29.01.1979
Neðri deild: 46. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2177 í B-deild Alþingistíðinda. (1760)

151. mál, framhaldsskólar

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 12. þm. Reykv., Jóhönnu Sigurðardóttur, og hv. 8. þm. Reykv., Ellert B. Schram, fyrir ábendingar þeirra sem bersýnilega voru í vinsamlegum anda. Ég tek undir það með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að ákvæði frv. um fullorðinsfræðslu eru aðeins hluti þess sem gera þarf á því sviði og verður að taka þau mál sérstökum tökum. Ég held hins vegar að ekki hefði verið hyggilegt eða raunhæft að segja meira um fullorðinsfræðsluna í þessu frv. en hér er gert. Þetta eru auðvitað að nokkru leyti aðskilin mál, og ég held að óhjákvæmilegt sé að alþm. fái tækifæri til að taka afstöðu til endurskipulagningar framhaldsskóla án þess að farið sé að taka fullorðinsfræðslumálið í heild sinni inn í þetta frv. Þeim mun meira sem tekið er inn af ákvæðum sem snerta fullorðinsfræðslu, þeim mun meiri áhrif kann það að hafa á endanlega afstöðu manna til frv. og því eðlilegt að afgreiða þessi mál í tvennu lagi. Hins vegar eru tekin inn í frv. þau ákvæði sem snerta fræðslu fullorðinna þegar um er að ræða starfsemi sem fram færi innan veggja framhaldsskólans. Ég held að óhyggilegt sé að ganga lengra í þeim efnum en gert er í frv.

Ég held að það sé hins vegar misskilningur hjá hv. þm., að hér sé einungis átt við svonefndar öldungadeildir menntaskólanna, eins og þær hafa verið starfræktar, þ.e.a.s. bóknám sem stefni að stúdentsprófi. Ég held að ákvæði 15. gr. frv. séu það rúm, að þau eigi að geta tekið til hvers konar fullorðinsfræðslu, hvort sem um er að ræða á sviði bóknáms eða verknáms eða hvaða öðru sviði fullorðinsfræðslu, engin hætta sé því á að hér sé um að ræða skipulag sem leiðir til aukinnar stéttaskiptingar ellegar sumum sé mismunað á kostnað annarra.

Í b-lið 15. gr. segir, að heimilt sé að „stofna til sérstakra námskeiða, þ. á m. kvöldskóla, til að fullnægja óskum og þörfum þeirra sem komnir eru af venjulegum skólaaldri og hentar ekki að sækja reglulega kennslu skólans. Setja skal í reglugerð nánari ákvæði um nám þetta, þ. á m. um lágmarksfjölda þátttakenda í námshópum og um námstíma er geti verið lengri eða skemmri en í reglulegu námi.“ Ég held að þessi ákvæði rúmi í raun og veru fræðslustarfsemi af hvaða tagi sem er, ekkert frekar bóknám af því tagi, sem öldungadeildir hafa verið með, en annað nám. Og ég vil láta þess getið, að uppi hafa verið áform af hálfu Fjölbrautaskólans í Breiðholti að taka upp fullorðinsfræðslu á breiðum grundvelli, þannig að ekki yrði um að ræða öldungadeildir með því bóknámi sem Menntaskólinn við Hamrahlið hefur boðið, heldur yrði um að ræða mjög fjölþætta fullorðinsfræðslu.

Ég skal fúslega viðurkenna það, sem fram kom hjá hv. þm. Ellert B. Schram, að æskilegra hefði verið að ég hefði fjallað hér ítarlega um kostnaðaráhrif af samþykkt frv. En það er margt sem hægt er að gera að ítarlegu umtalsefni og fjallað er um í grg. frv. sem ég nefndi hér ekki. Ég vil af þessu gefna tilefni benda á að mjög ítarlega er fjallað um kostnaðaráhrif frv. á bls. 53–65, bæði um kostnaðaráhrif af einstökum þáttum þess og einnig um kostnaðaráhrif þess fyrir sveitarfélögin í landinu. Um þetta er hvort tveggja fjallað mjög ítarlega hér.

