21.12.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

54. mál, fjárlög 1979

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. fjmrh. fyrir að fá að skjótast hér inn í áður en hann tekur til máls, en hann hefur að sjálfsögðu allan rétt til þess að taka til máls í Sþ. þegar honum sýnist. Ég er honum þakklátur fyrir að leyfa mér að skjótast hér á milli. En ástæðan fyrir því, að ég bað um það, er sú, að ég ætla að helga þessa ræðu mína aðeins því máli sem hv. síðasti ræðumaður ræddi um, þ.e.a.s. námslánum og málum tengdum þeim.

Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni á þessum fundi, að með því er fylgst hér við lokaafgreiðslu fjárl. hvernig af reiðir um námslán fyrir íslenska námsmenn. Og það er ofur skiljanlegt að það sé gert, þegar tillit er tekið til þeirrar staðreyndar, að nú situr í ráðherrastól í menntmrn. sá maður sem hefur fengið orð á sig fyrir það að vera mestur góðvildarmaður stúdenta, a.m.k. í orði kveðnu, í þessari kjarabaráttu þeirra, sem stundum er svo kölluð. Ég vil hér aðeins — með leyfi forseta — vitna til greinar sem skrifuð var á sínum tíma í Stúdentablaðið, nánar tiltekið fyrr á þessu ári, 25. jan., þar sem núv. hæstv. menntmrh. svarar spurningu Stúdentablaðsins á þessa leið, með leyfi forseta:

„Alþb. var andvígt stjfrv. um Lánasjóð námsmanna, sem samþ. var á Alþ. vorið 1976, og er hvenær sem er reiðubúið að standa að nýjum lögum og reglum um starfsemi Lánasjóðsins.“

Og síðar í þessari sömu grein segir:

„Við lögðum til að engar endurgreiðslur yrðu á lágum launum. Við töldum og teljum enn, að löngu sé orðið tímabært að umframfjárþörf námsmanna sé mætt að fullu, og miðað við þetta markmið og aðrar breytingar, sem við teljum nauðsynlegt að gerðar verði á úthlutunarreglum sjóðsins, er ljóst að óhjákvæmilegt er að veita auknu fjármagni til sjóðsins.“

Þetta er lestur úr grein sem hæstv. núv. menntmrh. ritaði í Stúdentablaðið fyrr á þessu ári. Og það er athyglisvert að fylgjast með því, að þetta er sami maðurinn sem nú fer með öll völd í þessu máli. Völdin, sem hann hefur, eru samkv. lögum um námslán og námsstyrki, en í 3. gr. þeirra laga er vísað til 16. gr. um það, að ráðh. fer með reglugerðarvald í þessu máli og hann fer með skipunarvald þeirra manna, sem mynda meiri hl. sjóðsstjórnar, ásamt öðrum í ríkisstj. Honum var þess vegna og er í lófa lagið að haga þessari reglugerð með þeim hætti sem hann telur heppilegast innan ramma laganna á hverjum tíma.

Ég minnist á þetta hér vegna þess, að komið hefur fram að það þurfi um það bil 200 millj. kr. til þess að brúa það bil sem myndast, ef úthlutunarreglurnar breytast á þann veg, að tekið sé tillit til barna stúdenta og aðeins sé miðað við að brúuð séu 85% umframfjárþarfar námsmannanna. Í fjárlagafrv. núna er gert ráð fyrir að 2.2 milljarðar komi á fjárl. Þessu til viðbótar — og á því vil ég gera skýran greinarmun og því sem kemur fram í fjárl. — á að vera 400 millj. kr. lánsheimild, og auk þess hefur hæstv. fjmrh. lýst yfir að komi 700 millj. kr. lánsheimild, eða samtals 3.3 milljarðar, en það er upphæð sem þarf til þess að staðið sé við óbreyttar reglur, að námsmenn fái í sinn hlut nákvæmlega sama og þeir fengu á yfirstandandi ári.

