25.01.1979
Sameinað þing: 43. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2023 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

150. mál, könnun á persónulegum högum og viðhorfum nemenda í 8. bekk grunnskóla

Fyrirspurnin í heild er þannig:

„Veturinn 1975–76 fór fram víðtæk og ítarleg könnun í Reykjavík á persónulegum högum og viðhorfum nemenda í 8. bekk grunnskólans. Niðurstöður könnunarinnar hafa verið nýttar í prófritgerðum íslenskra sálfræðistúdenta frá Árósaháskóla og hafa ritgerðirnar að geyma ályktanir um atferli unglinga, sem talsverða athygli hafa vakið. Fyrir nemendurna var lagður langur spurningalisti, sem svarað var í allt að þremur kennslustundum samfleytt. Þar sem hér var um að ræða víðtæka könnun meðal þorra nemenda eins árgangs á skyldunámsstigi, er eftirfarandi spurningum beint til hæstvirts menntamálaráðherra og óskað skriflegra svara, er lögð séu fram á Alþingi:

1. Hve margir nemendur í Reykjavík tóku þátt í könnuninni og hve stór hundraðshluti nemenda í Reykjavík á því námsári?

2. Hve stór hundraðshluti nemenda þessa árgangs á hverjum stað annars staðar á landinu tók þátt í könnuninni?

3. Hverjir stóðu að umræddri könnun, stjórnuðu henni og framkvæmdu hana?

4. Hverjir leyfðu könnunina?

5. Hverjum öðrum en börnunum sjálfum var sýndur spurningalistinn?

6. Var leitað samþykkis foreldra til þátttöku barna þeirra í könnuninni?

7. Hvernig var börnunum gerð grein fyrir spurningunum?

8. Hvernig hljóðaði skjalið með spurningunum og skýringum, sem lagt var fyrir börnin?

9. Var unnið úr upplýsingunum í tölvum erlendis?

10. Hvenær barst ráðuneytinu skýrsla um framkvæmd könnunarinnar og úrvinnslu úr henni og hvernig hljóðaði skýrslan?“

Svör við hverri einstakri spurningu fara hér á eftir:

1. 1427 nemendur eða 93.3% nemenda á 8. námsári.

2. Aðalkönnunin náði ekki til neins nemanda utan Reykjavíkur. Hins vegar var gerð forkönnun meðal 8. bekkjar á Selfossi til þess að prófa spurningaskrána sem var aðferð könnunarinnar til öflunar upplýsinga. Tóku 69 nemendur þátt í forkönnuninni. Með hliðsjón af svörum þeirra var skráin endurskoðuð og lagfærð.

3. Vísindalegur stjórnandi og ábyrgðarmaður könnunarinnar var dr. philos. Edvard Befring, þáverandi prófessor í uppeldissálfræði við Árósaháskóla, nú rektor Sérkennaraskólans í Osló. Könnunina framkvæmdu eftirtaldir íslenskir sálfræðinemar við Árósaháskóla: Andrés Ragnarsson, Ásgeir Sigurgestsson, Brynjólfur G. Brynjólfsson, Einar Hjörleifsson, Hugo Þórisson, Jónas Gústafsson og Pétur Jónasson.

4. Menntamálaráðuneytið. Áður en ákvörðun um leyfisveitingu var tekin hafði ráðuneytið samráð við fræðslustjórann í Reykjavík og prófessorana í uppeldisfræði og sálarfræði við Háskóla Íslands.

5. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að við fyrirlagningu spurningaskrárinnar (3.–4. febr. 1976) hafi hún verið sýnd neinum öðrum en þeim unglingum sem svöruðu henni. Áður hafði könnunin verið kynnt skólastjórum þeirra skóla, sem hlut áttu að máli, á fundi með fræðslustjóra. Var þeim þar látinn í té allrækilegur útdráttur úr spurningaskránni þar sem fram komu öll þau meginatriði sem um var spurt. Þeir aðilar, sem nefndir eru í 4. lið, höfðu að sjálfsögðu athugað skrána áður en leyfi varveitt. Því má bæta við að vissulega er hugsanlegt að þeir fræðimenn og stúdentar, sem aðild áttu að könnuninni, hafi sýnt öðrum spurningaskrána á einhverju stigi máls.

6. Nei.

7. Sem svar við þessari spurningu fer hér á eftir texti inngangs hinnar fjölrituðu spurningaskrár:

„Kæru skólanemar.

Það, sem hér er lagt fyrir ykkur, er spurningalisti, sem gerður er til þess að kynnast ungu fólki og skoðunum þess á ýmsum málum. Þessi spurningalisti er lagður fyrir alla nemendur 8. bekkjar í Reykjavík.

