31.01.1979
Neðri deild: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2235 í B-deild Alþingistíðinda. (1825)

69. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Fjórir þm. Alþfl. í þessari hv. d. flytja á þskj. 75 frv. til l. um breyt. á l. nr. 101 frá 8. des. 1966, um framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl.

Tilgangurinn með frv. er að breyta þeim ákvæðum, sem bundin eru í lögum varðandi verðábyrgð á útfluttum landbúnaðarafurðum. Í 1. gr. frv. er því lýst, hvernig flm. vilja að sú breyting verði, og í 2. gr. er skýrt, hvernig að framkvæmdinni á að standa, þ.e.a.s. að markmiði 1. gr. verði náð í áföngum á fjórum árum til þess að auðveldara verði að gera þá markmiðsbreytingu sem frv. þetta stefnir að.

Efnislega shlj. frv. var flutt í Nd. Alþ. af þm. Alþfl. á síðasta þingi og var þá tekið til alllangrar umr. í þessari hv. d. Ég tel því ekki ástæðu til þess að fara mjög mörgum orðum um þetta mál núna, því að flestir þeir, sem ég tel að hafi sérstakan áhuga á að fjalla um mál þetta nú við 1. umr., tóku einnig til máls um efnislega shlj. frv. sem við fluttum í fyrra.

Núverandi skipan verðábyrgðar vegna útflutnings landbúnaðarafurða var tekin upp með brbl. frá 15. des. 1959, en eins og fram kemur í frv. eru brbl. þessi í formi viðauka við lög um framleiðsluráð landbúnaðarins. Í grg. með frv. þessu er lýst tildrögum lagasetningarinnar, en lagasetningin, sem þá var gerð og er í gildi enn, hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Tryggja skal greiðslu á þeim halla, sem bændur kunna að verða fyrir af útflutningi landbúnaðarvara, en þó skal greiðslan vegna þessarar tryggingar ekki vera hærri en svarar 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar viðkomandi verðlagsár, miðað við það verð sem framleiðendur fá greitt fyrir afurðir sínar.

Hagstofa Íslands reiknar fjárupphæð þá, er ber að greiða framleiðendum vegna ákvæðis 2. mgr. þessarar greinar.“

Með þessum hætti tekur sem sé ríkissjóður að sér verðábyrgð á landbúnaðarafurðum vegna útflutnings, sem numið getur allt að 10% af samanlögðu heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar í landinu.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að á árunum fyrir síðari heimsstyrjöld og á næstu árum eftir stríð var mikill skortur á landbúnaðarafurðum í landinu. Þá var að tilhlutan opinberra aðila, m.a. Alþingis, beinlínis mörkuð sú stefna að styðja bæri með lánafyrirgreiðslu og beinum styrkjum úr ríkissjóði að mikill framleiðsluaukningu í landbúnaði með það að markmiði, að landbúnaðarframleiðslan á Íslandi samrýmdist þörfum þjóðarinnar. Þá var mikill skortur á landbúnaðarafurðum og opinberir aðilar tóku að sér að ýta undir framleiðsluaukningu til að tryggja þarfir þjóðarinnar, m.a. með styrkjakerfi og lánakerfi sem enn er að verulegu leyti í gildi óbreytt. Einn liðurinn í þessari stefnu, að auka bæri framleiðsluna í landbúnaði, er að sjálfsögðu sú verðábyrgð sem hér um ræðir. Þar var stefnt að því, að þó fyrir kæmi að landbúnaðarframleiðslan væri á einhverju tilteknu ári nokkuð umfram innanlandsþarfir, þá bæri vegna þeirrar stefnu sem fylgt var, þ.e.a.s. stefnunnar um að auka framleiðslu á landbúnaðarafurðum, — þá bæri ríkissjóði að tryggja það, að bændur yrðu ekki fyrir fjárhagslegum skaða af. Og auðvitað vakti ekki fyrir mönnum að stefna að því að framleiðsla á landbúnaðarafurðum innanlands yrði umfram innanlandsþarfir, heldur hitt að tryggja að framleiðslusveiflur á milli ára kæmu ekki niður á fjárhagslegri afkomu bænda.

