkar það tvímælis varðandi íbúa Vestmannaeyja, sem ekki eiga kost á því að nota þjóðvegakerfi okkar á sama hátt og við sem búum á meginlandinu, að það var réttmætt og sjálfsögð ráðstöfun að láta þá fá þessa ferju til að annast eðlilega flutninga og samgöngur við Vestmannaeyjar, enda hefur komið í ljós að þessi ferja flytur bæði mikið af fólki, vörum og bifreiðum á milli lands og Eyja og hefur því orðið veruleg samgöngubót. Það orkar hins vegar ekki tvímælis, að kostnaður við hana hefur orðið allverulegur. Sérstaklega kom það til, að óhapp var með skipið sjálft þó nýtt væri á árinu 1977 sem kostaði rekstur ferjunnar geysilega mikið. Auk kostnaðar við viðgerðina sjálfa, sem að vísu var borgaður að nokkru af þeim sem byggðu skipið, skipasmíðastöð í Noregi, var einnig mikið tap á flutningum þetta tímabil sem Herjólfur var frá því að geta sinnt störfum.

Í þeim till., sem samgn. leggur fram á þskj. 254, er gert ráð fyrir að í heild fari 37 millj, kr. til flutninga á landi, en 401.6 til flutninga á sjó og er því till. samtals upp á 438.6 núll j. kr. Er það hækkun yfir 70% frá s.l. ári en þó ekki ef tekið er tillit til umframgreiðslna sem hafa átt sér stað á þessu ári til þessara verkefna.

Meginmálið er, eins og sést af þessu, flutningarnir á sjó, sem mestu máli skipta í þessu sambandi, því að flutningar á landi, sem fá 37 millj. í heild, skiptast á mjög marga staði og eru fyrst og fremst við það miðaðir að létta undir með því fólki, sem býr á hinum erfiðu dreifbýlisstöðum, vegna snjómokstra og starfsemi snjóbíla þegar um mikinn sjó er að ræða.

Hinn 17. jan. 1977 var skipuð af þáv. samgrh. nefnd til þess að athuga rekstur flóabátanna, og skilaði sú n. áliti í mars 1978. Við ákvörðun að þessu sinni var stuðst mjög við álit flóabátanefndarinnar, en svo hét þessi n., og leitast við að tryggja rekstur flóabátanna á næsta ári. Umsóknum fylgdu rekstrarreikningar fyrir árið 1977, rekstraráætlun fyrir 1978 og einnig 1979, auk annarra upplýsinga um starfsemina. Reynt var eftir föngum að samræma áætlanir um þetta hvað snertir verðlagsforsendur og fleira og rekstrarstyrkir síðan við þá niðurstöðu miðaðir. Einnig var gert meira átak nú en áður til að leysa þann vanda sem stafar af halla fyrri ára.

Ekki hafa þó verið leyst vanskil Herjólfs og Akraborgar, en þau eru fyrst og fremst við Ríkisábyrgðasjóð. Þarf að taka sérstaklega á því máli.

Það er öllum ljóst, að brýna nauðsyn bar til að gera meira átak í því að leysa rekstrarhalla þessara skipa frá fyrri árum en áður hefur verið, vegna þess að fjármagnskostnaður, miðað við núverandi vaxtakjör, er svo mikill að vonlaust var að halda þessari starfsemi áfram nema verulega væri á því tekið. Samkv. því, sem n. leggur til, er gert ráð fyrir að létta halla Baldurs um 15 millj. kr., sem er 62.5% af heildarfjárhæðinni, Fagraness um 23 millj. kr., sem er 62.1% af heildarfjárhæð skulda þess skips, og Herjólfs um 27 millj. kr., sem er 33.5%. Hækkun á styrk til skipa, sem annast þessa flutninga, er þannig á milli áranna 1978 og 1979, að til Akraborgar hækkar fjárveiting um 25%, til Baldurs um 77%, til Drangs um 55%, til Fagraness um 95% og Herjólfs um 96%. Hér er um að ræða það sem ég áðan sagði, að hinn uppsafnaði styrkur frá fyrri árum sagði mjög til sín. Ástæðan til þess, að ekki er eins farið að með Herjólf og Akraborg og hinar ferjurnar, er að við Ríkisábyrgðasjóð er þar að eiga og álit n. var að brýna nauðsyn bæri til að skoða það mál betur en gert hefði verið áður en ákvörðun yrði tekin.

