21.12.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

54. mál, fjárlög 1979

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Nokkrir þm. Alþfl. hafa lagt fram brtt. við frv. til fjárl. um tilfærslu innan þess fjárlagaramma sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um.

Till. Alþfl. í landbúnaðar- og skattamálum eru svo þekktar að þeim þarf varla eða ekki að lýsa. Till. þessar fela í sér allverulegan niðurskurð á framlögum til landbúnaðar. Þessar fjárhæðir verði samkv. till. þessum fluttar til ábatasamra hliðarbúgreina í landbúnaði, til þess að bæta samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar og til þess að hækka skattvísitölu, lækka skatta. Þessum till. er lýst á þskj. 179, en þessum hugmyndum lýsti formaður þingflokks Alþfl. við 1. umr. þessa máls. Samstarfsflokkum okkar hefur því verið kunnugt um þetta frá upphafi fjárlagagerðar. Ég tel að það sé ofur eðlilegt að einstakir stjórnmálaflokkar geri grein fyrir sérstöðu sinni með flutningi einstakra till. Fulltrúar Alþfl. í fjvn. hafa auk þess gert grein fyrir þessum hugmyndum í fjvn. Aukreitis bætist við að þm. Alþb. hafa við 3. umr. um þetta fjárlagafrv. flutt till. um niðurskurð á fjárl. vegna Atlantshafsbandalagsins, sem þeir hafa sínar skoðanir á, þrátt fyrir að stjórnarsamstarfið miðist við aðrar hugmyndir. Við flytjum okkar till. um landbúnaðar- og skattamál.

Hins vegar er það gjarnan svo í þessu lífi, að kommarnir komast upp með ýmislegt sem öðru fólki er ekki liðið. Kommarnir komast upp með að flytja till., hafa í frammi málflutning, sem er kallað að ekki séu mannasiðir þegar aðrir eiga í hlut. Vera má að þetta sé lífsmáti sem við hin þurfum að sætta okkur við, að um kommana gildi önnur umgengnislögmál. Alla vega mun það vera svo, að engir hafa orðið æfari en einmitt kommarnir út af því, að við mörkum sérstöðu okkar í landbúnaðar- og skattamálum. Það virðist vera eins konar einkaleyfi sérstöðunnar sem hér gildir. En það er nú einu sinni svo, að það eru bara sumir kommar, allflestir eru það nú ekki, svo er guði fyrir að þakka, í bili a.m.k., á meðan Félagi Jesús ákveður ekki annað.

En allt um það vil ég segja hér, að vegna þessara till. mun hafa svo verið í kvöld í þessu húsi, og um það mun hv. þm. vera kunnugt, að orðið hafa erfiðleikar í stjórnarsamstarfinu eina ferðina enn vegna þess að allnokkrir þm. Alþfl. hafa flutt þessar till. Ég vil segja það, að eftirgjöf er ekki minn „stæll“ og hefur aldrei verið, en ég læt félögum mínum í Alþfl. eftir að gera nánari grein fyrir þeim þætti málsins.