30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2206 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Vissulega kæmi það til greina í samræmi við þær hefðir, sem eru smátt og smátt að skapast hér á Alþ., að þegar hæstv. utanrrh., formaður Alþfl., hefur flutt afsökunarbeiðni á málflutningi yngri deildarinnar í flokknum, þá beri okkur hinum að taka hana gilda og fella niður umr. En þær ásakanir, sem hér hafa komið fram af hálfu eins þm., Vilmundar Gylfasonar, eru slíkar, að æskan ein sér, sem hv. formaður Alþfl. flutti til afsökunar, dugir ekki.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason fór nokkuð niðrandi orðum um hina eldri í andanum hér í þingsalnum. Látum það liggja á milli hluta þó að hann flokki mig með þeim. Hins vegar skilur á milli mín og hinna, sem hann taldi þar upp, að ég hef ekki fyrr staðið í þeim verknaði að telja fram til skatts sem þm. fyrr en nú. Það hafa hins vegar aðrir gert, og hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur borið þessum mönnum á brýn skattsvik og hefur gert það hvað eftir annað. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Albert Guðmundsson sagði, að slíkt er ekki hægt að bera á menn án þess að tilgreina dæmi, ella liggja allir undir grun. Þessi málflutningur er álíka og hv. þm. Vilmundur Gylfason segði við umbjóðendur sína í Reykjavík: Reykvíkingur hefur framið glæp — og þá liggja náttúrlega allir Reykvíkingar, sem leggja trúnað á orð Vilmundar Gylfasonar, undir þeim grun að hafa framið þann glæp.

Málflutningur Alþfl. í þessu máli, sérstaklega þessa Don Quijote riddara sem löngum hefur haldið þessu máli uppi, ef draga má af síðustu ræðu hans, er fólginn einfaldlega í því, að mál er búið til á eftirfarandi hátt: Fyrst er kallað nógu hátt og víða: Það hefur verið framinn glæpur-þangað til nógu margir fara að trúa því, að það hafi verið framinn glæpur. Þá myndast umræður í blöðum og á fundum manna um þennan voðalega glæp,

þennan óskaplega glæp. Þessum umr. er haldið áfram meira að segja á Alþ., þangað til það kemur smátt og smátt í ljós að það hefur alls enginn glæpur verið framinn, þetta er allt saman misskilningur hjá þeim sem upphaflega kallaði: Það hefur verið framinn glæpur. — Og þá kemur upphafsmaðurinn og segir: Málið er á réttri leið. Þetta er mál Alþfl. Komið er í ljós, að það hefur ekki verið framinn glæpur. Það er Alþfl. að þakka, og við höfum náð verulegum árangri í þessu máli.

Þetta er í raun og veru málið í hnotskurn, það ætti að vera ljóst af öllum þessum umr., að engu hefur verið stolið undan skatti. Það eina, sem spurningin er um, er um framtalsaðferðir, en ekki skattgreiðslur. Það er ekki hægt að tala um skattsvik þegar eingöngu er verið að ræða um framtalsaðferðir, vegna þess að úrskurður liggur ljós fyrir frá þeim sem hann á að kveða upp, að hér er ekki um skattsvik að ræða. Þann úrskurð hefur kveðið upp hærra yfirvald í þessum málum heldur en hæstv. fjmrh., með allri virðingu fyrir hans embætti. Ég vil nú í allri vinsemd vara Tómas Árnason við því, að þau gerast æ tíðari skiptin þegar Reykjavíkurdeildin í Alþfl. tekur sig til og hælir honum.

Í raun og veru hafa allar staðreyndir þessa máls legið fyrir nokkuð lengi. Það er satt að segja ótrúleg tregða að hafa ekki áttað sig á því, að þær liggja ljóst fyrir. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni finnst mér skörin vera farin að færast upp í bekkinn. Þegar nokkuð er búið að hrekja fyrri staðleysur manna í þessu máli hér á Alþ. áður, þá eru búnar til nýjar, eins og það að við, sem búum á Seltjarnarnesinu og sitjum hér á Alþ., eins og ég, fáum dagpeninga. Því er slegið fram hér í þingsalnum sem sjálfsagðri staðreynd og síðan kveðnir upp siðferðisdómar á grundvelli þessara fullyrðinga.

Það er vissulega rétt, að við, sem erum nýir hér á þingi, getum tekið þá, sem eldri eru hér, ýmsum tökum. En við skulum ekki ætla okkur það að bera þeim skýrt og skorinort á brýn að þeir séu afbrotamenn, þeir hafi vísvitandi brotið lög. Eins og hæstv. fjmrh. sagði áðan, ég ætla að leyfa mér að vitna í hann og vona að það verði ekki misskilið, þá liggur hvergi ljóst fyrir hve margir þm. hafa talið þetta fram og hve margir ekki. Það er alveg ljóst, að þó að skrifstofa Alþingis hafi ekki sett þetta á launaseðla, þá hefur mönnum borið að telja það fram og algerlega tilefnislaust að þurfa að standa hér upp á Alþ. út af því. Það ætti hverjum sæmilega skynsömum þm. að vera ljóst. Sú vitneskja liggur hvergi fyrir, hvort allir eða einhverjir og þá hve margir af þm. hafa ekki sinnt þessari framtalsskyldu, vegna þess að hér er ekki um skattsvik að ræða, þótt hv. þm. Vilmundur Gylfason hafi oft og tíðum notað það orð. Hér er eingöngu spurning um framtalsform. Fyrr en það liggur fyrir, sem ekki gerir í þessu máli, hvort þm. hafa talið fram á þennan hátt eða ekki, — hver og einn þm. á það við sína samvisku, — þá er ekki hægt, eins og hv. þm. Albert Guðmundsson sagði áðan, að standa uppi á Alþ. og bera þeim, sem hér hafa setið á þingi áður, eða þeim, sem sátu hér þó að þeir séu horfnir nú af þingi, skýrt og skorinort á brýn skattsvik, nema nefna dæmi. Og nú skora ég á hv. þm. Vilmund Gylfason að vera sá maður að nefna þau dæmi.