Nú skyldi maður ætla að þarna væri gengið til móts við sjónarmið námsmanna og sjóðsstjórnarinnar. Ég tel í þessu sambandi rétt að lesa, með leyfi hæstv. forseta, úr bréfi sem var sent fjvn. frá stjórn Lánasjóðsins og gerir grein fyrir þessu mál og viðhorfum sjóðsstjórnarinnar til lántökuheimilda eins og verið er að fjalla um í þessu sambandi. Þar segir orðrétt:

„Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að fjárþörf sjóðsins verði að hluta mætt með lántöku að upphæð 400 millj. kr.“ — Það er þessi upphæð sem ég minntist á áðan, en nú er komið í ljós að þessi upphæð verður 1100 millj. „Sjóðsstjórn vill taka fram, að hún er mótfallin slíkum lántökum, enda leysa þær engan vanda til frambúðar, heldur slá því enn á frest, að sjóðurinn geti farið að standa undir sér að einhverju verulegu leyti. Lántökur af þessu tagi ætti í hæsta lagi að hafa til vara, ef fjárþörf sjóðsins kynni að fara fram úr áætlun af ófyrirsjáanlegum ástæðum. Þessar vikurnar er einmitt til umræðu hjá stjórnvöldum að taka lán upp í fjárþörf sjóðsins á þessu ári. Af þeim sökum er skylt að benda á að ekki er gert ráð fyrir neinum greiðsluskuldbindingum vegna slíkra lána á næsta ári, enda er ógerlegt að áætla þær að svo komnu. Verði slík lán tekin er því ljóst að mæta verður greiðslum vegna þeirra með aukafjárveitingum.“

Læt ég hér lestri úr bréfi frá stjórn Lánasjóðsins lokið að sinni.

Það kom fram hjá hæstv. menntmrh. og hann hrósaði sér af því að nú hefði framlagið til sjóðsins tvöfaldast, og tók þá að sjálfsögðu allt með sem til sjóðsins rennur, þannig að útkoman yrði 3.3. milljarðar núna, en hefðu verið 1680 millj. á síðasta ári. (Menntmrh.: Á seinustu fjárlögum.) Á síðustu fjárl. Til viðbótar kom það sem rennt var hér í gegn í dag, sem ég hjó líka eftir hjá ráðh. Það var aukafjárveiting upp á 230 millj, kr., sem hæstv. ráðh. réttilega skýrði frá og kemur til viðbótar þeirri ábyrgðarheimild sem kemur til í fjárl. (Menntmrh.: Og 500 millj. betur.) Og 500 millj. betur, við skulum hafa það þannig. En í þessu sambandi er þó rétt að það komi fram, ef við tökum þær tölur og berum þær saman við það sem var í fyrra, þá var að því stefnt í fyrra við gerð fjárl., að í fjárl. sjálfum, — og það þarf að taka fram að þessar upphæðir breytast auðvitað vegna verðbólgunnar, eins og réttilega hefur komið fram hjá hæstv. ráðh., — þar var stefnan sú, að inn á fjárl. sjálf kæmu 85% af þessum 85% umframfjárþarfarinnar. Ef þessu hefði verið fylgt út í hörgul við gerð þessara fjárl., þá hefði þurft 2.7 milljarða beint inn á fjárl. og svo til viðbótar lántökuheimildirnar.