Ég ætla mér ekki að þessu sinni að fara að tala hér langt mál, þar sem ég tel að nál., sem fylgir þessum till., sé svo greinargott að ástæðulaust sé að vera að lesa upp það sem í því stendur. Ég vil hins vegar benda á það sem ég sagði áðan um Akraborg og Herjólf.

Þessu til viðbótar vil ég geta þess um Hríseyjarferjuna, að sá bátur er mjög lélegur sem er notaður til þess að flytja fólk á milli lands og eyjar og m.a. skólabörn til Dalvíkur, og ekki talið forsvaranlegt að halda þeim bát úti lengur. Þess vegna er nú verið að smíða nýja ferju sem mun koma til rekstrar í mars-apríl á næsta vetri og gert er ráð fyrir, að hún kosti um 120 millj. kr. Það er því till. n. nú að veita nokkurn stuðning við þessa nýsmíði og hækkaðan rekstrarstyrk til þess að mæta þeim kostnaði, sem af þessum breytingum leiðir:

Sama er að segja um Mjóafjarðarbátinn. Það er gamall og lélegur bátur. Nú er verið að kaupa nýjan bát. Þessi bátur frá Mjóafirði annast tvær ferðir í viku til Neskaupstaðar og hefur viðkomu þar sem strandferðaskipin hafa ekki viðkomu og leysir þau frá að hafa viðkomu á hinum smærri höfnum á þessu svæði. Sá bátur, sem er verið að smíða þar, er 14 tonna bátur og nokkur styrkur er veittur til smíðanna.

Í framhaldi af því, sem ég hef hér sagt, er það álit flóabátanefndar þeirrar, sem ég vitnaði til hér að framan, að beina til ríkisstj. að sem fyrst verði hafin fullnaðarathugun á smíði er varðar Baldur og Fagranes, því að þeirra dómi eru þessir bátar hættir að henta þeirri starfsemi sem þeir nú fást við. Einnig er æskilegt að samsvarandi athugun verði gerð um Drang, en hann er líka orðinn nokkuð gamalt skip þótt reksturinn hafi gengið þar mun betur. Við athugun þessa verði tekið mið af breytingum á aðstæðum og kröfum um þjónustu á hafsvæðum bátanna. Einnig verði höfð hliðsjón af þeim breytingum á þjónustu Skipaútgerðar ríkisins sem nú eiga sér stað og eru fyrirhugaðar. Athugun miði að því að styrkja rekstrargrundvöll bátanna með aukinni rekstrarhagkvæmni og auka þannig öryggi samgangna í viðkomandi byggðarlögum auk þess að draga úr þörf fyrir opinbera styrki.

Enn fremur er það skoðun n., sem kemur fram í áliti hennar, að rétt sé að gera athugun á stuðningi við þá starfsemi, sem fer fram á landi, og þeim breytingum sem leiðir af bættu vegakerfi, sem nú fer árbatnandi svo sem kunnugt er.

Að sjálfsögðu er það skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð samkv. till. þeim sem hér liggja fyrir, að rekstri verði hagað svo að landsbyggðin njóti þess sem til er ætlast. Samkv. grg. þeirri, sem birt er í nál., leggur samvn. samgm. til að á fjárlögum 1979 verði veittar alls 438.6 millj. kr.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan sé ég ekki ástæðu til að hafa þetta mál lengra, þar sem nál. gerir fullkomna grein fyrir því máli sem hér er til meðferðar.