29.01.1979
Efri deild: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

147. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það mun koma í hlut þeirrar n., sem mál þetta fær til meðferðar, að fjalla um einstök tæknileg atriði þess. Vafalaust mun n. taka vel ábendingu hv. 2. þm. Norðurl. e. varðandi breytingu á 2. eða 3. mgr. 7. gr. sem hann nefndi áðan.

Ég held að meginástæðurnar fyrir því, að skynsamlegt sé að breyta um verðgildi íslensku krónunnar, séu tvær: Það sé í fyrsta lagi hagkvæmniástæðan, sem ég geri talsvert mikið úr og rakti í ræðu minni áðan, en hv. 5. þm. Vestf: gerði lítið úr. Í öðru lagi er ástæðan sú, að ég held að slík hundraðföldun á verðgildi krónunnar geti verið brýning á stjórnvöld og almenning til að takast á við þau efnahagsvandamál sem við er að glíma í þjóðfélaginu.

Núv. ríkisstj. hefur sett sér það markmið og hefur raunar þegar sýnt það með ýmsum aðgerðum sínum, að hún vill vinna að hjöðnun verðbólgunnar. Hún gerir sér ljóst að það tekur tíma, og hún gerir`sér ljóst að það verður ekki gert með neinu einu einföldu kraftaverki. Til þess þarf margvíslegar samþættar aðgerðir. Sú aðgerð sem hér er á dagskrá hv. Ed. Alþ., er aðeins einn lítill þáttur af þessari heildarstefnumótun, þessari heildarbaráttu gegn verðbólgunni sem ríkisstj. vill heyja. Ég býst við að stjórnarandstaða muni jafnan komast að þeirri niðurstöðu, hver sem hún er, að aðgerðir ríkisstj., hver sem hún er, séu svo léttvægar, séu svo handahófskenndar, sundurtættar og ómerkilegar, að það sé algerlega þýðingarlaust, ef ekki til bölvunar, að efna til aðgerðar af því tagi sem hér er er lagt til, þannig að viðbrögð hv. stjórnarandstæðinga koma mér út af fyrir sig ekki á óvart að öðru leyti en því, að það eru reyndar tveir núv. hv. þm. Sjálfstfl. sem hafa öðrum mönnum fremur beitt sér í þessa átt hér á hv. Alþ., þ.e.a.s. Gunnar Thoroddsen, hv. núv. 11. þm. Reykv., fyrrv. fjmrh., og Lárus Jónsson, hv. 6. þm. Norðurl. e.

Eins og hv. 5. þm. Vestf. benti á, nefndi ég jafnan hina sálrænu ástæðu nr. þrjú. Það stafar einfaldlega af því, að mér er það ekki gefið sem skyldi að slá máli á það fyrir fram, hvaða sálræn áhrif þessi eða hin efnahagsaðgerðin kann að hafa á fólkið í landinu á hverjum tíma. Hv. fjh.og viðskn. Ed. Alþ. verður að leita til sérfræðinga um þau efni þegar hún ræðir um verðgildisbreytinguna. Ég hygg, þó að leitað væri til okkar virðulegu stofnunar, Háskóla Íslands, hún beðin um álit af hinum sálrænu áhrifum af þessu, þá vefðist henni tunga um tönn engu síður en þeim sem mælti fyrir því frv. sem hér er á dagskrá nú, og hætti ég mér ekki út á þann hála ís að meta hin sálrænu áhrif. En ég undirstrika: Hugsunin með þessu frv. og þeirri verðmiðilsbreytingu, sem það felur í sér, er fyrst og fremst sú, að vera þáttur í heildaraðgerðum, að vera spori á stjórnvöld og almenning til að takast af alvöru á við þau efnahagsvandamál sem nú er við að glíma. Frv. er flutt af þeirri ástæðu og í trausti þess, að ríkisstj. hafi manndóm og kjark til þess að takast á við efnahagsvandamálin þannig að af þessari aðgerð geti orðið gagn, en ekki ógagn.