21.12.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

54. mál, fjárlög 1979

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það eru örfá orð út af tveimur málum, í fyrsta lagi varðandi Þjóðarbókhlöðuna. Það kemur fram í till. meiri hl. fjvn. að lækka þá fjárveitingu um 125 millj. kr. Ég mun að sjálfsögðu fylgja öllum till. meiri hl. fjvn., en get fallist á þá uppástungu hæstv. menntmrh. að beita mér fyrir því, að þessi upphæð verði tekin inn á lánsfjáráætlun.

Í öðru lagi vil ég minnast örfáum setningum á Lánasjóð ísl. námsmanna. Það kom réttilega fram í máli hæstv. menntmrh., hvaða upphæðir það eru sem ætlað er að beina til Lánasjóðsins á næsta ári, þ.e.a.s. 2234 millj. kr. á fjárl, sem beinu framlagi og þar að auki 400 millj. kr. lánsheimild í fjárlagafrv., auk þess er þegar gert ráð fyrir að afla 700 millj, kr. til viðbótar á lánsfjáráætlun ríkisstj. Segir um það í aths. við fjárlagafrv., framlag sem þar er að vísu 400 millj. kr., en það nægir ekki nú miðað við verðlagshorfur, að þessar till. séu miðaðar við að lánahlutfall sjóðsins verði 85% af umframfjárþörf. Það er á valdi hæstv. menntmrh. að ákveða úthlutunarreglur innan ramma laga. En þetta er sú fjármögnun sem ætlað er að standa undir á næsta ári.

Ég vil svo aðeins láta það koma fram til viðbótar, að á þessu ári voru Lánasjóði ísl. námsmanna ætlaðar 1678 millj. 135 þús, á fjárl. Það hefur hvergi nærri nægt og hefur verið greidd til viðbótar úr ríkissjóði á árinu 500 millj. kr. hærri upphæð en þessi til þess að unnt væri að fylgja 85% reglunni, þar sem verðlag hefur hækkað um 42% á árinu eins og öllum er kunnugt. Til viðbótar við þetta hef ég þegar tekið ákvörðun um að greiða 200 millj. kr. til sjóðsins á þessu ári, er vegna þess að það fellur skuldabréf, sem sjóðurinn skuldar, upp á 200 millj. nú um áramót og það verður greitt, þannig að á þessu ári, 1978, verða samanlagðar greiðslur úr ríkissjóði og lán til sjóðsins 2 milljarðar 378 millj. 135 þús. kr. Ég taldi rétt að þetta kæmi fram, til þess að mönnum væri ljóst hvernig þessi mál standa á yfirstandandi ári.