21.12.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1950 í B-deild Alþingistíðinda. (1633)

54. mál, fjárlög 1979

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að mæla fyrir einni brtt. sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 305 ásamt hv. 5. þm. Norðurl. v. Þessi till. fjallar um það að hækka gjaldfærðan stofnkostnað Bændaskólans á Hólum úr 18 millj. 350 þús. í 40 millj. kr. Ég hafði boðað það við 2. umr. fjárl., að ef ekki yrði breyting á að því er varðaði þennan fjárlagalið, þá treysti ég mér ekki til að láta 3. umr. líða svo að ég gerði ekki tilraun til þess að fá hann hreyfðan. Því miður tókst ekki að fá hljómgrunn fyrir því í meiri hl. fjvn. að hækka þennan lið, og þess vegna tók ég það ráð að flytja þessa brtt.

Svo er ástatt um Bændaskólann á Hólum að þar eru mannvirki öll mjög gömul. Þar eru útihús hvergi nærri í því horfi að það nálgist að vera með eðlilegu nútímasniði, enda eru þau sum hver og jafnvel þau skástu þeirra byggð á áratugnum milli 1930 og 1940. Afleiðingar þessa koma auðvitað fram í starfsemi skólans. Að þessum málum hefur verið hugað nokkuð á undanförnum árum og hefur starfað stjórnskipuð n. til þess að gera till. um uppbyggingu á skólasetrinu. Sú stjórnskipaða n. hefur skilað bráðabirgðatillögum til hæstv. landbrh., gerði það snemma á þessu ári, — tillögum um uppbyggingu skólasetursins í nokkrum áföngum.

Ef það á að vera svar við þessum till., eins og hv. meiri hl. hv. fjvn. virðist vilja, að lækka framlög til gjaldfærðs stofnkostnaðar á Hólum um 250 þús., þá er það að mínum dómi illt svar, — svar sem ég treysti mér ekki til þess að una við án þess að gera tilraun til að fá breytingu á. Enn stendur svo á á Hólum í Hjaltadal, þessu forna menningar- og menntasetri, að þar hefur farið fram jarðhitaleit nú að undanförnu. Var borað þar sem jarðhiti fannst nú í haust, og eru ágætar horfur á því, að hagkvæmt sé að leiða varmaveitu að Hólum, en til þess skortir fjármagn. Sú till., sem ég flyt, mun mæta að nokkru þeirri þörf sem þarna er, en er þó ekki til samræmis við þær till., sem fram hafa verið settar. Ég sem sagt freista þess að ná þessu fram og stilla því svo mjög í hóf sem ég hef hér gert, og ég vænti þess, að hv. alþm. líti á þetta mál með skilningi.

Á þessum miðnæturfundi er að sjálfsögðu ekki ástæða til að fara að ræða afgreiðslu fjárl. mjög ítarlega, það hefur enda verið gert af hálfu okkar minnihlutamanna af frsm. okkar, hv. þm. Lárusi Jónssyni. Svo fór eins og jafnan áður, að eftir ágæta samvinnu í fjvn. klofnar hún að lokum og skiptist í meiri og minni hl. og að þessu sinni skilar meiri hl. till. sínum, en minni hl. sínum. Nú er það svo, að í till. meiri hl. n. eru auðvitað ýmsar þær till. sem við í minni hl. viljum gjarnan styðja og munum sjálfsagt styðja einhverjar þeirra. Hins vegar eru þar till. sem eru með þeim hætti sem við fellum okkur ekki við, og er langt frá því, að við séum þeim öllum samþykkir. Það mun koma í ljós við atkvgr. um þetta mál.

Afgreiðsla fjárl. að þessu sinni er byggð á mikilli tekjuöflun, má segja gífurlegri skattheimtu til ríkissjóðs, og hafa hv. alþm. og þjóðin í heild varla haft við að fylgjast með þeim nýju sköttum, sem samþ. hefur verið að leggja á nú þessa síðustu dagana. Þetta er megineinkenni þessara fjárl., ef þau verða afgreidd með þeim hætti sem lagt er til af hv, meiri hl. fjvn. Það er gífurleg skattheimta og aukin útgjöld ríkisins. Þess vegna var það, að við í minni hl. fjvn, vildum freista þess að setja fram till. sem breyta að vísu ekki nema litlu, en eru þó skref í þá átt að draga úr útgjöldum ríkisins og draga úr skattheimtu til ríkisins. Þetta gerum við með því að leggja til að útgjöld samkv. þessu fjárlagafrv, lækki um 2 milljarða kr. frá því sem hv. meiri hl. fjvn. leggur til.

