30.01.1979
Sameinað þing: 44. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (1775)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. þær upplýsingar sem hann hefur gefið. Að vísu hefur meginhlutinn af þessum upplýsingum legið fyrir í blöðum hvað snertir deiluna sjálfa, en hins vegar fagna ég því, að sáttatillaga verði lögð fram, sem er auðvitað höfuðatriði þessa máls. Ef sú sáttatillaga verður felld, þá skilst mér á hæstv. ráðh. að hann sé tilbúinn með þær aðgerðir sem eiga að duga til lausnar þessu máli. Ég fyrir mitt leyti fagna að þær aðgerðir séu fyrir hendi. Ég tel að Alþ. eigi að standa með ríkisstj. í því að leysa þessa deilu. Ég efast ekki um að ef sáttatillaga er lögð fram, sem tekur mið af sjónarmiðum beggja þessara stríðandi aðila, þá gera þeir sér auðvitað ljóst að annar aðilinn getur ekki fengið allt og hinn ekkert. En höfuðatriði þessa máls er að liða ekki þetta fyrirtæki í sundur og valda ekki þjóðinni stórskaða með því að heil landssvæði eru nú samgöngulaus ákveðna daga af völdum þessara stríðandi afla, sem eru að mínum dómi ekki alveg á horriminni eftir þeim upplýsingum sem ráðh. hefur gefið varðandi launakjör þeirra. Það er víst nóg sem Íslendingar þurfa að búa við í samgöngumálum, þegar samgöngur teppast vegna náttúruhamfara og slæmrar veðráttu, þó að þetta bætist ekki ofan á allt annað.