25.10.1978
Neðri deild: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

38. mál, verðlag

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því, að þeir úrskurðir verðlagsnefndar, sem hæstv. ríkisstj. fjallaði um á þeim fundi sínum sem hæstv. viðskrh. vitnaði til, voru úr gildi fallnir og aðrir nýir komnir í staðinn, sem m.a. olli því, að verðlagsstjóri treysti sér ekki til að gefa út nýjar gjaldskrár á þessum vöruflokkum, svo langt ég veit, og það verður þá leiðrétt ef rangt er með farið. Þetta sannar ljóslega að hæstv. ráðh. fer ekki með rétt mál. Þarna voru komnir nýir úrskurðir verðlagsnefndar. Eðli málsins samkv. voru það þeir sem hefði átt að taka fyrir á þeim ríkisstjórnarfundi.

Ég vil svo aðeins vekja athygli á því, að það kæmi ekki á óvart er hinar meiri hækkanir yrðu samþykktar á fundi ríkisstj. eftir 1. nóv. Það hefur komið fram í fjölmiðlum frá hæstv. viðskrh., að honum þykir rétt að draga vöruhækkanir á langinn fram yfir þann viðmiðunardag sem kaupgjaldsvísitalan er reiknuð út frá. Á hinn bóginn liggur ljóst fyrir, að m.a. alþýðusamtökin, Alþýðusamband Íslands, reyna að þrýsta á það, að verðhækkanir, sem nauðsynlegar eru, hafi eðlilegan framgang og komi til framkvæmda áður en kaupgjaldsvísitalan er reiknuð út. M.a. þess vegna var það sem fulltrúar Alþýðusambandsins samþykktu hina frekari hækkun á þeim vörutegundum og þeirri þjónustu sem hér ræðir um, en bæði fulltrúar Alþýðusambands Íslands og vinnuveitenda samþykktu allar þær hækkanir sem hér er um að ræða. Það er því óyggjandi, að þar var um faglega afgreiðslu á þessum málum að ræða. Það var ekki um að ræða pólitíska ákvörðun eða annarlega, heldur ákvörðun sem var samstaða um milli þessara aðila og áhersla lögð á að gæti náð fram að ganga.

Ég tel í þessu sambandi nauðsynlegt að ræða það örlítið, að opinber afskipti af verðákvörðunum með þessum hætti geta haft mjög afdrifaríkar afleiðingar. Þær geta valdið mjög verulegum hallarekstri hjá íslenskum iðnfyrirtækjum og með þeim hætti veikt samkeppnisaðstöðu hins íslenska iðnaðar gagnvart erlendri framleiðslu, þar sem við vitum að hækkanir á erlendri vöru, sem fram koma með lækkuðu gengi, ganga beint út í verðlagið og er enginn um það spurður. Það liggur líka fyrir og er deginum ljósara, að með því að þvinga fyrirtækin til hallarekstrar um lengri eða skemmri tíma verður sú þjónusta, sem. þessi fyrirtæki veita, sú vara, sem þessi fyrirtæki framleiða, dýrari en ella til frambúðar.

Og svo síðast, en ekki síst þetta: Hvers eiga þeir að gjalda, sem kaupa vörurnar á seinni stigum? Þeir þurfa þá ekki aðeins að bera uppi framleiðslukostnaðinn af því að framleiða þessar vörur fyrir þá, heldur er komið inn í verðlagið tap af framleiðslunni handa einhverjum öðrum. Gott dæmi um þetta var verðákvörðun á sementi á sínum tíma, þegar Sementsverksmiðjan var rekin með verulegum halla fyrri hluta árs. Þeir, sem voru svo heppnir að standa þá í byggingarframkvæmdum, fengu hið ódýra sement, en eftir því sem leið á árið var tekinn inn í verðlagið hallareksturinn frá fyrri hluta þessa árs og þeir, sem síðar byrjuðu, urðu ekki aðeins að borga sementið fyrir sig, heldur bera uppi hallann af óskynsamlegum verðákvörðunum á fyrri hluta þess árs.

Ég tel nauðsynlegt í sambandi við þetta mál, að sú þn., sem fær það til athugunar, kynni sér rækilega starfshætti verðlagsnefndar, hvernig verðákvörðun yfirleitt er háttað í þessu landi, og í því samhengi reyni að velta því fyrir sér, í hverju vernd stjskr. er fólgin í þessu sambandi.