30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2195 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það var e.t.v. ekki beint til mín ákveðinni spurningu, en í tilefni af því, að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, 12. þm. Reykv., tók til máls utan dagskrár, vil ég leyfa mér að segja nokkur orð.

Ég hef leitað álits ríkisskattstjóra sérstaklega að þessu gefna tilefni um framtalsskyldu alþm. og fengið þau svör, að framtalsskylda þeirra er auðvitað sú sama og annarra þjóðfélagsþegna. Þeim ber skylda til þess að telja fram þær tekjur sem skattgjaldsskyldar eru lögum samkvæmt. Þessi atriði eru í fyrsta lagi þingfararkaupið að sjálfsögðu, í öðru lagi bílastyrkur. Ég hef talið fram bílastyrk, sem ég hef fengið greiddan af Alþ., og talið hann bæði inn og út á skattskýrslu. Eins og menn þekkja er í 4. lið á skattframtölum gert ráð fyrir breytingu til lækkunar á framtöldum tekjum samkv. 3. lið. Bílastyrk er eðlilegt að telja fram á báðum stöðum, bæði til tekna og til gjalda. Hins vegar er það alveg rétt, sem kom fram hjá hv. þm., að þm. búa e.t.v. misjafnlega í þessum efnum. Þeir eru úr misjafnlega stórum og víðlendum kjördæmum og hafa af þeim ástæðum eflaust misjafnan kostnað í sambandi við að komast um kjördæmin. En það hefur verið ákvörðun Alþingis, að þessir styrkir væru jafnir og þá með tilliti til þess, að þó að þm. séu þm. einstakra kjördæma, þá séu þeir þm. þjóðarinnar þegar á allt er litið.

Í þriðja lagi er afnotagjald af síma, sem er framtalsskylt á sama hátt og er með bílastyrkinn, bæði inn og út. Öllum hv. alþm. er auðvitað kunnugt um geysilega notkun á síma sem fylgir því að vera þm., og þess vegna hafa alþm. frítt afnotagjald af síma að vissu marki, og er eðlilegt og rétt að telja það fram bæði inn og út á skattframtali. Hins vegar er húsaleigukostnaður ekki talinn framtalsskyldur eða fæðiskostnaður og ekki heldur ferðakostnaður vegna funda erlendis, sem greiddur er af Alþingi.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Það þarf ekki að eyða að því mörgum orðum, eins og ég tók fram áðan, að þm. eru auðvitað í engu frábrugðnir öðrum varðandi skattalög. Þeim ber að telja fram skatta sína lögum samkv. og í öllum aðalatriðum í samræmi við það sem ég hef nú greint frá.