Aðstandendur þessarar könnunar eru 7 íslenskir sálfræðinemar við Árósaháskóla, undir stjórn doktors Edvard Befring, sem er prófessor í uppeldissálfræði við Árósaháskóla, Danmörku.

Það er mikilvægt, að þið svarið eins samviskusamlega og nákvæmlega og þið getið, þar eð niðurstöðurnar eru hluti vísindalegrar rannsóknar, sem á að varpa ljósi á lífshætti og skoðanir unglinga. Samsvarandi könnun hefur þegar verið framkvæmd í Danmörku og Noregi.

Við gerum okkur ljóst, að spurningarnar, sem eru í listanum, eru mjög persónulegs eðlis og geta verið viðkvæmt mál, t.d. er spurt um ýmislegt, sem kann að þykja óviðkunnanlegt. Við vonum, að þið látið þetta ekki á ykkur fá og að þið svarið eins vel og samviskusamlega og þið getið.

Farið verður með öll svörin til Danmerkur þar sem unnið verður úr þeim. Fyrir utan þá, sem beint standa að þessari rannsókn, og þeir hafa algjöra þagnarskyldu, mun enginn fá að sjá þá spurningalista, sem þið svarið, hvorki foreldrar, kennarar né aðrir.

Enn fremur viljum við henda á, að þið skilið þessu nafnlausu og þar af leiðandi kemur ekki í ljós hver svarar hverju.

Þið eigið að svara spurningunum í sömu röð og þær eru í listanum. Látið ekki litlu tölurnar, sem standa hægra megin við rúðurnar, hafa nein truflandi áhrif á ykkur. Þær eru aðeins til þess að auðvelda okkur að vinna úr upplýsingum.

Við viljum taka það fram, að þetta er ekki próf, heldur er þetta alveg óháð skólanum og kennurunum.

Byrjaðu nú að svara og farðu ekkí hraðar en þér hentar. Réttu upp höndina ef það er eitthvað, sem þú skilur ekki eða þarfnast nánari útskýringa. Allir hafa þrjá skólatíma til umráða.“

Þeir, sem lögðu skrána fyrir nemendur, lásu þeim texta, efnislega samhljóða þessum inngangi.

Vert er að láta þess getið, að í könnuninni var nafnleynd svarenda mjög rækilega tryggð. Var ekki einungis um það að ræða, að útfylltum spurningaskrám væri skilað nafnlausum, heldur var hvorki spurt um fæðingardag né bekkjardeild nemenda, einungis um fæðingarmánuð og skóla.

8. Sem svar við þessari spurningu fylgja hér með spurningar þær, sem lagðar voru fyrir nemendur, 114 spurningar alls. Svo sem sjá má eru þar gefnar skýringar í svigum þar sem ástæða hefur þótt til.

9. Já, nokkur hluti úrvinnslu var unninn af tölvu við Árósaháskóla.

10. Af þeim skýrslum um framkvæmd og niðurstöður könnunarinnar, sem áætlað var að semja, er ráðuneytinu kunnugt um útkomu fjögurra. Allar eru skýrslurnar prófverkefni og gefnar út fjölritaðar við Sálfræðistofnun Árósaháskóla sem greinargerðir um hluta UIR-rannsóknar (UIR = Ungdom i Reykjavík). Skýrslurnar eru þessar:

a. Andrés Ragnarsson: Tabere i skolen. Social skævhed(?) i den islandske folkeskole. Januar 1978.

b. Ásgeir Sigurgestsson: Ungdom og seksualitet, specielt med henblik pá seksualoplysning. Februar 1977.

c. Jónas Gústafsson: Ansatser til en analyse af nogie aspekter af den islandske familie og de unge i Reykjavik. Februar 1977.

d. Pétur Jónasson: Ungdomskriminalitet i Reykjavik. Februar 1978.

Eintök af þessum skýrslum fylgja hér með.

Auk framangreindra skýrslna er lokið einu prófverkefni. Er þar um að ræða verkefni Hugós Þórissonar: Familie, skole, samfund. En studie i forholdet social baggrund, socialisering og samfund, belyst ud fra undersögelsen UIR. August 1978. — Eintak þeirrar skýrslu hefur ekki borist.

Þá eru væntanlegar tvær skýrslur enn og munu þær fjalla um áfengismál og vímugjafa annars vegar og fyrirbærið einelti (mobning) í skólum hins vegar. Verður þá lokið þeirri greinargerð um könnunina, sem fyrirfram var ráðgerð.

2079

2091