21.12.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

54. mál, fjárlög 1979

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þingheimur hefur orðið vitni að enn einni uppákomunni hjá Alþfl. Enn einu sinni hefur Alþfl. haft uppi stór orð og miklar ráðagerðir, en runnið á rassinn nær samstundis. Þetta er orðið ekki aðeins daglegur viðburður, heldur atburður sem skeður bæði kvölds og morgna og kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Ég var reyndar búinn að tjá mig um þetta í ræðu fyrr í kvöld varðandi þessa till., að mér þætti líklegt að hún kæmi ekki til afgreiðslu.

Ég ætla ekki að fara að blanda mér í þessar sérkennilegu umr. þeirra samstarfsflokkanna og þeirra félaganna hv. þm. Vilmundar Gylfasonar og Ólafs Ragnars Grímssonar. En þau orðaskipti, sem við urðum vitni að áðan, lýsa kannske í hnotskurn mjög vel því andrúmslofti sem ríkir innan herbúða stjórnarflokkanna um þessar mundir.

Ein af ástæðunum fyrir því, að þessi brtt. er dregin til baka, er sú að sögn hv. þm. Árna Gunnarssonar, að komið hefur í ljós í þessum umr. að þessar till. hafa ekki stuðning. Nú er þetta nokkuð merkileg yfirlýsing, þegar þess er gætt að ekki hefur verið flutt framsaga fyrir þessum till. og þaðan af síður hafa hv. þm. tjáð sig um þessar till. að neinu marki, alla vega enginn stjórnarþm. Ég held því að það sé alls ekki útséð um það, hvaða undirtektir og hvaða afgreiðslu þessar till. fengju ef þær kæmu hér til afgreiðslu. Þess vegna hef ég ákveðið að taka upp eina till., þ.e.a.s. till. nr. 2 á þskj. 279, svo að það geti komið í ljós og Alþfl. geti þá fengið úr því skorið, hvort þessi till. þeirra fái stuðning. Ég geri ráð fyrir því, að þeir standi við þessa till. sína. Þá kemur einnig í ljós, hvort einhverjir aðrir þm. mundu ljá þessari till. atkv. Till., sem ég ber upp, er shlj. þeirri till. sem er á þskj. 279 og hljóðar svo: „Við 7. gr.

Skattvísitala árið 1979 skal vera 151 stig miðað við 100 stig árið 1978.“

Ég óska eftir að þessi till. sé tekin fyrir og greidd atkv. um hana.