29.01.1979
Neðri deild: 46. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2179 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

151. mál, framhaldsskólar

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. hvað hann tók vinsamlega í ábendingar mínar varðandi fullorðinsfræðsluna. Mér fannst hins vegar ekki koma nægilega skýrt fram í máli hans, hvað hann hugsi sér varðandi þá hlið fullorðinsfræðslunnar sem lýtur að bréfaskólum og námsflokkum. Ég tel nauðsynlegt að það komi skýrt fram hjá hæstv. menntmrh., hvort það sé skoðun hans, að þau ákvæði, um fullorðinsfræðslu, sem koma fram í framhaldsskólafrv., séu fullnægjandi hvað varðar þessi atriði eða hvort hann sé fylgjandi því og muni beita sér fyrir nákvæmri lagasetningu um fullorðinsfræðslu sem taki til allra þátta hennar, bæði að því er varðar bréfaskóla og námsflokka.