Fyrir setningu þeirra laga sem hér um getur, þ.e.a.s. fyrir árið 1959, var ástandið í landbúnaðarframleiðslunni þannig, að framleiðsla landbúnaðarafurða innanlands var ekki meiri en samrýmdist þörfum innanlandsmarkaðarins. Fram til ársins 1959 hafði t.d. útflutningur landbúnaðarafurða aðeins numið 5.45% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar þegar hann var mestur. Þegar mest var flutt út af landbúnaðarafurðum fram til ársins 1959 nam samanlagt framleiðsluverðmæti alls útflutningsins aðeins 5.45% af heildarverðmæti allrar landbúnaðarframleiðslunnar.

Aðeins 5.45% af landbúnaðarframleiðslunni voru þá flutt út, og auðvitað gengu menn út frá því sem gefnu, að þetta væri vísbending um þá fjárhagslegu ábyrgð sem ríkissjóður væri að taka á sig með þessari lagasetningu. Menn töldu t.d. á Alþ. árið 1960, þegar um þetta var fjallað, að það væri algerlega þarflaust að samþykkja brtt. sem kom þá frá einum þm. Alþfl. við þessa lagasetningu þess efnis, að verðábyrgðinni yrði hagað með öðrum hætti, þ.e. þeim að hún næði til mismunarins á því verði, sem fengist á erlendum markaði fyrir allt að 10% framleiðslunnar, sem út yrði flutt, og því verði, sem fengist innanlands fyrir sama magn. Brtt. þm. Alþfl. árið 1960 var sem sé sú, að verðábyrgðinni yrði hagað þannig, að íslenskum bændum væri tryggt að þeir sköðuðust ekki þó að framleiðslan að magni til í landbúnaðinum væri 10% umfram innanlandsþarfir, sveiflan gæti sem sagt orðið 10% af framleiðslunni innanlands án þess að bændur bæru skaða af. Menn álitu árið 1960 að þessa breytingu væri þarflaust að gera, vegna þess að framleiðslan í landbúnaði innanlands hefði aldrei orðið svo mikil að hún nálgaðist neitt þetta mark, vegna þess að fyrir árið 1959 hefði aldrei verið flutt út af landbúnaðarframleiðslu meira en sem nam 5.45% af heildarverðmætinu eða u.þ.b. helmingi af þeirri verðábyrgð sem þm. Alþf., er brtt. flutti, vildi að ríkið bæri að hámarki. Og sá hv. þm. sem þá var landbrh., hv. þm. Ingólfur Jónsson, sagði í Ed. Alþingis 11. mars 1960 orðrétt, með leyfi forseta:

„Og nú er öllum sú staðreynd ljós, að landbúnaðarframleiðslan vex ekkert í hlutfalli við aukna notkun innanlands, ekkert í samræmi við fjölgun fólksins í landinu, og þess vegna er það rétt... að það eru litlar líkur til þess, að útflutningsbæturnar verði þungur baggi á ríkissjóði.“

Þetta var sem sé skoðun þm. þegar umrædd lög voru sett, að það væru ekki líkur til þess, að þarna væri verið að binda ríkissjóði þungan fjárhagslegan bagga. Engum kom til hugar að umframframleiðsla á landbúnaðarafurðum, offramleiðsla landbúnaðarafurða í landinu, yrði neitt verulega umfram innanlandsþarfir. Það hefur hins vegar komið í ljós, að sú stefna, sem fylgt hefur verið í landbúnaðarmálum allt frá því að afurðalögin voru sett og ég lýsti áðan og laut að því að ýta mjög undir mikla framleiðsluaukningu í landbúnaði með þeim hætti að bændum var yfirleitt gert og er enn gert að sækja allar tekjur sínar, ekki með framleiðniaukningu, heldur beinni framleiðsluaukningu, — sú stefna hlaut auðvitað að koma fram í mjög mikilli aukningu á framleiðslu landbúnaðarafurða, enda reyndust spámennirnir, eins og hæstv. þáv. landbrh. Ingólfur Jónsson, ekki hafa betri sagnaranda en svo, að aðeins tveimur árum eftir að hæstv. þáv. landbrh. lét þau orð falla í ræðu í Ed. sem ég vitnaði í áðan, hafði landbúnaðarframleiðslan vaxið svo mikið í landinu að verðábyrgð ríkissjóðs var nýtt að fullu. Þetta var verðlagsárið 1963–1964, en þá nam greiðsla verðábyrgðar úr ríkissjóði vegna útflutnings á landbúnaðarafurðum leyfilegu hámarki, þ.e.a.s. 10% af samanlögðu heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar í landinu. Og þessu hámarki hefur verðábyrgðin náð í átta skipti, eða réttara sagt: í þau 14 ár sem liðið hafa síðan fyrst kom full verðábyrgð á landbúnaðarafurðir hefur átta sinnum þurft að koma til þess að sú verðábyrgð væri nýtt að fullu.