Um síðara atriðið er m.a. fjallað á bls. 60 og 61, en þar er reynt að áætla hver hefði verið rekstrarkostnaður ríkis og sveitarfélaga, ef þetta frv. hefði verið orðið að lögum árið 1976, og það borið saman við raunverulegan rekstrarkostnað 1976 skv. reikningum. Þetta er mjög ítarlegur samanburður, og ég held að betur sé ekki hægt að gera til að reyna að átta sig á í hverju breytingin er fólgin. Niðurstaðan er sú, að hefðu kostnaðarákvæði þau, sem frv. gerir ráð fyrir, verið í gildi á árinu 1976, þá er áætlað að hluti ríkissjóðs hefði lækkað úr 1799 millj. í 1739 millj., en hluti sveitarfélaga vaxið úr 226 millj. í 287 millj. Tilfærslan hefði numið um 60 millj. kr., sem vissulega er ekki stór upphæð, en þó það há upphæð að sveitarfélögin kann að muna verulega um hana.

Ég vil í þessu sambandi segja það, að ég tel að það verði að skoða sérstaklega hvernig sveitarfélögunum verði bættur þessi kostnaðarauki. Ég sé enga ástæðu til þess, að samþykkt þessa frv. hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin, og ég tel að það beri að athuga nánar. En að vandlegu athuguðu máli var talið einfaldara að breyta öðrum lögum en þessum til að ná þarna jöfnuði á nýjan leik. Ef farið væri að breyta rekstrarkostnaðarákvörðun þessa frv., þá yrðu málin áreiðanlega gerð flóknari en þau þurfa að vera. Það virðist einfaldara að breyta ákvæðum grunnskólalaganna á þann hátt, að ríkið tæki á sig eitthvað aukna hlutdeild í rekstrarkostnaði svo að reikningarnir yrðu jafnaðir á nýjan leik. Eins og kom fram áðan eru rekstrarkostnaðarákvæði þessa frv. varðandi i. og 2. bekk miðuð við grunnskólalögin, og er því eðlilegra að skoða þetta mál í tengslum við grunnskólalöggjöfina sjálfa.

Um fjárfestingarkostnaðinn er fjallað sérstaklega á bls. 64 og 65. Á bls. 65 er tafla sem sýnir stofnkostnað framhaldsskóla 1978 skv. fjárlögum og til samanburðar tekið hvernig áætluð skipting hefði orðið milli ríkis og sveitarfélaga ef frv. hefði verið orðið að lögum. Skv. þessari töflu kemur í ljós að hlutur sveitarfélaga hefði vaxið úr 259 millj. í 266 millj. Niðurstaðan er sem sagt sú, að breytingin væri næsta lítil. Aukin hlutdeild sveitarfélaga vegna menntaskóla og héraðsskóla jafnast að mestu út af minnkunarhluta þeirra í fjölbrautaskólum og í iðnskólum. En eins og segir í grg.: „Hér hefur þó ekki verið tekið tillit til hugsanlegra áhrifa heimildarákvæðis í e-lið 30. gr. um hærra ríkisframlag til verkstæðishúsa.“

Ég er alveg sannfærður um að einmitt þetta ákvæði gerir miklu meira en að jafna þennan mun sem nemur 7 millj. Ég er alveg sannfærður um að sveitarfélögin muni hagnast á stofnkostnaðarákvæðum þessa frv., miðað við það skipulag sem nú er á þessum málum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa frekari orð um þetta frv. Ég vil láta þess getið, að frv. var lagt fram fyrir jól og ég hafði síðan samráð um það við menntmn. Nd., að frv. yrði sent til umsagnar allmargra aðila þá þegar, þannig að unnt yrði og auðveldara að hraða afgreiðslu málsins. Við í menntmrn. fengum lista yfir þá aðila, sem menntmn. Nd. hugðist senda málið, og sendum frv. síðan skv. þeim lista nokkru fyrir áramót. Einn þeirra aðila, sem fengu málið til meðferðar, var Samband ísl. sveitarfélaga. Menntmrn. hefur síðan fengið svar frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga þar sem bent er á að ákveðin ráðstefna verði haldin á vegum sambandsins síðar í vetur og ætlunin sé að taka málið þar til meðferðar. Við í menntmrn. höfum sent bréf til baka, þar sem við óskum eftir því, úr því að þessi ráðstefna var seint á vetrinum, að fram fari sérstakar viðræður með þátttöku starfsmanna í menntmrn. með fulltrúum frá menntmn. Alþ. og með fulltrúum frá Sambandi sveitarfélaga um fjármálahlið frv. Ég vonast til að þessu erindi verði svarað jákvætt og af slíkum viðræðum geti orðið hið fyrsta.