29.01.1979
Efri deild: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2158 í B-deild Alþingistíðinda. (1751)

147. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Eins og kom fram í framsöguræðu hæstv. viðskrh. og nú í ræðu hv. 5. þm. Vestf., þá er það mál sem þetta frv. fjallar um, um breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils, ekki alveg nýtt af nálinni. Þetta mál hefur sem sagt nokkrum sinnum verið til umr. og umfjöllunar hér á hinu háa Alþingi. Einnig virðist manni að það, að þessi breyting hefur ekki verið framkvæmd fyrir löngu, hafi m.a. stafað af því, að Seðlabankinn eða stjórnendur hans hafi talið og lagt á það höfuðáherslu, að í sambandi við slíka myntbreytingu þyrfti að verða mikil stefnubreyting í meðferð efnahagsmála almennt. Ekki þarf annað en vísa til síðustu umsagnar stjórnar Seðlabankans um þáltill. þá sem hv. þm. Lárus Jónsson flutti á sínum tíma, en í umsögn Seðlabankans var einmitt skýrt tekið fram um þetta atriði sem ég var að benda á. Það er því ekki undarlegt þó að það veki nokkra furðu, að nú skuli með jafnskjótum hætti og ráð er gert fyrir í því frv., sem hér er lagt fram til meðferðar, unnt að fara í jafnumsvifamikla breytingu á mynt þjóðarinnar. Hlýtur því í þessu sambandi að vakna hjá manni sú spurning, sem ég beini til hæstv. viðskrh., hvort von sé á þessari verulegu stefnubreytingu í meðferð efnahagsmála almennt sem stjórn Seðlabankans sem æðsta vald okkar í peningamálum hefur hingað til talið alveg nauðsynlega forsendu fyrir því, að í slíka breytingu verði ráðist.

Ég hef reynt að kynna mér svolítið álit manna, sem ég tel að hafi aðstöðu vegna menntunar og reynslu á sviði efnahags- og peningamála til sérþekkingar á þessu sviði, — reynt að kynna mér skoðanir þeirra á því máli sem hér er flutt. Ég verð að segja, að hjá þeim aðilum, sem ég hef leitað til, hafa komið upp mjög miklar efasemdir um að í slíku verðbólguþjóðfélagi og við búum nú í sé gerlegt að gera jafnmikla grundvallarbreytingu á gjaldmiðli þjóðarinnar og hér er gert ráð fyrir. Persónulega tek ég undir þær skoðanir sem ég hef verið að lýsa, og mér er það ákaflega mikið til efs að nú sé valinn réttur tími. A.m.k. er ég fastlega þeirrar skoðunar, að meiri og víðtækari aðgerðir þurfi að koma til á fjármálasviðinu almennt, ef þessi breyting, sem gert er ráð fyrir í frv. sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, verður afgreidd og eigi að koma að gagni.

Í sambandi við þetta mál kemur upp í huga manns spurningin um það, hvort af hálfu stjórnvalda mundu verða gerðar ráðstafanir til þess að hinn nýi gjaldmiðill yrði t.a.m. frjálsari til yfirfærslu í aðrar myntir en gildir um núverandi íslenskan gjaldmiðil. Mundi vegferð þessarar nýju myntar verða gefið meira frelsi en gilt hefur í gjaldeyris- og peningamálum hjá okkur til þessa? Ég er alveg sammála hæstv. viðskrh., þar sem hann talaði um að höfuðverkefni hæstv. ríkisstj. — og ég mundi telja höfuðverkefni hv. Alþ., alþm. og þjóðarinnar yfirleitt — væri glíman við verðbólguna. En einmitt með hliðsjón af þeim ummælum og af því ástandi, sem ríkir í sambandi við baráttuna við verðbólguna, kemur það þá ekki mjög til álita að myntbreyting jafnumfangsmikil og hér er rætt um sé veigamikill þáttur í baráttu þjóðarinnar við verðbólguna?