Við leggjum fram á þskj. 304 brtt. sem fela í sér skattalækkun sem nemur þessum 2 milljörðum kr. Þessi lækkun skatta er sem hér segir: Eignarskattur einstaklinga lækki um 214 millj. kr. eða úr 1852 millj. í 1638 millj. Eignarskattur félaga lækki úr 2 milljörðum 561 millj. í 2 milljarða 275 millj. kr., eða um 286 millj. Tekjuskattur einstaklinga lækki úr 23 milljörðum 135 millj. í 22 milljarða 135 millj. kr., eða um 1 milljarð. Tekjuskattur félaga lækki úr 7 milljörðum 730 millj. í 7 milljarða 230 millj., eða um 500 millj. kr. Tekjuskattar lækka samkv. þessu um 1.5 milljarða, og gerum við ráð fyrir m.a. að því marki verði náð með því að hækka skattvísitöluna um 2 stig frá því sem gert er ráð fyrir í till. meiri hl. eða í 152 stig. Ljóst er að lækkun tekjuskatta er meiri en þessum 2 skattvísitölustigum nemur, sem mundu nema 750–800 millj. kr. En þær breytingar, sem þarf til að ná fram aukinni skattalækkun, mundu koma fram á breytingum á skattalögum.

Þessar till. virðast mér vera hinar mikilvægustu, og ég hygg að það sé næsta fátítt, að minni hl. fjvn. sýni þá ábyrgð í störfum að leggja fram rökstuddar till. alveg út í hörgul um niðurskurð fjárl. um 2 milljarða kr. til þess að geta náð fram skattalækkun á almenningi til ríkissjóðs. Þetta er næsta fátítt að gert sé af minni hl. fjvn., eftir því sem ég þekki til hér á hv. Alþ. Til þessa liggja auðvitað fyrst og fremst þær orsakir sem ég hef að nokkru drepið á, hin gífurlega skattheimta núv. hæstv. ríkisstj. til ríkisins sem gengur svo fram af okkur hv. alþm. í stjórnarandstöðu og að ég hygg almenningi, að ekki er unnt að láta svo til ganga án þess að bregðast við með þeim hætti að leggja fram till. til lækkunar. Þær till. verða marklausar nema jafnframt sé gerð grein fyrir því, með hvaða hætti á að spara útgjöld ríkisins á móti, og þetta höfum við gert.

Á þessum miðnæturfundi skal ég ekki ræða þetta í löngu máli. Ég vil þó segja það til viðbótar við það sem hv. þm. Lárus Jónsson sagði af hálfu okkar minnihlutamanna, að þær 550 millj. kr., sem ætlað er að lækka útgjöld ríkisins með því að hækka sértekjur einstakra stofnana, byggjast á því, að áætlanir í fjárlagafrv. um sértekjur einstakra stofnana eru byggðar á aprílverðlagi í vor. Launaliðir og önnur rekstrargjöld í fjárlagafrv. hafa verið færð á desemberverðlag, sem er meginlauna- og verðlagsforsenda frv. Þess vegna er ekki samræmi þarna á milli og rökrétt að hækka sértekjur til samræmis við útgjöld í launum og öðrum rekstrarkostnaði. Það höfum við gert með því að færa þær allar upp um 20%. Þess vegna er með þessum hætti í flestum tilvikum ekki verið að íþyngja þeim stofnunum, sem hér eiga hlut að máli, umfram það að sértekjur þeirra séu metnar með eðlilegum hætti. Þess er skylt að geta, sem hér hefur komið fram og birtist á þskj. 303; að sértekjur einstakra stofnana, sem við teljum að sé unnt og sjálfsagt að taka til sérstakrar athugunar, eru hækkaðar mun meira en þessi 20% regla gerir ráð fyrir. Ég skal ekki eyða máli í að rekja þessa þætti, enda hefur það verið gert.

