22.12.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

1. mál, rannsókn landgrunns Íslands

Frsm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég skal gæta þess vandlega að fara eftir því sem hæstv. forseti ráðlagði hér og ég get fullvissað hann um að það er hæfilegur skrekkur í mér við þær refsiaðgerðir sem ella verður beitt. Ég mun hafa þessa ræðu stutta.

Hér er til umr. till. til þál. um rannsókn landgrunns Íslands: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að ráða nú þegar íslenska og erlenda sérfræðinga til að afla sem ítarlegastra upplýsinga um landgrunn Íslands og afstöðu til landsgrunns nálægra ríkja.“

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Það fór fram hér í hv. Sþ. ekki alls fyrir löngu nokkur umr. um nauðsyn þessarar rannsóknar og ég vísa að öðru leyti til nál., sem prentað er á þskj. 276 og hefur að geyma meðmæli utanrmn. með samþykkt þessarar till. Fjarstaddir afgreiðsluna voru Árni Gunnarsson og Vilmundur Gylfason.