21.12.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1974 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

54. mál, fjárlög 1979

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er orðið áliðið nætur, en þó hygg ég að eitt atriði, sem fram hefur komið hjá tveimur þm., hv. 2. þm. Austurl., Vilhjálmi Hjálmarssyni, og nú síðast hjá hv. 1. þm. Reykn. Matthíasi Á. Mathiesen, þarfnist nokkurrar skoðunar. Þeir hafa báðir sagt — og tala þar af allnokkurri reynslu, þinglegri reynslu á ég þá við — að nú hafi verið óvenjulegir dagar í þinginu, og báðir hafa þeir raunar notað þau orð að á ferli sínum muni þeir ekki eftir öðru eins. Efnislega a.m.k. hefur þetta verið sagt. Þetta hygg ég að vel kunni að vera. Ég er auðvitað nýgræðingur í þessari stofnun eins og allflest flokkssystkina minna eru, en af svolitlum lestri bóka um þessa stofnun hygg ég að ég geti verið sammála um þessa ályktun. En þá hygg ég að okkur öllum sé skylt að spyrja: Af hverju er þetta með þessum hætti?

Ég hygg að það sé óhætt að leiða hjá sér að sinni spurninguna um það, hver beri ábyrgðina. Hins vegar er það svo, að efnahagslífi þjóðarinnar hefur svo verið farið um allmörg ár að við erum orðin föst í farvegi 50% verðbólgu. Það er orðinn nánast kækur að segjast vera á móti verðbólgunni, en haga sér svo allt öðruvísi. Við í mínum flokki höfum að því leyti gengið fram fyrir skjöldu, með misjöfnum árangri skal ég fúslega viðurkenna, að við höfum verið að draga siðferðileg rök og ályktanir af verðbólguástandinu. Við höfum ótæpilega bent á það, með hverjum hætti verðbólgan veldur eignatilfærslu frá þeim, sem minna mega sín, til hinna, sem meira mega sín og hafa aðstöðu í kerfinu og bákninu. Við höfum ítrekað verið að sýna fram á það, hvernig láglaunafólkið í þessu landi verður ævinlega verst úti í því kapphlaupi sem hér á sér stað. Og ég vil bæta við, vegna þess að slíkt hefur áður komið hér til umr., að svokölluð rannsóknarblaðamennska undanfarinna ára, ef hægt væri að draga saman í einn hnút þau ólíku mál sem um hefur verið fjallað, á sér eina rót, og það er verðbólgan. Það er spillingin og spillingaráhrifin sem alltaf og alls staðar hefur af þessu ástandi leitt. Þegar þetta er sagt, er ekki óeðlilegt að þegar ný kynslóð kemur inn í þessa sali, sem vissulega hefur litla reynslu af þingstörfum, sé óskað eftir því, að með öðrum hætti sé á málum tekið en gert hefur verið undanfarin ár.

Við vitum það, að hér sat ríkisstj. í fjögur ár með sterkan þinglegan meiri hluta, en skorti einhvern veginn allt jarðsamband við fólkið í þessu landi. Afleiðingar þess í efnahagslegu tilliti voru verðbólgan, sem jafnaðarlega og í lok þessa tímabils nam milli 40 og 50%, og lausungin, upplausnin af þessu, sem blasti við hverjum manni og hverju barni. Þessu höfum við viljað breyta, og okkur hefur verið full alvara í því sem við höfum verið að gera. En vandinn er aftur sá, að við verðum að taka þátt í samsteypustjórn. Við höfum ekki hreinan meiri hluta. Vandinn er líka sá, að það eru skil sem ekki flokkast eftir línum milli hægri og vinstri kannske fyrst og fremst, heldur markast af öðrum lögmálum, af öðrum lífsskoðunum, og kannske ekki síst — að hluta a.m.k. — eru skil á milli kynslóða í íslenskum stjórnmálum.

Ég er þeirrar skoðunar, að það væri beinlínis óeðlilegt ef allt væri rólegt í stjórnmálum við þessar aðstæður. Í því, sem einhverjir — og kannske með nokkrum rétti — kalla upphlaup, er rauði þráðurinn það sem við höfum verið að gera, að reyna að spyrna við fótum með eitt meginmarkmið í huga og það er rökrétt af því sem að framan er sagt. Þetta meginmarkmið er að ná verðbólgunni niður og — ég hef sagt það áður og segi enn — fórna þá öðrum markmiðum um sinn a.m.k. Rauði þráðurinn í þeim aðgerðum, sem við í mínum flokki beittum okkur fyrir eftir 1. des. á grundvelli loforða sem þá lágu raunar fyrir, var að mynda samstæða og heildstæða stefnu til langs tíma sem hefur þetta að meginmarkmiði, en þar sem jafnframt væri ekki eingöngu verið að ráðast að launafólkinu, að launafólkið a.m.k. hefði þá tryggingu ríkisvaldsins að verið væri að fremja aðgerðir sem gengju í andverðbólguátt á öðrum sviðum einnig.

