30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2211 í B-deild Alþingistíðinda. (1802)

Umræður utan dagskrár

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil fyrst víkja að því sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði vegna fæðispeninga þm. í næsta nágrenni Reykjavíkur. Þetta eru upplýsingar, sem ég hef fengið, að þm. búsettir í nágrenni Reykjavíkur hafi þessa dagpeninga. Þó að þm. búsettir á Seltjarnarnesi séu þar undanteknir, þá breytir það ekki grundvallaratriðinu, að þetta á sér stað. (ÓRG: Það var dæmið sem þm. tóku.)

Þeir, sem hér hafa talað, hafa mikið talað um að hér væri verið að brigsla þm. um skattsvik, en orðið skattsvikari nefndi ég aldrei, enda var það ekki það, sem ég hafði í huga þegar ég hóf umr. um þetta mál. Það, sem ég gagnrýndi, var að þetta væri ekki gefið upp á launauppgjörsseðli Alþingis eins og er hjá hverjum öðrum vinnuveitanda sem ber að gefa slíkt upp hjá sínum launþegum, og þetta yrði þess vegna framtalsskylt eins og hjá öðrum.

Ég vil þakka hæstv. fjmrh. og hæstv. forseta Sþ., hve vel þeir hafa tekið því að lagfæra þetta mál og að þetta verði ótvírætt framtalsskylt. Á ég ekki von á öðru, þegar sú lagfæring hefur náðst fram, en að þm. muni una því vel að sitja við sama borð og aðrir í landinu hvað varðar framtalsskyldu.