Þetta kemur fram í töflu í á bls. 6 í frv., en þar kemur í ljós að frá verðlagsárinu 1963–1964 til verðlagsársins 1977–1978 er hlutfalli heildarverðábyrgðar ríkissjóðs náð fyrsta árið 1963–1964, þriðja árið 1965–1966, fjórða árið 1966–1967, fimmta árið 1967–1968, sjötta árið 1968–1969, sjöunda árið 1969–1970 og áttunda árið 1973–1974. Á verðlagsárinu 1976–1977 fór síðan verðábyrgðin fram úr leyfilegu hámarki. Þá námu greiðslur úr ríkissjóði vegna útfluttra landbúnaðarafurða 11.5% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar eða voru 1.5% prósentustigum umfram leyfilega verðábyrgð. Og ef ríkissjóður verður látinn bera hallann af útfluttri landbúnaðarvöru á verðlagsárinu 1977–1978 þarf verðábyrgðin að nema 13.8% af samanlögðu heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar, eða 3.8% umfram það hámark sem lög leyfa.

Af þessu má augljóslega sjá, hver stefnan hefur orðið, hver afleiðingin hefur orðið m.a. af þeirri lagabreytingu sem gerð var á Alþ. 1959–1960. Það er athyglisvert í þessu sambandi, að á árunum 1963–1974 hafa greiðslur úr ríkissjóði aðeins tvisvar sinnum farið undir 8% af samanlögðu heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar, þannig að það er auðséð að hið leyfilega hámark verðábyrgðar úr ríkissjóði hefur beinlínis verið notað til þess að tryggja ávallt fyllstu umframframleiðslu á landbúnaðarafurðum í landinu sem verðábyrgð ríkissjóðs framast leyfir. Þannig hefur ekki verið stefnt að því, að þessi verðábyrgð væri trygging fyrir sveiflum í framleiðslu milli ára, heldur hinu, að það væri beinlínis regla að landbúnaðarframleiðslan á hverju ári skyldi vera mjög verulega umfram innanlandsþarfir og reikningurinn fyrir mismuninum væri gerður upp af ríkissjóði.

Það er að sjálfsögðu ýmislegt annað sem fram kemur í þessu sambandi. Ef metnar eru greiðslur í þessu skyni í jafnvirðiskrónum, þ.e.a.s. á sambærilegu verðlagi, kemur í ljós hversu þessi útgjöld, sem tekin eru af skattfé almennings og eiga að standa undir útflutningi á offramleiðslu landbúnaðarvara sem ekki fæst nema brot af verði fyrir á erlendum mörkuðum, hafa vaxið gífurlega mikið. Frá verðlagsárinu 1963–1964 til verðlagsársins 1976–1977 hefur greiðslubyrði ríkissjóðs í jafnverðmætum krónum vegna ábyrgðarinnar á útflutningi landbúnaðarvara vaxið um 1.1 milljarð, eða um 71.8%. Í jafnverðmætum krónum hafa sem sé útgjöld ríkissjóðs vegna þessarar verðábyrgðar vaxið um 71.8% frá verðlagsárinu 1963 til 1977. Og þessi verðábyrgð í jafnvirðiskrónum hefur farið stöðugt vaxandi frá ári til árs.

