29.01.1979
Neðri deild: 46. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2179 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

151. mál, framhaldsskólar

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja fundinn lengi. Ég vil aðeins taka það fram, að ég gagnrýndi það nokkuð, að ekki hefðu komið fram í ræðu hæstv. ráðh. neinar upplýsingar um, hvaða kostnað þetta frv. hefði í för með sér, og þá einkum og sér í lagi, hvernig þau útgjöld kæmu niður á sveitarfélögunum. Ég gerði mér auðvitað grein fyrir því, að í grg. voru vissar upplýsingar sem flestar eru þó hreinar ágiskanir, og það sem verra er: þar er miðað við tölur frá 1976 sem eru færðar upp til verðlags núna og segja alls ekki alla söguna, eru auðvitað miðaðar við forsendur sem þá lágu fyrir. Vitaskuld er misjafnt vægi á hinum ýmsum liðum frv. og ákvæðum þess og hvernig það kemur niður á viðkomandi sveitarfélögum eða hinum ýmsu samtökum þeirra.

Hæstv. ráðh. fullyrti að kostnaður mundi ekki aukast hjá sveitarfélögum, vitnaði m.a. í eina setningu í grg. um að kostnaður mundi hugsanlega hækka um 60 millj. Við vitum náttúrlega báðir, ég og hæstv. ráðh., að þetta er tóm markleysa, ef menn standa í þeirri meiningu að kostnaður sveitarfélaga muni ekki hækka nema sem því nemur varðandi stofnkostnaðarliðinn. Það kemur fram í því bréfi, sem ég las upp áðan, að það er skoðun Sambands ísl. sveitarfélaga, stjórnar þess sambands, að frv. muni, ef að lögum verður, leiða til mikilla útgjalda fyrir sveitarfélögin og engan veginn ljóst hver sú útgjaldaaukning muni verða eða hvernig hún muni koma við einstök sveitarfélög. Ég vakti athygli á þessu áðan, vegna þess að mér finnst það vera eitt mikilvægasta atriðið við afgreiðslu þessa frv., hvernig á að mæta þessum útgjöldum og hvað lagasetning þessa frv. muni hafa í för með sér kostnaðarlega. Ég fagna því, að rn. hefur haft samband við Samband ísl. sveitarfélaga og vill nú taka upp viðræður við stjórn þess, hef ekki nema gott um það að segja og tel að það geti kannske skýrt þetta mál mun betur. En ég legg á það fyrir mitt leyti áherslu, að við afgreiðslu þessa máls, ef til hennar kemur nú í vetur, verði fullkomlega tekið tillit til hagsmuna sveitarfélaganna og algerlega tryggt að þau hafi ekki aukin útgjöld af þessum fræðslulögum nema þá að tekjur komi á móti.