30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2224 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

31. mál, Suðurnesjaáætlun

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Mig langar til að lýsa yfir fullum stuðningi við þessa till. og ánægju með að hún skuli vera fram komin og hér til umr. Sannleikurinn er sá, að um mörg ár hefur vandamál verið þar syðra varðandi atvinnulíf. Suðurnesin hafa, eins og vitað er og eins og tekið var fram af fyrri flm. þessarar till., byggt afkomu sína á sjávarútvegi frá alda öðli, og það er fyrst nú seinni árin sem á bjátar um rekstur útvegs og fiskvinnslu þar. Alveg fram til 1971 voru brúttótekjur af fiskvinnslu á Suðurnesjum meiri en annars staðar í landinu. En nú nokkur hin seinni ár hefur þessu farið hrakandi og fiskvinnslan verið í lágmarki og verr sett en víðast annars staðar í þessu landi. Til þessa liggja margar ástæður, eins og hér hefur komið fram. Ég hef lítið svo á, að ein af ástæðunum væri sú, að á Suðurnesjum er eitt stærsta atvinnufyrirtæki landsins, þ.e.a.s. Keflavíkurflugvöllur, og okkur hefur fundist, sem höfum þurft að fara á fjörur við stofnanir og ráðamenn hér, að það væri öðruvísi tekið í málefni Suðurnesjamanna, kannske á þeim grundvelli að mönnum fyndist að þar sem þeir hefðu þetta stóra atvinnufyrirtæki, þá væri þeim ekki eins brátt um að fá lausn sinna mála og öðrum landshlutum, sem ekki hefðu Keflavíkurflugvöll til að byggja á. Hvað sem um það er, þá er víst að það hefur verið torsótt að fá lausn á vanda þeirra. Það vantar ekki að margar nefndir hafi verið skipaðar, og áætlunardeildir og hagdeildir viðskiptabankanna, Framkvæmdastofnunar ríkisins o.fl. aðila jafnvel hafa verið önnum kafnar við að reikna og reikna. En lítið hefur áunnist og lítið hefur skeð í lausn á vandamálum þeirra ennþá.

Það er rétt, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að að sjálfsögðu er mikil nauðsyn á að breikka grundvöllinn undir atvinnuháttum á Suðurnesjum, og er þá að sjálfsögðu fyrst og fremst gripið til þess að hugsa til iðnaðarins. En slíkt tekur langan tíma og mikið mál að undirbúa, og því held ég að sú lausn, sem verður að líta til á næstunni, sé einmitt að koma fiskvinnslu og útgerð á réttan kjöl aftur, og það held ég að geti aðeins gerst með því að auka þeirra hráefnismöguleika, en ekki með því að fækka atvinnutækjunum. Þetta er það sem nokkuð hefur verið deilt um, hvort bæri að loka þarna atvinnustöðvum eða hvort ætti að fjölga fiskiskipum þannig að hráefni gæti orðið meira að magni til. Ég held að ekki sé vafi á því, að gera þurfi hvort tveggja, en á vissum stöðum þarna syðra þurfi í fyrsta lagi að fjölga togurum. En það er einkennilegt, að þrátt fyrir þann samdrátt, sem orðið hefur, hefur þó alveg fram að seinni hluta þessa árs tekist að koma í veg fyrir atvinnuleysi, en nú er aftur á móti verulega farið að brydda á því.

Í sambandi við framtíðarlausn á málefnum Suðurnesja hefur ýmislegt komið til greina, og mér þykir gaman að geta glatt menn með því, að hingað inn í Alþingishúsið kom nú í dag fyrsta sýnishornið af salti frá Reykjanesi, þ.e.a.s. þar er nú tilraunavinnsla hafin með að framleiða salt og ekki aðeins matarsalt, heldur fleiri sölt. Þau sölt, sem nú eru til sýnishorn af, eru matarsalt, natríumklóríð, kalíumklóríð og kalsíumklóríð, mjög hagnýt efni sem eru í allmikil verðmæti, og vonir standa til að þarna geti hafist atvinnuuppbygging innan tíðar, þótt þetta ár liði vafalaust án þess að slík bygging hagnýtrar verksmiðju geti hafist.

Enn fremur er það, að mörgum hefur dottið í hug, að í sambandi við hinn stóra flugvöll okkar, stærsta flugvöll landsins, Keflavíkurflugvöll, væri ekki úr vegi að athuga hvort þar væri ekki hægt að hafa samsetningaraðstöðu í fríhöfn, erlend verkefni yrðu þar fullunnin og send út aftur. Slíkt gerist t.d. í Írlandi og víðar og hefur gefið mörgum góða raun.

Enn fremur er það, að ef útgerðin og fiskvinnslan kæmist í gott lag á ný, þá er enginn efi á því, að þjónustufyrirtæki mundu rétta við á nýjan leik og þau mundu vafalaust verða fær um að taka fleiri starfsmenn til sín en þau geta gert í dag.

Á sama hátt er það, að slippurinn, sem í þessu landi veitir fjöldamörgum atvinnu víða um land, slippurinn þarna suður frá hefur átt í miklum erfiðleikum einmitt vegna þess mikla fjármagnsskorts sem verið hefur þarna syðra alllengi.

Ég lít nú svo á, að þessi till. sé komin fram á mjög góðum tíma og sé nauðsynleg til viðbótar við þá till. sem var samþ. á síðasta Alþ., þ.e.a.s. að kanna áhrif Keflavíkurflugvallar á atvinnumál og félagsmál þarna syðra, og tel að rannsókn á þessum málum geti gefið raunhæfa mynd af ástandinu og auðveldað leiðirnar til úrbóta.

Ég verð líka að segja það, að mér hefur fundist vel athugandi að íbúar Suðvesturlandsins og Suðurnesjanna fengju sérstaka aðstöðu gagnvart þeim tegundum fiska, sérstaklega síldar og humars, sem halda sig aðallega á þessu svæði, — fengju sérstaka aðstöðu til nýtingar á þessu, eins og t.d. gert er við rækjuna í öðrum landshlutum. Þetta mundi geta gefið nokkurt öryggi og létt nokkuð á í þessum atvinnumálum.

Ég held því fram og er viss um að það ástand, sem er í okkar kosningamálum, þar sem atkvæði manna í Reykjaneskjördæmi er aðeins 1/4–1/5 á móti því sem best gerist í landinu, hefur haft áhrif í þessum efnum. Enginn vafi er á því, að ef þetta landssvæði hefði haft sterkari stöðu hér innan þingveggja á undanförnum árum, þá hefði verið auðveldara að koma málum þess í höfn heldur en reynst hefur.