Þá ber þess líka að geta, að eins og þessum útreikningum er hagað, þá þýðir það að ríkið taki á sig ábyrgð vegna sölu á offramleiðslu á landbúnaðarvörum erlendis. Vegna þess, hvernig þeirri reikningsaðferð er hagað, kemur það undarlega fram, að ef t.d. tekjur af lax- og silungsveiðum verða meiri á árinu í ár en árinu í fyrra, þá eykst það fé sem greiða ber úr ríkissjóði vegna útflutnings á dilkakjöti og smjöri. Ef tekjur af hirðingu rekaviðar og sölu rekaviðar í girðingarstaura og til annarra slíkra nota verða hærri á árinu 1979 en þær voru á árinu 1978, þá merkir það, að ríkissjóður verður að leggja fram meira fé til þess að greiða niður lambakjöt og smjör á erlendum mörkuðum í ár en árið áður. Og ef tekja af hrognkelsaveiðum, silungsveiðum, sölu veiðileyfa eða selveiðum eða hirðingu æðardúns verður meiri á árinu 1979 en hún var á árinu 1978, þá vex að sama skapi fjárhagsábyrgð ríkissjóðs, þá hækka að sama skapi þau útgjöld sem ríkissjóður er lögskyldaður til að greiða með smjöri og kjöti á erlendum markaði. Þessi tala, sem ríkissjóður er lögum samkv. skyldugur til að greiða, 10% af samanlögðu verðmæti landbúnaðarframleiðslunnar í landinu; er nefnilega fundin þannig, að lagt er saman verðmæti sauðfjárræktar, verðmæti nautgriparæktarframleiðslunnar og allra hliðarbúgreina svo sem tekjur af sölu veiðileyfa, silungsveiði, garð- og gróðurhúsaafurðir, tekjur af geitum, svínum, loðdýrum, alifuglum og öllu slíku og lagt saman í eina upphæð. Þetta er talið vera heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar í landinu. Síðan eru 10% af þessari heildarupphæð reiknuð út og þar er fundin verðábyrgð ríkissjóðs vegna útflutnings á smjöri og kjöti. Þetta þýðir það, að offramleiðslan t.d. á dilkakjöti í landinu getur numið 40%, sem verðábyrgð ríkissjóðs tekur til. Þannig getur það orðið, vegna þessarar viðmiðunar, að offramleiðsla á dilkakjöti í landinu nemi 40% sem flutt er út með fullri verðábyrgð ríkissjóðs. Auðvitað sjá allir hversu víðs fjarri því er að slík stefna samrýmist því markmiði, að framleiðsla landbúnaðarafurða sé fyrst og fremst miðuð við innanlandsþarfir. Það getur ekki verið í þágu þjóðarheildarinnar að verðábyrgð ríkissjóðs sé hagað þannig, að það sé hægt að framleiða 40% fleiri dilkaskrokka á Íslandi en þjóðin þarf á að halda og ríkissjóður verði að taka á sig að greiða mismuninn á því verði, sem fæst fyrir þessi 40% — umframframleiðslunnar — í útlöndum, og því verði, sem bændur þurfa að fá. Það sjá auðvitað allir, að slík stefna hlýtur að leiða okkur í ógöngur, beinar ógöngur í landbúnaðarmálum, — þær ógöngur, hæstv. forseti, sem íslenska þjóðin er nú komin í í þeim efnum.

