31.01.1979
Neðri deild: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2230 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

159. mál, réttur verkafólks til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég ætla að lýsa ánægju minni yfir að þetta frv. skuli nú fram komið. Það er, eins og öllum hv. dm. er kunnugt, liður í hinum svokallaða „félagsmálapakka“, sem samið var um milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstj. fyrir 1. des. s.l. Og þetta frv. er það veigamesta sem í þeim málefnasamningi fólst.

Ég þarf ekki að bæta við það sem hæstv. félmrh. sagði. Við alþm. höfum fengið mótmæli frá samtökum atvinnurekenda varðandi þetta frv. og það kom svo sem ekki neitt á óvart. En með þessu frv. er verið að tryggja almennu verkafólki rýmri rétt en það hefur haft, bæði varðandi uppsögn í störfum og einkum og sér í lagi greiðslur vegna veikindaforfalla og í slysatilvikum.

Ég ætla ekki að fara að rekja efnisatriði frv. Hér er verið að reyna að færa réttindi hins almenna verkafólks, hvort sem það er faglært eða ófaglært, nær réttindum ýmissa annarra þegna þjóðfélagsins sem á vinnumarkaðnum starfa, og því er þetta frv. mikið réttlætismál. Ég átti á sínum tíma þátt í að semja frv. að þeim lögum sem þetta frv. nú tekur við af, þ.e.a.s. lögunum frá 1958. Þá hafði hið almenna verkafólk ákaflega takmörkuð réttindi, bæði varðandi uppsagnir frá störfum og greiðslur í veikinda- og slysatilvikum. Við höfðum þá árum saman reynt að ná fram í samningum við atvinnurekendur bótum á þeim kjaraatriðum, en án árangurs. Nokkru áður en það frv. var flutt og síðan samþykkt sem lög var einmitt samtökum atvinnurekenda boðið að gera samninga sem væru u.þ.b. á grundvelli þeirra laga. Enn einu sinni var því neitað. Um það, að löggjafinn eigi sem minnst að fjalla um þessi mál, heldur skuli það gert í samningum milli aðila vinnumarkaðarins, er út af fyrir sig gott að segja, en þá þurfa sjálfsögð réttindi eins og hér um ræðir að nást fram í samningum. Það hefur ekki tekist, og ég tel alveg sjálfsagt að einmitt löggjafinn fjalli um mál af því lagi sem hér um ræðir. Sú hefur iðulega orðið niðurstaða samninga við atvinnurekendur, að ríkisstjórnir hafa komið inn í þá samninga á tiltekinn hátt með fyrirheit um löggjöf um tiltekin atriði. Þetta er ákaflega vel þekkt úr baráttusögu verkalýðshreyfingarinnar, samskiptum hennar við samtök atvinnurekenda og ríkisstj. Ég þarf ekki að fara að rekja nein dæmi, svo vel eru þau þekkt.

Það er rétt, sem hæstv. félmrh. tók hér fram, að einstök atriði hafa verið umdeild í lögunum frá 1958 og ekki ævinlega verið eining um framkvæmd þeirra. Um þau hafa gengið nokkrir dómar. Sá dómur, sem hvað áhrifaríkastur var á framkvæmd laganna, varðar hina svokölluðu staðgengisreglu, þ.e.a.s. menn skyldu halda óskertum launum þegar þeir forfölluðust frá störfum vegna veikinda eða slysa. Það er í framkvæmd á þann hátt, að menn hafa ekki aðeins umsamda fasta yfirvinnu, sem einn dómur er til um, heldur einnig þær tekjur sem menn sannanlega hefðu átt ef þeir hefðu ekki forfallast frá starfi, þ.e.a.s. sömu tekjur og sá, sem tók við störfum hans eða starfshópurinn hafði sem hann vann með. Um þetta hefur aldrei í raun og veru verið neitt samkomulag, heldur gekk dómur sem var túlkun Hæstaréttar á lögunum. Í samningaumræðum undanfarin ár höfum við alltaf boðið að svokölluð staðgengisregla skyldi ekki ná yfir þær greiðslur sem væru fram yfir það sem nú er í samningum og að nokkru leyti í lögunum, þ.e.a.s. fjögurra vikna greiðslu í veikinda- og slysatilvikum. Þessari reglu er fylgt í þessu frv. Ég held að einmitt þar sé verulega komið til móts við atvinnurekendur.

Ég á sæti í þeirri n., sem þetta mál fer til, og ætla ekki, eins og ég sagði, að gera sjálft frv., efnisatriði þess, frekar að umræðuefni, en endurtek, að ég fagna því, að þetta mál skuli fram komið á Alþ., og vænti þess, að það fái greiða afgreiðslu hjá þessari hv. d. og geti sem allra fyrst hlotið endanlega afgreiðslu frá þinginu.