Ég get skýrt það, að í einum lið þessara till. er gert ráð fyrir að jarðræktarframlög lækki úr 990 millj. í 920 millj. Jarðræktarframlög í fjárl. eru jafnan áætlunartala. Þau eru lögbundin og skylt að greiða jarðræktarframlög samkv. jarðræktarlögum. Ef sú áætlunartala, sem stendur í fjárl., er hærri en framkvæmdir verða sem greiða á framlögin út á, þá verður afgangur, en sé hún lægri en skylt er að greiða lögum samkv. greiðir ríkissjóður umfram það sem stendur í fjárl. Mér er það ljóst, að aldrei. verður að fullu hægt að segja hvort áætlunartala af þessu tagi sé nákvæmlega rétt. Hitt liggur þó fyrir, að mikil umr. fer nú fram í þjóðfélaginu um það, að óhyggilegt sé að stækka búin mikið frá því sem nú er. Ætla má þess vegna að nokkur samdráttur hafi orðið í jarðræktarframkvæmdum á þessu ári, sem gæfi þá tilefni til þess að ætla að útgjöld til þessa þáttar yrðu ekki eins mikil og gert var ráð fyrir, þegar frv. var samið. Þetta eru þær skýringar sem eru við þennan lið, og í þessu felast ekki till. frá okkur minnihlutamönnum um það að breyta jarðræktarlögum eða skerða framlög samkv. þeim á nokkurn hátt.

Í þessum till. okkar, sem eru í 129 töluliðum, er megintilgangurinn að ná fram nokkrum sparnaði. Við teljum að það sé hlutverk fjvn. að benda á leiðir til þess að spara í ríkiskerfinu, og þó að við höfum sett fram þær till. sem birtast á þskj. 303, þá höfum við lýst því yfir, við fulltrúar minni hl. í hv. fjvn., ásamt fulltrúum meiri hl., að við erum fúsir til þess að starfa að því áfram, þegar um hægist eftir fjárlagagerðina, að leita leiða til sparnaðar í ríkiskerfinu. Þess er enda full þörf, því að það er með ódæmum hvað rekstrarútgjöld ríkisins og launaútgjöld ríkisins þenjast út með ári hverju. Að mörgu er að hyggja í þeim efnum, en þó þarf þar í mörgum greinum að breyta lögum svo að árangri verði náð.

Ég læt lokið að ræða þær till. okkar, sem hér liggja fyrir, og vitna að öðru leyti en ég hef hér sagt til framsöguræðu hv. þm. Lárusar Jónssonar.

Hér hefur t.a.m. verið rætt um brtt. sem borist hafa frá hv. þm. Alþfl., og það er nú búið að gera það svo rækilega að ég sé varla ástæðu til að bæta þar við. Þó er eitt sem ég vil minna á til viðbótar í örfáum orðum.

Hv. þm. Alþfl. hafa títt á undanförnum vikum í sambandi við sína mörgu fyrirvara látið að því liggja, að eitt aðalatriði þeirra væri að fjárl. yrðu afgreidd með greiðsluafgangi. Þetta er gott og heilbrigt markmið, og það er virðingarvert hjá hv. þm. Alþfl. að vilja hafa þetta markmið fyrir augum og haga störfum sínum í samræmi við það. En síðan koma brtt. á þskj. 279 sem eru ekki nákvæmlega í samræmi við þetta ákveðna sjónarmið. Þó að hér sé ekki um mjög margar brtt. að ræða, þá fela þær þó í sér í heild um hálfs milljarðs útgjaldaaukningu ríkissjóðs. Í þessum fáu till. á einu þskj. leggja þm. Alþfl. til að útgjöld ríkisins verði aukin um sem næst hálfan milljarð eftir allar yfirlýsingarnar, eftir alla fyrirvarana um afstöðu sína til afgreiðslu fjárl. sem þeir mundu snúast harkalega gegn ef þau yrðu ekki afgreidd með greiðsluafgangi. Þetta er einn þátturinn af mörgum á þessu þskj. sem er ámælisverður og furðulegur, svo að notað sé orð sem hv. l. þm. Reykv. hafði um þetta þskj.

