22.12.1978
Efri deild: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1999 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Það er alls ekki ætlunin að upphefja hér nein ræðuhöld, en eitt atriði í sambandi við tekjuöflun ríkisins langar mig til að benda sérstaklega á og ég hef raunar nefnt það atriði lauslega við hæstv. fjmrh. Nú hefur ríkisstj. fengið því framgengt, að gert er í fjárlögum ráð fyrir hækkun þeirri sem tekjuskattsfrv. og önnur tekjuöflunarfrv. hæstv. ríkisstj. stefna að. Þess vegna má ætla að töluvert bætist nú í hinn fjárvana ríkissjóð. Þegar er gert ráð fyrir nýjum sköttum að upphæð tæplega 15 milljarðar kr. Þess vegna sýnist mér að hæstv. ríkisstj. ætti að hætta við eitt atriði sem ætlað er að vísu til þess að afla ríkissjóði tekna í bráð, en getur orðið ríkisstj. of dýrt í lengd. Ég á hér við tekjur ÁTVR. Það atriði, sem ég er með í huga, vaknaði í huga mér er ég heyrði að í Ríkisútvarpinu var tilkynnt í þessari viku að samkv. ósk fjmrh. yrðu útsölur ÁTVR opnar til kl. 10 í kvöld og á Þorláksmessu á morgun, laugardag. Ég þykist vita að meiri hl. hv. þm. sé þeirrar skoðunar, að hóflega drukkið vín gleðji mannsins hjarta. En jafnljóst er hv. þm., að ótrúlega mörg heimili í landinu eiga döpur jól vegna ofneyslu áfengis á heimilunum. Ég held að það væri velgerningur við þá, sem ekki þola umgengni við áfengi, og heimili þeirra að hafa útsölur ÁTVR lokaðar á Þorláksmessu. Hugmyndir um slíkt hafa oft komið upp á fyrri tíð og verið framkvæmdar. Ég vil leyfa mér að hreyfa þessu í sambandi við þá tekjuöflun ríkisins sem við fjöllum hér um og hvorki ég né aðrir sjálfstæðismenn erum á neinn hátt sammála ríkisstj. um, en okkur er hins vegar ljóst að mun ná fram að ganga fyrir atfylgi hv. þm. stjórnarflokkanna. Vil ég beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. fjmrh. sem er að vísu ekki hér í salnum, en veit um að ég ætlaði að bera fram þessi tilmæli, — ég leyfi mér þá að beina því til þeirra hæstv. ráðh., sem hér sitja að þeir styðji hæstv. fjmrh. í því og hvetji hann til þess að tilkynna í ríkisfjölmiðlunum nú í kvöld, að útsölur ÁTVR verði lokaðar á Þorláksmessu.