22.12.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (1687)

54. mál, fjárlög 1979

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Sumir mundu nú nefna það hálfgerðan dónaskap að veitast að einni af skrifstofum rn., að forsrn. einu. En það er laukrétt sem Hannes Hafstein sagði einu sinni: Það er enginn skyldugur til að vera dóni þó að aðrir geri það, og þess vegna ætla ég að vera afskaplega kurteis.

Ég vil skýra frá því, að ég hef í ríkisstj. tjáð mig reiðubúinn til þess að skera niður rekstrarútgjöld forsrn. um 10% og það er nokkru hærri fjárhæð en þarna er um að tefla. En það var þó því skilyrði bundið af minni hálfu, að aðrir ráðh. gerðu slíkt hið sama í sínum rn. Sú skynsamlega ráðstöfun hefur ekki enn komið til framkvæmda. En það er ekki vafi á því, að rekstrarútgjöld rn. almennt verða tekin til meðferðar í sambandi við þá almennu heimild sem er að finna í fjárl. um niðurskurð ríkisútgjalda. Ég segi því nú og að svo stöddu nei við þessari tillögu.