Ég skal ekki eyða fleiri orðum að þessu. Það hefur verið gert svo rækilega að ég ætla ekki að lengja orð mín um þetta þskj. sem er á margan hátt með eindæmum.

Ég skal senn láta máli mínu lokið, hæstv. forseti. Það er fjölmargt í sambandi við fjárlagagerðina sem væri ástæða til að ræða. Það er vitaskuld fjölmargt sem við fulltrúar minni hl. teljum að sé vangert, um leið og við teljum að gengið sé of langt í öðrum greinum. Sú mikla skattaherferð, sem farin hefur verið gegn þjóðinni til þess að mæta þeim útgjöldum, sem fyrirhuguð eru hjá ríkissjóði á næsta ári, er þó þess eðlis að við höfum kosið, eins og hér hefur komið fram, að mæta þessu ástandi með gagngerum till. um niðurskurð útgjalda ríkisins og nákvæmlega jafnháum till. um tekjuöflun ríkisins, tekjuöflun á sviði eignarskatta og tekjuskatta. Við teljum okkur ekki hafa svigrúm til þess að bera fram miklar hækkunartillögur í einstökum greinum þó að þar sé viða vangert, eins og ég hef þegar sagt. Við bætist að ekki er séð fram úr útgjaldaáformum ríkisins í heild á næsta ári, þar sem ekki hefur enn sést stafkrókur af lánsfjáráætlun ríkisstj. fyrir næsta ár.

Það er ámælisvert í fyllsta máta, að þegar fjárlagaafgreiðsla fer fram skuli ekki hafa verið kynntar fyrir Alþ. fyrirætlanir ríkisstj. í sambandi við lánsfjármagnaðar framkvæmdir á næsta ári. Þess vegna er ekki hægt að gera sér fulla grein fyrir sumum þáttum ríkisbúskaparins og framkvæmda á vegum ríkisins. Svo er t.d. um orkumál. Þar eru ýmsir endar lausir og á engan hátt hægt að sjá fyrir hvernig þeir verða hnýttir fastir. T.d. eru ætlaðar einungis til styrkingar dreifiveitna 200 millj. kr. í fjárl., sem er meira en þrefalt minna en margniðurskornar tillögur Rafmagnsveitna ríkisins gerðu ráð fyrir og minna en varið var til þessara verka á þessu ári. Blasir þó við að verði ekki bætt úr er naumast um annað að tefla en að taka upp skömmtun í verulegum mæli í heilum landshlutum eða a.m.k. í allmörgum sveitum. Er þó ástandið verst í þessu efni víða á Suðurlandsundirlendinu.

Í þeim till., sem okkur voru kynntar einnig í sambandi við orkumálin, var ekki annað að sjá en fyrirætlun ríkisstj. væri að ljúka Vesturlínu á þremur árum. Lagning Vesturlinu hófst á þessu ári og upphaflegar fyrirætlanir voru að ljúka henni á tveimur árum. En eftir þeim till., sem okkur hafa verið kynntar í sambandi við byggðalínur eða 132 þús. kw línur, var ekki annað að sjá en áfangaskil í þeim efnum væru þannig, að þessari línu yrði eigi lokið fyrr en 1981. Þá hygg ég að fari að verða erfiðara um vik í sambandi við rekstur Orkubús Vestfjarða en verið hefði, ef þessari framkvæmd hefði mátt ljúka á tilsettum tíma eins og til var ætlast í upphafi. Má raunar furðu gegna að hv. þm. sem hér talaði næstur á undan mér, Kjartan Ólafsson, skyldi ekki víkja einu orði að þessum málaflokki, jafnmikið og hann tók upp í sig hér á hv. Alþ. fyrir fáum vikum varðandi þetta sérstaka mál.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. Af nógu er að taka, margt er órætt. Við getum haldið áfram drjúgt fram á næsta ár að ræða þessa fjárlagaafgreiðslu, en jólin fara í hönd og það hentar að láta máli lokið.