30.01.1979
Sameinað þing: 44. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

52. mál, eignarráð á flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli

Fyrirspyrjandi (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Á þskj. 58 ber ég fram fsp. til hæstv. utanrrh. varðandi flugstöðvarbygginguna á Keflavíkurflugvelli, hver sé raunverulegur eigandi hennar.

Það er orðið nokkuð langt síðan þessi fsp. kom fyrst á dagskrá, mig minnir að það hafi verið í byrjun nóv., en af ýmsum ástæðum hefur hún ekki komið fyrr til umr. Mér er ljóst að hæstv. utanrrh. verður ekki um það kennt.

Það er spurt um þetta vegna þess, að á því virðist leika nokkur vafi samkv. þeim gögnum sem fyrirspyrjandi hefur undir höndum, hver sé eigandi flugstöðvarbyggingarinnar. Bæjarstjórn Njarðvíkur hefur mikinn hug á að vita hið rétta í þessu máli og fsp. þessi er borin fram með vitund bæjarstjórnarinnar, en ekki þó samkv. sérstakri beiðni hennar. Áhugi bæjarstjórnarinnar stafar af því, að verulegir fjárhagslegir hagsmunir eru við eignaraðildina tengdir fyrir bæjarfélagið, en auk þess hljóta allir þegnar þessa lands að hafa hug á að vita hvort íslenska ríkið á þessa eða hina eignina eða ekki. Vafinn um eignaraðildina stafar af því að mismunandi úrskurðir yfirvalda liggja fyrir. Ég skal rekja þetta í sem stystu máli.

Bygging sú, sem hér um ræðir, var reist af bandaríska ríkinu á sínum tíma — um 1950 — og rekin af varnarliðinu frá því að það kom hér 1951 til 1964 þegar íslenska ríkið tók við rekstri hennar samkv. samningi ríkjanna frá 29. maí 1964. Fyrirsögn þessa samnings er svo hljóðandi: „Samkomulag um afhendingu hótel- og flugstöðvarbyggingar varnarliðs Íslands til íslensku ríkisstjórnarinnar.“ Síðar er í meginmáli samningsins kveðið á um að samkomulag sé gert um afhendingu ábyrgðar á rekstri og viðhaldi umræddrar byggingar. Ekki skal farið nánar út í þennan samning hér.

Á eignaraðildina reyndi svo þegar Njarðvíkurhreppur lagði fasteignaskatt á þessa húseign 1973 og reikningur var sendur flugmálastjórn, sem greiddi hann. 1974 var aftur lagður á bygginguna fasteignaskattur, rúmlega 1.3 millj. kr. Greiddar voru 300 þús. kr., en síðan ekki meir. Fór þá málið fyrir uppboðsrétt Keflavíkurflugvallar, sem úrskurðaði 7. júlí 1975 að uppboð skyldi fara fram á eigninni til lúkningar fasteignaskattsskuldinni.

Lögmaður flugmálastjórnar hélt því fram í málinn, að um aðildarskort væri að ræða og gerðin skyldi ekki ná fram að ganga þar sem bandaríska ríkið væri eigandi byggingarinnar, en samkv. varnarsamningnum væri skattlagning þessi óheimil. Málið fór fyrir Hæstarétt, sem ómerkti úrskurðinn 15. mars 1977 á þeim forsendum að málið hefði ekki áður verið lagt fyrir yfirfasteignamatsnefnd.

Málið fór þá fyrir yfirfasteignamatsnefnd, sem kvað upp þann úrskurð 7. júní 1977, að flugmálastjórninni á Keflavíkurflugvelli f.h. ríkissjóðs væri óskylt að svara Njarðvíkurkaupstað fasteignaskatti af flugstöðvarbyggingunni á Keflavíkurflugvelli. Yfirfasteignamatsnefnd byggir þennan úrskurð sinn á því, að ekki þykir nægilega sýnt fram á að ríkissjóður hafi orðið eigandi flugstöðvarbyggingarinnar með samkomulaginu frá 1964 í skilningi 2. mgr. 4. gr. laga nr. 8 1972, um tekjustofna sveitarfélaga, og ekki hafi verið færð fram gögn fyrir því, að ríkissjóður hafi orðið eigandi byggingarinnar með öðrum hætti.

Þannig stendur nú málið og hefur Njarðvíkurbær ekki aðhafst frekar til að innheimta álagðan fasteignaskatt frá árinu 1974 og síðan, en í bókum bæjarins stendur nú að skuld ríkissjóðs vegna þessa sé tæplega 12.6 millj. kr. auk vaxta. Þannig stóðu málin um síðustu áramót.

Fsp. mín til hæstv. utanrrh. er því svo hljóðandi: „Hver er eigandi flugstöðvarbyggingarinnar á Keflavíkurflugvelli:

a) Þess hluta byggingarinnar, sem afhending varnarliðs Íslands til íslensku ríkisstj. náði til, með samkomulagi aðila 29. maí 1964;

b) annarra hluta byggingarinnar með síðari tíma endurbótum og viðaukum?“