Mig langar til að rifja það upp hér, að fyrir nokkru var þingflokkunum boðið að senda fulltrúa á stúdentafund sem var haldinn í Félagsheimili stúdenta og var mjög fjölmennur. Á þessum fundi var hæstv. fjmrh., en hæstv. menntmrh. var önnum kafinn og sendi fulltrúa sinnt til fundarins, hv. þm. Kjartan Ólafsson, og þar var hæstv. fjmrh. margoft spurður að því, mig minnir fjórum sinnum, hvernig hann hygðist ganga frá þessum óskum námsmanna. Hann svaraði ætíð á sama veg, að hann mundi sjá til þess, að hægt væri að brúa 85% af umframfjárþörf lánþega sjóðsins. Nú hefur komið í ljós að þessi lánsheimild á að vera 700 millj. kr., sem þýðir það að reglugerðin á að standa óbreytt, úthlutunarreglurnar eiga að standa óbreyttar. Hæstv. ríkisstj., sem nú situr, og hæstv. menntmrh. ætla að nota sér það, að mér skilst, — hann leiðréttir mig ef rangt er með farið, — notfæra sér það, að nú standa málaferli yfir þannig að mál hefur unnist í undirrétti, en verið sent til Hæstaréttar. En ég tel að hægt sé að breyta reglugerðinni þrátt fyrir það að málið sé fyrir dómi. (Gripið fram í.) Ég vona, herra forseti, að ég fái að tala. Ég sé að hv. þm. Kjartan Ólafsson er á mælendaskrá hér á eftir og hann þarf að koma hingað til að standa fyrir máli sínu. Ég veit að stúdentarnir, sem standa hér á þingpöllunum, bíða eftir því.

Ég kem nú að Kjartans þætti Ólafssonar, hv. þm. Hann var á þessum fundi og lýsti þar yfir að hann skyldi sjá til þess, við 3. umr. fjárl. mundi hann koma með till. til breytinga á fjárl. um 200 millj. sem ættu að koma inn til viðbótar, til þess að hægt væri að taka tillit til barna stúdenta. Ég var einn þeirra, sem þarna voru mættir, var fulltrúi Sjálfstfl., og ég sagði: Ég mun ekki í stjórnarandstöðunni koma á Alþ. og gerast svo ábyrgðarlaus að flytja þar till. þess efnis að fá 200 millj. úr ríkissjóði án þess að annaðhvort komi til tekjuöflun eða niðurskurður á móti. En ég skal með glöðum huga og heilum styðja þá till. sem hv. þm. Kjartan Ólafsson kemur með, enda veit ég að hann hefur nú séð fyrir því, að annaðhvort komi niðurskurður eða nýjar tekjur á móti. — Ég ætla að standa við þetta, og ég vænti þess, að þegar hv. þm. Kjartan Ólafsson fær tækifæri til að koma hingað í ræðustólinn, en hættir samræðum úr sal, þá komi hann og standi fyrir máli sínu.

Nú má spyrja að því, og það er eðlilegt að þm. geri það: Er sanngjarnt að veita stúdentum lán með þeim hætti sem hér er um að ræða? — Við skulum þá fyrst minnast þess, að í lögunum er stefnt að því, að brúa skuli 100% umframfjárþarfarinnar, en það þýðir 1200 millj., að ég best veit, í staðinn fyrir 700 millj. að óbreyttum reglum, en líklega um 1400 millj., ef ég fer rétt með, ef tekið er tillit til barna eins og áður hefur verið minnst á.

Í öðru lagi má minna á að endurgreiðslur til sjóðsins eru verðbættar. Ef við köllum þetta fjárfestingu, þá er þetta líklega eini fjárfestingarlánasjóðurinn í landinu sem fer þannig með lánþega sína. Til þess verður að taka tillit, að þessi sjóður getur með tíð og tíma staðið að miklu leyti undir sér, ef frá þeirri stefnu verður vikið sem nú hefur verið mörkuð, kannske með enn meira æpandi hætti en áður, að taka ávallt lán og ýta þessu máli til framtíðarinnar. Ég veit að nú reynir á hæstv. menntmrh. Ég veit að þeir stúdentar, sem standa hér á þingpöllunum, bíða eftir efndum. Þeir hafa séð hann standa hér í ræðustól sem hv. þm. Nú situr hann á valdastól og hefur í sínum höndum öll völd í þessu máli.