Ég þarf auðvitað ekki að lýsa því, hversu óendanlegum vonbrigðum það hefur valdið, ekki aðeins mér, heldur mínum flokki og að ég hygg nýrri kynslóð í þessu landi, með hverjum hætti stjórnarsamvinnan hefur verið. Það er auðvitað hárrétt og hverju orði sannara, sem fram kom í ræðu hv. síðasta ræðumanns, að það er engin heildstæð stefna til hjá ríkisstjórnarflokkunum. Málefnasamningurinn er yfirborðssamningur sem tekur ekki á nokkrum vanda. Þetta eigum við auðvitað að segja, því að ef þetta væri ekki svo, þá væri ekki núna verið að skipa sérstaka nefnd ráðherra til þess að koma sér saman um stefnu til nokkurrar framtíðar. Þetta liggur í hlutarins eðli og ég held að við, sem í þeim flokkum erum, sem þessa ríkisstj. styðja, gerum hvorki sjálfum okkur, umhverfi okkar né þjóð okkar nokkurn greiða með því að halda öðru fram.

Það, sem ég hygg þó að þeir, sem utan við okkar flokk standa, hafi misskilið, þó að það kunni að renna upp fyrir þeim nú á allra síðustu dögum, er þessi einfaldi og litli hlutur: Hver alvara okkur er í þeim aðgerðum og þeim till, sem við höfum verið að leggja fram að því er tekur til þessa verðbólguástands. Við sjáum það sem hið stærsta lykilatriði þeirrar gagnrýni sem við höfum haft fram að færa á undanförnum árum. Mér er það auðvitað sérstök raun, hvað samstarfið við Alþb. að því er tekur til þessara hluta hefur verið lítilfjörlegt og lítið á því að græða í þeim efnum. Og ég er ekki að segja hér neitt, sem þingheimur veit ekki. Við höfum átt langar viðræður um vaxtamál, m.a. um þá einföldu spurningu, hvort fjármagnið eigi að borga til baka á sannvirði, og þær umr. þekkir þingheimur svo vel að ekki þarf frekar um að fjalla. En ég tel skylt nú, þegar umr. um þetta fjárlagafrv. er að ljúka, að á þann rauða þráð sé lögð þung og rækileg áhersla, hversu ekki aðeins mér, heldur — ég vona og veit að það er rétt — allri minni kynslóð er mikil alvara í þessum verðbólgumálum sem eru að friðspilla þjóðlífinu öllu, friðspilla heimilunum og friðspilla umhverfinu öllu.

Það leiðir af sjálfu sér að við höfum mikla sérstöðu í þessum efnum. Ég skal verða fyrstur manna til að játa, að vera kann að við höfum gert einhver tæknileg mistök hér í þinginu, höfum stundum gengið of langt í kröfum okkar og á öðrum tímum gengið of skammt. Þarna kemur efalítið til, að á sama tíma og við erum fulltrúar nýrra sjónarmiða, þá erum við jafnframt nýgræðingar í þeim leikjum sem hér eru hafðir í frammi. En söm er alvaran í málflutningi okkar. Við hefðum viljað, og það segjum við sem stuðningsmenn þessarar ríkisstj., að hún færi réttar leiðir. Við hefðum viljað að það næðist stefna til lengri tíma. Við hefðum viljað að ríkisfjármálunum hefði verið breytt. Það hefur ekki tekist og það er enn eitt sporið aftur á bak frá því sem við hefðum viljað gera. Þetta vekur auðvitað endalausar spurningar. Og áfram mætti halda: Ef stjórnkerfið hjá okkur vill, ef þetta margflokkakerfi hjá okkur vill, er samt sem áður til tæknilegur möguleiki á því, að 32 þm. geti hér staðið saman að heildstæðum till. í þessum efnum. Okkur hefur verið alvara, en okkur hefur enn að mjög verulegu leyti tekist illa að koma markmiðum okkar fram.

Ég hef áður sagt það hér og annars staðar og lýst þeirri skoðun minni, sem kannske kann að hljóma öfgafull, að samningar í stjórnmálum séu siðspilltir. Ég er þessarar skoðunar hreinlega vegna þess að fyrir kosningar boðuðum við stefnu, — við gerðum það öll sem hér erum inni. Við göngum út frá því, að við séum að boða stefnu sem við viljum framkvæma ef við komumst í meiri hluta. Öll vitum við að það eru sáralitlar líkur á því og verður um langa hríð, að einhver einn flokkur hér á Alþ. komist í meiri hluta. Samvinna verður að vera höfð. Hún gengur misjafnlega. Til þessa hefur hún gengið í bókstaflegum skilningi illa á milli þeirra flokka sem reynt hafa að stjórna landinu, og þess sér merki í efnahagskerfinu öllu.

Herra forseti. Ég bið afsökunar á að hafa tekið þennan tíma. Mér finnst það nánast skylt, að undirstrikað sé rækilega með hverjum hætti staða okkar í Alþfl. er í samhengi við það sem á undan hefur gerst. Við erum ekki nema tæpur fjórðungur þingheims þrátt fyrir allt, en söm er alvaran í sérhverju spori, sem við höfum stigið og eigum eftir að stiga næstu vikur. Vinsamlegast bið ég þá, sem með okkur hafa verið að reyna að stjórna landinu, að taka tillit til þessara sjónarmiða.