22.12.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1983 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

3. mál, landgrunnsmörk Íslands

Frsm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það gegnir nokkuð svipuðu máli um klettinn Rockall eins og ég nefndi áðan um eyjuna Jan Mayen, og þessi till. til þál., sem flutt er af Eyjólfi K. Jónssyni o.fl., gengur út á það að mótmæla tilraunum Breta til að reyna að slá eignarhaldi á þennan klett.

Utanrmn. hefur fjallað um þessa till. og hefur orðið sammála um að leggja til að henni verði vísað til ríkisstj. svo breyttri:

„Alþingi lýsir því yfir, að ytri landgrunnsmörk Íslands til suðurs verði ákveðin án tillits til klettsins Rockall og að samvinna verði höfð við Færeyinga til að tryggja sameiginleg réttindi á landgrunnssvæðinu utan 200 sjómílna marka landanna.“

Undir þetta skrifar öll utanrmn. og ég mun ekki hafa fleiri orð um þessar till., aðeins segja það í lokin, að ég tel að með samþykkt þeirra og afgreiðslu undirstriki Íslendingar einu sinni enn samstöðu sína í landhelgismálinu, sem hefur verið órofa alla tíð.