30.01.1979
Sameinað þing: 44. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2187 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

164. mál, hækkanir opinberra stofnana, framfærsluvísitölu og kaupgjaldsvísitölu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég skal ekki efna til almennra umr. um þessi atriði. Ég vil aðeins svara hv. síðasta ræðumanni því, að vísitölunefndin er að störfum og vinnur kappsamlega að verkefni sínu. Ég skal hins vegar engu spá um það, hvenær hún getur skilað af sér. Í erindisbréfi hennar voru sett þau tímamörk, að tillögur hennar skyldu liggja fyrir fyrir 15. febr. Hvort það verður unnt eða ekki skal ég ekkert fullyrða um á þessu stigi, en til þess er fullur vilji að svo verði.

Ég ætla ekkert að fara að standa hérna á milli Alþfl. og Alþb. En ég vil út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, segja það, að það var og er markmið ríkisstj. að verðbótavísitalan verði 1. mars sem næst 5%. Það er mín persónulega skoðun að stefna eigi að því. Hvort það tekst eða ekki er ekki hægt að fullyrða, en hvort sem menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu ættu menn að sjá og skilja að það er mikið undir því komið að það takist að ná því marki.