29.01.1979
Neðri deild: 46. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2170 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

151. mál, framhaldsskólar

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég ætla í örfáum orðum að vekja athygli á tveimur þáttum í því frv. sem hér liggur fyrir til umr., frv. til l. um framhaldsskóla, en það er í fyrsta lagi menntun þroskaheftra og í öðru lagi sá kafli er gerir ráð fyrir fullorðinsfræðslu.

Hvað varðar menntun þroskaheftra er í frv. gert ráð fyrir að nemendur, sem vegna fötlunar eða frávika frá eðlilegum þroskaferli fá ekki notið venjulegrar kennslu í einni eða fleiri námsgreinum, eigi rétt til sérstakrar kennslu við sitt hæfi. Ég fagna þessu ákvæði mjög, þar sem þroskaheftum hefur ekki áður verið tryggð sérstaklega menntun að grunnskólanámi loknu. Því tel ég mjög brýnt að þeim verði tryggð örugg aðstaða til framhaldsnáms ef hugur þeirra stendur til þess og þroski leyfir. Það, sem ég tel þó brýnast í málefnum þeirra að grunnskólanámi loknu, er að þeim sé búin fullkomin aðstaða til að kanna og undirbúa möguleika á að fara út á vinnumarkaðinn og væri það best tryggt með því, að þeim væri gefinn kostur á fjölbreyttu vali í verkmenntun og starfsþjálfun. Ég hef þá trú, að ef hvort tveggja stæði til boða, bóklegt nám og verklegt nám eða starfsþjálfun að grunnskólanámi loknu, muni reynslan sýna að þroskaheftir mundu frekar sæk ja í verklegar greinar eða starfsþjálfun, sem gæti hugsanlega tryggt þeim vinnu á hinum almenna vinnumarkaði.

Vel má vera að þar sem í greininni segir: „kennslu við sitt hæfi“ rúmist verklegt nám eða starfsþjálfun, einkum þar sem kveða á nánar um framhaldskennslu þeirra í reglugerð. En ég tel að til að taka af öll tvímæli, þar sem þroskaheftum er mjög mikils virði að þeim sé búin aðstaða til að nýta þá hæfileika og starfsorku sem þeir búa yfir og hafa vegna lítillar aðstöðu til verkmenntunar og starfsþjálfunar þeirra ekki fengið tækifæri til að nota, þurfi viðbót að koma við gr., þar sem á eftir orðunum „kennslu við sitt hæfi“ komi: þ. á m. verkmenntun og starfsþjálfun. — Ef þetta væri tryggt mundi það stórbæta aðstöðu og möguleika þeirra til að taka að sér ýmis störf úti á hinum almenna vinnumarkaði.

Hvað varðar kaflann um fullorðinsfræðslu, þá er hann að mínu mati alls ófullnægjandi að því leyti, að hann tekur ekki nægjanlega til allra þátta fullorðinsfræðslunnar í landinu. Þar er að mestu gert ráð fyrir að sinna menntun fullorðinna á þeim námsbrautum sem reglulegt starf skólanna tekur til, en ekki vikið að almennri fræðslu, t.d. bréfaskóla, námsflokka og félagasamtaka. Auk þess er þar um almennt orðalag að ræða, þar sem segir aðeins að stefnt skuli að því að framhaldsskólum skuli gert kleift að sinna menntun fullorðinna, sem er ófullnægjandi vegna þess að orðalagið tekur ekki af öll tvímæli um að það skuli framkvæmt. Má benda á í því sambandi, að engin hinna 38 gr. frv. er með svo óljóst orðalag hvað varðar framkvæmd.

Það, sem fyrst og fremst er því stefnt að í fullorðinsfræðslu með þessu frv., er að tryggja þá kennslu fullorðinna sem kennd er í öldungadeildum, og er það góðra gjalda vert. En öldungadeildir koma aðeins að gagni hluta þeirra, sem stunda fullorðinsnám, og komi ekki til setning laga um almenna fullorðinsfræðslu, sem rekin er af bréfaskóla, námsflokkum og félagasamtökum, er nemendum stórlega mismunað. Ef ekki verður fullkomlega tryggt annað kennslufyrirkomulag samhliða öldungadeildunum, mun það leiða til þess, að sveitarfélög gripu frekar til rekstrar öldungadeilda þar sem kostnaður væri að stórum hluta greiddur af ríkinu, en aftur á móti mundi kennsla þeirra, sem helst hefðu þess þörf, verða látin sitja á hakanum, þ.e.a.s. fólks sem illa hefur gengið í námi áður eða litla menntun hefur fyrir. Er þar með stuðlað að auknum stéttamismun, þveröfugt við það sem hlutverk fullorðinsfræðslu er ætlað.

Ef ekki kemur einnig til samhliða lagasetning um þá almennu fullorðinsfræðslu, sem ég áður greindi frá, getur það stuðlað að því að drepa niður hina frjálsu fræðslustarfsemi sem í landinu er, og verður að að teljast spor aftur á bak. Í því sambandi er rétt að benda á að þeir nemendur, sem notið hafa kennslu eftir kennslufyrirkomulagi almennrar fullorðinsfræðslu, eru um 10 þúsund árlega, og eru ætlaðar til hennar á fjárl. 1979 um 3.2 millj. Fram kom í máli hæstv. menntmrh., að hann hefur skilning á að þarna þarf verulega úr að bæta. Vænti ég þess, að hann muni því greiða fyrir að frv. um almenna fullorðinsfræðslu verði fljótlega lagt fyrir þetta þing.

Fyrrv. menntmrh. skipaði n. sem vinna átti að undirbúningi laga um fullorðinsfræðslu, og á ég sæti í þeirri nefnd. N. hefur ekki enn lokið störfum, en mun innan tíðar skila áliti til menntmrh. um lagasetningu er tekur til allra þátta fullorðinsfræðslu, svo sem fræðslu á vegum bréfaskóla, námsflokka og félagasamtaka, og væri raunar nauðsyn á að hún fengi meðferð á Alþingi samhliða þessu frv., þar sem einn þáttur þessa frv. um framhaldsskóla gerir ráð fyrir fullorðinsfræðslu, þótt takmörkuð sé.

Ég taldi rétt að benda hv. þdm. á nauðsyn þessarar lagasetningar, sem í undirbúningi er, þegar við 1. umr. um þetta frv.