Ef menn athuga þá hlið á útflutningi offramleiðslunnar í landbúnaði, þar sem er útflutningur á smjöri, þá skyldu menn gefa því gaum, að fyrir hvert eitt kg af smjöri, sem út er flutt, fæst ekki einu sinni nægilegt verð til að borga þann innflutta fóðurbæti sem fór í að framleiða þetta eina kg af smjöri hvað þá heldur að greiða allar vörur og vinnu sem lögð var fram til framleiðslunnar. Fyrir hvert eitt kg af smjöri, sem við Íslendingar verðum að flytja út, fáum við ekki einu sinni andvirði þess erlenda fóðurbætis sem fór í að framleiða þetta eina smjörkg. Það segir sig auðvitað sjálft, hvert slík offramleiðslustefna hlýtur að leiða þjóðina, þegar ábyrgð ríkissjóðs vegna útflutnings á landbúnaðarafurðum er þannig hagað að hægt sé að sitja uppi með milli 300 og 400 þús. dilkaskrokka í landinu eftir árið, sem þjóðin kemst ekki yfir að éta, og ríkissjóður er látinn borga mismun þann, sem er á verðinu, sem fyrir þessa dilkaskrokka fæst í útlöndum, og því, sem bændur þurfa að fá. Þegar svo er komið, eins og nú er, að við sitjum uppi með heils árs birgðir af smjöri í birgðageymslum umfram það, sem þjóðin kemst yfir að borða og neyðumst til að flytja þetta smjör út á verði, sem er lægra en nemur þeim kostnaði af erlendum fóðurbæti sem við þurftum að flytja inn í landið til að framleiða þetta smjör, þá er best að athuga sinn gang.

Ég held að allir séu sammála um það, það sé engin undantekning þar á, að tryggja beri bændum eðlileg kjör og sambærileg við aðrar stéttir. Ég held að það séu allir sammála um að það beri að tryggja bændum sömu kjör og öðrum, þó svo að sveiflur verði í framleiðslu landbúnaðarafurða, þannig að það þurfi e.t.v. að standa undir talsverðri eða einhverri offramleiðslu á landbúnaðarafurðum, svo að íslensku þjóðinni séu jafnan tryggðar nægilegar neysluvörur af búvörum. En hitt held ég að allir hljóti að sjá, að það er mjög óeðlilegt ástand þegar framleiðslan er orðin svo mikil að það þarf að flytja út kannske milli 30 og 40% af því dilkakjöti, sem til fellur í landinu, og þegar framleiðslustefnan hefur gengið svo út í öfgar, að íslenska þjóðin þarf að taka á sig mjög verulegar fjárhagsskuldbindingar til þess að standa undir offramleiðslu á mjólkurafurðum. Við eigum nú í landinu u.þ.b. heils árs birgðir af smjöri, sem ekki er fyrirsjáanlegt að þjóðin geti torgað sjálf. Þarna þarf auðvitað að finna nýja leið sem geti tryggt þjóðinni nægilegar landbúnaðarvörur og bændum viðunandi lífskjör, án þess að það þurfi að leiða okkur í þær ógöngur sem ég hef verið að lýsa.

Það er mikill vandi að finna þessa leið. Framleiðslustefnan, sem búið er að fylgja í landbúnaðinum allt of lengi, hefur miðast við að bændur sæki sér alltaf tekjur sínar til jafns við viðmiðunarstéttirnar með því að auka framleiðsluna einvörðungu án þess að gera hagkvæmt fyrir bændur að auka framleiðni á búum sínum eða jafnvel að framleiða ekki undir sumum kringumstæðum. Þegar á að snúa við á þessari braut eftir að henni hefur verið fylgt svo lengi til óþarfa þá getur verið, ef það yrði gert of harkalega, að það komi mjög illa við bændur, — svo illa að margir þeirra kynnu að neyðast til að bregða búi. Ég vil taka það sérstaklega fram, að slíkt vakir alls ekki fyrir flm. þessa frv. Það vakir ekki fyrir okkur Alþfl.-mönnum og okkur flm. þessa frv. að finna einhverja leið til þess — það mætti segja kannske að „skera bændastéttina niður við trog“, síður en svo. Við viljum finna einhverja leið sem getur tryggt bændum eðlileg og réttlát lífskjör miðað við eðlilega og réttláta framleiðslustefnu í landbúnaði. Við teljum að núverandi stefnu, þeirri stefnu sem fylgt hefur verið, búin var til með setningu afurðalaganna af eðlilegum ástæðum þá, hafi verið fylgt allt of lengi og hún sé búin að leiða okkur í hreinar ógöngur.

