29.01.1979
Efri deild: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2160 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

147. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. viðskrh. fyrir mjög greinargóða ræðu er hann fylgdi þessu frv. úr hlaði. Það er skoðun okkar Alþfl.-manna, að þessi hundraðföldun krónunnar sé jákvæð, enda er, eins og við vitum, lítil virðing borin fyrir einum litlum krónupeningi. Það má geta þess, að sú breyting, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, var á stefnuskrá Alþfl. fyrir kosningar.

Það eru margvísleg rök, sem hæstv. viðskrh. er búinn að telja upp fyrir þessari breytingu, svo sem seðlasmæðina og annað slíkt. Þessi breyting er fyrst og fremst reikningsleg einföldun á viðskiptalífi okkar, en alls ekki einhver stórkostleg efnahagsráðstöfun, eins og hv. 5. þm. Vestf. virðist líta á. Það er von okkar, að þessi breyting hafi ekki einungis reikningsleg áhrif, heldur muni hafa jákvæð áhrif á almenning hvað varðar virðingu fyrir gjaldmiðli.

Ég átti ekki von á því, að umr. um þetta mál mundi snúast upp í efnahagsumr., en hv. 5. þm. Vestf. og hv. 2. þm. Norðurl. e. véku hér nokkuð að efnahagsmálum og sögðust sakna heildarstefnu í þeim málum. Ég ætla ekki að nota þessa umr. til að ræða hér á breiðum grundvelli um efnahagsmál, en vil benda á nokkur atriði.

Þessi ríkisstj. hefur þegar náð verulegum árangri í baráttunni við verðbólguna. Þegar hún tók við var verðbólgan 52%, en var komin niður í 36% í árslok 1978. Ég get fullvissað hv. þm. stjórnarandstöðunnar um að ríkisstj. mun ná enn betri árangri á þessu ári, enda er nú verið að leggja síðustu hönd á ýmsar till. stjórnarinnar í efnahagsmálum, sem er ekki tímabært að greina frá hér á þessari stundu.

Það var að öðru leyti erindi mitt í sambandi við þetta frv. að ræða eitt atriði í því frv. og það er nafnið á nýju myntinni. Að mati mínu væri æskilegt að þessi nýja mynt fengi gamla heitið mörk. Hæstv. viðskrh. vék að áliti myntbreytingarnefndarinnar og eins og ég skildi mál hans eða heyrði rök hans, eða rök n. réttara sagt, þá var því fundið til foráttu að erfitt væri að beygja orðið mörk í fleirtölu á erlendum málum. Að mínu áliti er það lítilvæg röksemd í þessu máli, hvernig íslensk orð beygjast á erlendum málum, ég tala nú ekki um í fleirtölu. Nafnið króna, sem við þekkjum og hefur alltaf verið notuð hér, frá konungsríkjunum Danmörku, Noregi og Svíþjóð, er dregið eins og menn vita af kórónu og við eigum fá merki um kórónur hér á landi. Þetta nafn á mynt tengist stjórnarfari, enda er það nafn ekki til í Finnlandi. Það er einungis þetta atriði, sem ég vildi koma að í þessari umr. Það er álit mitt, að við ættum að taka upp hið forna nafn, mörk, á gjaldmiðlinum um leið og við framkvæmum þessa hundraðföldum á verðgildi hans.