30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2203 í B-deild Alþingistíðinda. (1792)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er rétt að ég fór áðan nokkrum hrósyrðum um hæstv. fjmrh. fyrir þann skilning sem hann leggur í tiltekna lagagrein. Út af fyrir sig er ekki verið að segja annað með þessu heldur en það, að hæstv. fjmrh. er læs, vegna þess að 7. gr. skattalaganna er afskaplega skýr. Þar segir með leyfi hæstv. forseta:

„Skattskyldar tekjur teljast með þeim undantekningum og takmörkunum, er síðar greinir“ o.s.frv., og síðan er talið upp í einstökum liðum og þar segir: „Til slíkra tekna telst fæði, húsnæði, endurgreiðsla á flutningskostnaði milli heimilis og vinnustaðar, afnot bifreiða“ og svo er haldið áfram og tilvitnun lýkur. Af þessu er auðvitað alveg ljóst hvað við er átt í þessari tilteknu lagagrein og þarf í sjálfu sér ekki að koma til túlkun eins eða neins. Það er ljóst af bókstafnum hvað í þessum lögum stendur, enda túlkar hæstv. fjmrh. þetta svo, að svona eigi þetta að vera og þar með að ranglega hafi verið að staðið undanfarin ár. Auðvitað er alltaf stofnunum til hróss, þ. á m. þessari, þegar breytt er til bóta, og er ánægjuleg útkoma þessarar umr. að hér skuti vera horfið af vondri braut undanfarinna ára og kannske áratuga og inn á betri braut.

Þá hefur gætt þess misskilnings hjá mörgum ræðumönnum, að hér sé verið að tala um það af þeim, sem þetta hafa gagnrýnt, hvort hér sé um háar eða lágar upphæðir að ræða, miklar eða litlar greiðslur. Svo er auðvitað ekki og það kemur málinu bókstaflega ekkert við. Það er verið að ræða um það meginatriði, að það sé gersamlega hafið yfir grun að Alþ. fari að skattalögum, og manni sýnist þrátt fyrir allt og hvað sem þm. hafa um þetta að segja almennum orðum, að það verði útkoma þessa máls og er það auðvitað vel.

Rosknir þm. í andanum, eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og Sverrir Hermannsson, og fleiri raunar, hv. þm. Garðar Sigurðsson, nota hér orð eins og það sé verið að misbjóða virðingu Alþingis, fara með dylgjur, slúður og hér sé um auglýsingaaðferðir að ræða. Auðvitað má segja að það er allnokkur auglýsing fólgin í góðum málum, og varla eru málin verri vegna þess. En það er óvart ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er það, og það sýnist mér raunar vera að verða útkoma þessarar umr., að Alþ. fari í einu og öllu eftir bókstaf skattalaganna, þar sé hvergi varpað skugga á, og þá verður Alþ. miklum mun hæfara að setja öðrum þegnum í samfélaginu samfélagsreglur sem ekki verði brotnar. Ég þarf ekki að tíunda fyrir þingheimi hvernig ástand skattamála og skattsvikamála hefur verið hér undanfarin ár og hvert áhyggjuefni þetta hefur verið sumum okkar a.m.k. Þarna verður að ráða bót á og þá er eðlilegt að byrjað sé heima hjá sér. Það gerir góður gestgjafi, að hreinsa til heima hjá sér áður en hann með árangri fer að hreinsa úti í öllu samfélaginu. Þetta sýnist mér þó vera allnokkur árangur þessarar viðleitni og umræðna, og ég vil enn þakka hæstv. fjmrh. fyrir að fara rétt með ótvíræðan lagabókstaf og læt máli mínu lokið að sinni.