25.01.1979
Sameinað þing: 43. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2020 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

43. mál, orkusparnaður

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ummæli hæstv, iðnrh. um lofsvert framtak vélskólakennara og nemenda hans gætu valdið misskilningi. Þau voru nefnilega ekki á neinn hátt einskorðuð við Akranes. Þau störf og það frumkvæði, sem þessir aðilar áttu að stillingu kynditækja, fór fram miklu víðar, í mjög mörgum hreppum og kaupstöðum, þannig að ég tel rétt, þegar gerð er grein fyrir framvindu þeirra mála, að Ólafs þáttur Eiríkssonar og nemenda hans sé gerður fyrirferðarmeiri og merkari en kom fram í ræðu hæstv. iðnrh.

Ólafur var mikill áhugamaður um þessi efni og svo var einnig um nemendur hans. Þeir m.a. lögðu það á sig í páskafríum að heimsækja ýmis byggðarlög og stilla kynditæki. Það hefur e.t.v. ekki verið gefin út skrifleg greinargerð um árangur af þessu framtaki, en eitt er víst, að það var þó gerð grein fyrir því, m.a. í sjónvarpi og víðar. Þessi starfsemi stóð, að ég ætla, a.m.k. um tveggja ára skeið og hún átti sér stað í samvinnu við viðskrn. og iðnrn., og iðnrn. og viðskrn. af fátækt sinni studdu nokkuð þessa starfsemi.

Þetta finnst mér að ég verði að tíunda viðskrn. til gildis, þó að ég ætli ekki að telja hlut þess stóran í samanburði við iðnrn. En ég taldi rétt að láta þetta koma fram, vegna þess að þarna gæti orðið meinleg villa ef ekki væri leiðrétt, og það er ekki rétt að þannig sé a þessum málum haldið. Þarna var um merkilegt frumkvæði að ræða, og þeir eiga mikinn heiður skilið sem að því stóðu.

Leitað var samvinnu við sveitarfélög og Samband ísl. sveitarfélaga og gott ef ekki var haldið námskeið á vegum viðskrn. eða iðnrn., og ég hygg að megi skjalfesta að það hafi orðið góður árangur af þessari starfsemi og raunar undravert að henni skyldi ekki vera meiri gaumur gefinn og menn skyldu ekki almennt notfæra sér hana meir en þó varð raunin á, að ég ætla.

Hitt er svo rétt, að auðvitað hefur slíkri starfsemi líka verið haldið uppi, að ég best veit, af hálfu olíufélaga. Þau hafa haldið uppi fræðslustarfsemi í þessum efnum og menn á þeirra vegum hafa annast um stillingar, a.m.k. ef þess hefur verið óskað og e.t.v. án þess.

Ég vil að lokum taka það fram, að ég tel að með þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, sé hreyft hinu merkasta máli. Ég vil af heilum hug veita henni þann stuðning sem ég má.