30.01.1979
Sameinað þing: 44. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2187 í B-deild Alþingistíðinda. (1773)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það var tilkynnt í fjölmiðlum fyrir nokkru, að ríkisstj. hefði skipað nefnd til þess að leita um sættir í svokallaðri flugmannadeilu. Nú hefur verið skýrt jafnframt frá því, að þessi nefnd hafi skilað skýrslu eða áliti til hæstv. ríkisstj., en þá kemur í ljós og allir landsmenn verða varir við það, að þessar sáttaumleitanir hafa ekki borið árangur vegna þess að það er sjáanlegt að þau stríðandi öfl, sem eru innan Flugleiða, flugmennirnir, halda nú uppi víðtæku verkfalli eða skæruhernaði sem bitnar ekki eingöngu á starfsfólki Flugleiða eða félaginu í heild, sem verður auðvitað fyrir mjög tilfinnanlegu tjóni, heldur á þjóðinni allri. Samgönguerfiðleikar eru miklir í landi okkar og þá ekki síst á þessum árstíma og kemur fólki illa, því að í raun og veru er ekki um nokkrar aðrar samgöngur að ræða. Því vil ég leyfa mér að beina fsp. til hæstv. félmrh., sem mun hafa haft forgöngu um skipun þessarar nefndar að því er hæstv. samgrh. tjáði mér í morgun, og biðja hann að gefa mér og hv. Alþ. yfirlit yfir störf þessarar sáttanefndar og hvaða útlit sé fyrir að ná þarna sættum. Ef hann og hæstv. ríkisstj. telur samkomulagshorfur mjög slæmar, þá spyr ég: Ætlar ríkisstj. þá ekki að gera neinar þær ráðstafanir sem binda endi á þessa leiðinlegu deilu sem bakar þjóðfélaginu í heild stórskaða? Ég fyrir mitt leyti tel að það sé ekki hægt, að ríkisstj. og Alþ. horfi upp á það að tiltölulega fámennur hópur, sem býr að mínum dómi og held ég flestra eða allra alþm. og annarra við mjög þokkaleg launakjör, skuli vegna innbyrðis ágreinings stofna samgöngumálum landsmanna í jafngeigvænlega hættu og þau eru nú þegar komin í.