Í þessu frv. er lagt til að sú breyting verði gerð á verðábyrgð ríkissjóðs vegna útflutnings á landbúnaðarafurðum, að verðábyrgðin taki aðeins til útflutnings á framleiðslu tveggja helstu búgreina landbúnaðarins, þ.e.a.s. afurða nautgriparæktar og afurða sauðfjárræktar, og einskorðist útreikningar á verðábyrgðinni aðeins við framleiðsluverðmæti þessara búgreina, þannig að hámarkið á verðábyrgð vegna útflutnings á afurðum nautgriparæktar geti mest numið 8%, ekki af samanlögðu heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar með gróðurhúsa- og grænmetisrækt, silungsveiði, dúntekju, hrognkelsum og öllu slíku reiknuðu inn í, heldur aðeins af framleiðsluverðmæti þeirrar búgreinar sem verðábyrgðin á að miðast við. Með sama hætti verði hámarksverðábyrgð ríkissjóðs vegna framleiðslu sauðfjárafurða miðuð aðeins við framleiðsluverðmæti þeirrar búgreinar einnar og nemi mest 12 af hundraði. Þetta mundi þýða, ef þessi breyting væri gerð, að útgjöld ríkissjóðs t.d. á verðlagsárinu 1976–1977 mundu hafa numið rúmum 11/2 milljarði í stað 2.6 milljarða eins og verðábyrgðin nam. Ef þessi breyting væri gerð, þá mundi hún sem sé hafa það í för með sér, að útgjöld ríkisins á einu ári vegna verðábyrgðarinnar mundu lækka um heilan milljarð.

Það liggur alveg ljóst fyrir, að þessi milljarður mundi rýra tekjur bænda, sumra hverra a.m.k., að sama skapi. Við teljum, Alþfl.-menn, að það sé ekki rétt að leggja slíka byrði á bændastéttina í einu vetfangi. Menn skyldu athuga að það eru ekki bændur sem hafa búið til þessa framleiðslustefnu sem ég hef verið að lýsa hér, það eru ekki bændur sem hafa sett verðábyrgðina í lög um framleiðsluráð landbúnaðarins, heldur Alþ. sjálft. Bændur hafa bara, eins og aðrar stéttir þjóðfélagsins, lagað sig að þeirri stefnu í framleiðslumálum sínum sem opinber stjórnvöld hafa mótað. Við leggjum því ekki til að þessi breyting, sem mundi breyta verðábyrgðinni svo mjög, verði gerð á einu ári, því að það mundi skerða mjög verulega hlut bænda. Við leggjum til að breytingin verði gerð í áföngum, á fjórum árum, þannig að fyrsta árið nemi verðábyrgðin 20% af framleiðsluverðmæti sauðfjárafurða, annað árið 18, þriðja árið 16, fjórða árið 14 og að loknum þeim fjórum árum, sem sé fimmta árið, verði verðábyrgðin 12% af framleiðsluverðmæti sauðfjárafurða. Þannig teljum við að megi þoka þessum málum í áttina í áföngum, án þess þó að sú breyting komi of harkalega við hagsmuni bændastéttarinnar.

Það kemur fram í töflum, sem fylgja frv. þessu á bls. 6, 7 og 8, hvernig í tölum talið má lýsa þróuninni í þessum málum frá árunum 1963–1964 til ársins 1977–1978. Það kemur líka fram í töflu III á bls. 8, hvernig verðábyrgð hefði verið á hverju þessara ára um sig, ef hún hefði ekki verið eins og hún var ákveðin í lögum frá 1959–1960 og eins og hún er enn, heldur verið allan þennan tíma eins og frv. þetta gerir ráð fyrir. Það kemur fram í töflu III um öll þessi ár, hver upphæðin hefði þá verið á verðábyrgðinni vegna útflutnings, hvort heldur er nautgripaafurða eða sauðfjárafurða, og hvenær verðábyrgðin hefði náð hámarki á útflutningi þessara afurða og hvenær ekki.

Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja þetta mál öllu frekar að sinni, a.m.k. ekki nema sérstakt tilefni gefist til. En í lokin vil ég aðeins ítreka það, að við þm. Alþfl. teljum að það sé löngu orðið tímabært að breyta þeirri meginstefnu í landbúnaðarmálum og í opinberri aðstoð við landbúnaðinn sem atvinnugrein og bændur að hvetja sífellt til aukinnar framleiðslu, bæði með lánum og styrkjum. Það á ekki endilega að breyta þessari aðferð þannig að taka strax á fyrsta eða öðru ári allt það fé í formi lána og styrkja sem landbúnaðurinn og bændur hafa fengið hingað til, taka það alfarið af þeim, heldur breyta þessum greiðslum þannig, að í staðinn fyrir að hvetja einhliða til aukinnar framleiðslu eins og nú, sbr. ræktunarstyrkina og framlög í stofnlánasjóðina, þá verði hætt að kalla á aukna landbúnaðarframleiðslu þegar offramleiðslan er orðin svona mikil og hluta af þessu fé varið til að styrkja bændur með öðrum hætti, t.d. eins og við lögðum til við afgreiðslu fjárl. rétt fyrir. jólin, að hluta af þessu fé yrði breytt úr framleiðsluaukandi styrkjum í félagslega styrki, t.d. í aðstoð til bænda til þess að þeir gætu ráðið sér vinnuafl og þeir gætu fengið orlof frá búum sínum eins og annað fólk í þessu landi, gætu tekið orlof að sumri, vori, hausti eða vetri, og einnig til að efla ábatasamar hliðarbúgreinar, svo sem veiðibúskap og annað því um líkt, og félagslega aðstoð við bændur. Ég held að það sé bráðnauðsynlegt að taka einmitt slíka stefnubreytingu til athugunar.

Ég held að það dyljist engum, nema manni sem annaðhvort er sjálfur algerlega blindur í þessum málum eða blindar sjálfan sig vísvitandi í málefnum landbúnaðarins, að sú stefna er röng, sem leitt hefur til þess að verðábyrgð ríkissjóðs á landbúnaðarafurðum nægir ekki lengur, heldur verður að fara fram úr lögleyfðu hámarki ár frá ári, vegna þess að offramleiðslan í helstu greinum íslensks landbúnaðar nemur nú milli 30 og 40% í sauðfjárbúskap og í mjólkurframleiðslu og við sitjum uppi með óseljanlegt smjör sem nemur ársneyslu þjóðarinnar. Þeir menn, sem ekki sjá hvaða afleiðingar slík stefna hefur fyrir landbúnaðinn, neytendur í landinu og ríkissjóð, eru annaðhvort blindir á þessi mál og gersamlega tilgangslaust að tala um þau við þá eða hafa blindað sig sjálfir vísvitandi, og það er að sjálfsögðu margfalt verra.

Herra forseti. Ég óska svo eftir því, að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til fjh.- og viðskn. Hvers vegna skyldi ég óska eftir því, þar sem hér er um að ræða breytingu á lögum um framleiðsluráð landbúnaðarins? Vegna þess að ég lít svo á, að hér sé ekki fyrst og fremst um að ræða málefni landbúnaðarins sem atvinnugreinar, heldur sé um að ræða fjárhagslegt málefni, þ.e.a.s. með hverjum hætti eigum að haga greiðslum úr ríkissjóði til þess að tryggja eðlilega og nauðsynlega framleiðslu landbúnaðarafurða á Íslandi þannig að þörfum þjóðarinnar sé fullnægt án þess að leggja þurfi þungar byrðar á neytendur og bændur, þ.e.a.s. á skattborgarana, til þess að standa undir kostnaði af óhóflegri umframframleiðslu á landbúnaðarafurðum sem verði að flytja út og selja erlendum aðilum fyrir lægra verð en nemur verði á innfluttum aðföngum sem þarf til þess að skapa þessa umframframleiðslu. Ég óska því eftir því, hæstv. forseti, með þessum rökstuðningi, að frv. verði vísað til fjh.- og viðskn.