22.12.1978
Neðri deild: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2002 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Í umr. um þetta mál, sem er ákaflega viðkvæmt deilumál hér í þingi og munaði við atkvgr. einu atkv., voru bornar fram uppástungur um málamiðlun sem hefðu átt að geta leitt til samkomulags í þessu mikilvæga máli, sem sagt á þá lund að taka um 500 millj. inn í fjárlög, sem samsvarar þeirri hækkun verðjöfnunargjalds sem 6% viðaukinn mundi gefa á næsta ári, og var boðið á móti af hálfu stjórnarandstöðunnar að ganga í að lækka útgjöld á móti. Ég harma að þessu tilboði var að engu sinnt og hæstv. ríkisstj. með iðnrh. í fararbroddi hirti ekki einu sinni um að ansa þessu tilboði. Þetta tel ég mjög miður farið.

Varðandi þá till., sem hér liggur fyrir frá hæstv. iðnrh., vil ég aðeins undirstrika það sem ég sagði í umr. hér í nótt, að það er ógerningur að skilja hvað felst í till. eða til hvers hún leiðir, og þrátt fyrir fsp. til hæstv. iðnrh. er ekki hægt að fá viðunandi svör við því. Það er með öllu óljóst, hvort fjárhæðin, sem 6% hækkunin gefur, á að ganga beinlínis til þess að lækka gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins nú eða á næstunni eða hvort þetta fé á að ganga til þess að greiða rekstrarhalla og fjárhagserfiðleika RARIK. Við þessu hafa ekki fengist svör.

Ég vil aðeins að lokum bæta því við, að ef svo fer, sem allar líkur eru til, að þetta frv. verði ekki að lögum fyrir áramót, því að það væri fráleit málsmeðferð ef hæstv. ríkisstj. ætlaði nú á örstuttri stund, þegar búið er að boða þingfrestun kl. 5 að reyna að knýja þetta frv. í gegnum þrjár umr. í Ed., þá tel ég ekki óeðlilegt að hæstv. ríkisstj. gefi fyrir áramót út brbl. um framlengingu á 13% verðjöfnunargjaldinu. Ég geri ekki ráð fyrir að stjórnarandstaðan muni að því finna.

Um þá till., sem hér liggur fyrir, greiði ég ekki atkv.