Mig langar í þessu sambandi að benda á, að fyrir nokkrum árum birti einn ágætur, vel menntaður maður, Pétur Blöndal, tryggingafræðingur að mennt, blaðagrein sem bar heitið „Grædd er skulduð milljón.“ Efni þessarar greinar var hugleiðingar höfundar um það mikla verðbólguástand sem þá ríkti hjá okkur, sem þá var þó mun viðráðanlegra og á lægra stigi en nú — mig minnir að þessi grein væri skrifuð fyrir 4 árum. En ég geri þessa grein að umtalsefni nú vegna ábendinga greinarhöfundar í lok umræddrar blaðagreinar. Þá varpaði greinarhöfundur fram þeirri tillögu, hvort ekki væri kominn tími til þess að taka til gaumgæfilegrar athugunar að taka upp svokallaðan verðmæli, vísitölukrónu sem væri skráð daglega. Mér þykir hlýða að koma þessum ábendingum á framfæri, því að ég hef oft hugsað um þessa tillögu, sem birtist í þessari umræddu blaðagrein, og ég held að það sé miður að henni skyldi ekki gefinn meiri gaumur, því að ég held að ein meginorsök hins mikla ofvaxtar verðbólgunnar og hvernig hún hefur einhvern veginn orðið mikill bölvaldur í þjóðfélagi okkar, sé sú, að við höfum allt of lengi látið það viðgangast, að fé sé látið af hendi sem lán og annað án þess að tryggt sé að réttur höfuðstóll sé greiddur til baka. Ef við í sambandi við þær hugsanlegu aðgerðir, sem frv., sem hér liggur fyrir, mælir um, gætum gert þær ráðstafanir, að nýi gjaldmiðillinn mældist á hverjum tíma með þeim breytingum, sem yrðu á vísitölukerfinu, þannig að þetta yrði traustur og góður gjaldmiðill, sem stæði fyrir sínu, þá held ég að hér sé hugmynd sem sé mjög þess virði að hún sé tekin til athugunar við afgreiðslu þessa máls.

Ég tek undir þau ummæli, sem komu fram í máli hv. 5. þm. Vestf. sem talaði áðan, að myntbreyting út af fyrir sig, sem ekki er í neinum öðrum tengslum við stefnubreytingu í meðferð efnahagsmála almennt hjá þjóðinni og með tilvísan til þess órólega ástands, sem er hjá okkur á almennum peningamarkaði vegna þess verðbólguástands sem ríkir hjá þjóðinni, — slík breyting út af fyrir sig, sem ekki hefur annað inni að halda, getur verið mjög vafasöm. Kemur mjög til álita sú spurning hjá manni, hvort slík breyting ein gæti ekki einmitt, eins og kom einhvern tíma fram í áliti Seðlabankans fyrr þegar rætt var um slíka myntbreytingu, orðið í auknum mæli til þess að vekja tortryggni almennings á gjaldmiðlinum í stað trausts. Nú spyr ég um það, ef slík breyting sem hér er gert ráð fyrir nær fram að ganga, en verðbólgan látin halda áfram jafntaumlaust hjá okkur og hefur verið og einhvern veginn mistækist okkur að ráða við hana: Megum við þá kannske eiga von á því að við eigum eftir að lifa það í þjóðfélagi okkar að farið verði að yfirstimpla þessa nýju fallegu seðla um aukið verðmæti, vegna þess að það þætti ódýrast í framkvæmd að fara þannig að?

Ég held að þegar mál eins og þetta er til umr., sem hefur verið meðal fjármálastjórnenda þjóðarinnar jafnlengi til íhugunar, þá sé fyllsta ástæða til að staldra við og athuga gaumgæfilega að við flýtum okkur ekki of hratt.

Þetta vildi ég láta koma fram nú hér við 1. umr. Annars á ég sæti í þeirri n., sem væntanlega kemur til með að fjalla um þetta mál, svo að ég hef þá aðstöðu til þess að koma sjónarmiðum mínum þar betur fram.

Aðeins, herra forseti, áður en ég lýk máli mínu, vil ég — það er þó ekki stórt atriði — vekja athygli á ákvæðum 7. gr. frv., en þar segir svo í næstsíðustu mgr.:

„Frá og með 1. júlí 1980 skulu seðlar þeir og mynt, sem út var gefin fyrir 1. jan. 1980, hætta að vera lögmætur gjaldmiðill í lögskiptum manna. Seðlabanka Íslands er þó skylt að innleysa þá seðla og mynt í 18 mánuði eftir lok 6 mánaða frestsins.“

Með tilliti til hins mikla dreifbýlis í þjóðfélagi okkar hefði ég talið að þarna væri ástæða til að setja inn í eitt stig. Það er yfirleitt gert í þeim löndum þar sem slík seðlaskipti hafa orðið, að bankar og sparisjóðir taka lengur við hinum eldra gjaldmiðli. Þá eru 3 stig: Fyrst eru ákvæði um það, hversu lengi gamlir seðlar séu lögmætur gjaldmiðill í skiptum manna, svo líður nokkur tími sem bankar og sparisjóðir taka á móti þeim, og að lokum aðeins Seðlabanki landsins. En þetta er bara tæknilegt atriði, sem enginn vandi er að leiðrétta.