21.12.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

54. mál, fjárlög 1979

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég hafði beðið um orðið fyrr í kvöld, þegar ég sá að tveir af flm. þessarar till. höfðu kvatt sér hljóðs. Ég bjóst við því, að þeir mundu rökstyðja hana og mæla fyrir henni efnislega. Þeir hafa nú dregið þessa till. til baka. Ég ætla ekki að ræða um pólitískan „stæl“ í því samhengi. (Gripið fram í.) Nei, það er rétt, Vilmundur. Ég ætla að vona að ég þurfi ekki að grípa til þess, eins og sumir hér, að gera siðleysið að mínum „stæl“. Það er nú einu sinni þannig, að siðaðra manna samfélag byggist á því, að menn geti treyst orðum hver annars, að samkomulag standi og gildi, að það, sem menn hafa handsalað að morgni standi lengur en til kvölds. (VG: Hvað með NATO-till. ykkar?) Það er sá siðaðra manna „stæll“, Vilmundur Gylfason, sem við höfum tamið okkur í þessu stjórnarsamstarfi. Þegar samkomulag hafði verið gert um að standa að afgreiðslu fjárl., eins og formaður Alþfl. lýsti í morgun, þá bjuggumst við við því að það samkomulag mundi standa. (Gripið fram í.)

Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast við hv. þm. hér, heldur hafa aftur yfir þau orð sem ég mælti í útvarpsumr. þegar fyrst bar á aðgerðum af þessu tagi: Við fyrirgefum ykkur, því að við vitum að þið vitið ekki hvað þið eruð að gera.