01.02.1979
Sameinað þing: 46. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2249 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Þegar skýrt var frá þessari samningagerð við Færeyinga að þessu sinni var ég einn í hópi þeirra sem lýstu því yfir að þeir væru þessum samningum andvígir, teldu þá ranglega gerða miðað við aðstæður, og þó lýsti ég mestri undrun minni á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru við þessa samningagerð. Ég vænti að þessi afstaða mín komi engum á hv. Alþingi spánskt fyrir, svo oft hef ég lýst henni hér á Alþ. þegar þessi mál hefur borið á góma áður. Ég hef að vísu orðið var við það, að nú eins og oft áður eru til þeir menn sem halda að af því að bæði ég og aðrir voru því meðmæltir, að samið var við Færeyinga um ákveðnar fiskveiðiheimildir fyrir 3 eða 4 árum, þá sé ósamkvæmni í því hjá mér nú að geta ekki fallist á það áfram. Þeir menn, sem þannig tala og skrifa, eru á því sviði að það tekur því varla að tala við þá um mál eins og þessi, ef menn halda að samningar af þessu tagi verði ekki að fara eftir því, hvernig ástæður eru hverju sinni hjá þeim sem eru að semja.

Það er auðvitað enginn vafi á því, að til þess lágu ærin rök að við heimiluðum Færeyingum nokkrar veiðar í fiskveiðilandhelgi okkar rétt eftir að við höfðum fært fiskveiðimörk okkar út í 50 mílur og síðan út í 200 mílur.

Þá var það nokkurn veginn ljóst, að a.m.k. meiri hl. aðila í Færeyjum stóð með okkur í þeirri deilu sem við áttum þá í við Breta, og þó að þar fyndust að vísu aðilar sem vildu aðstoða Breta og tækju afstöðu gegn okkur, þá var það svo sem ekki meira en það sem hafði gerst í mörgum öðrum löndum, en allur þorri Færeyinga stóð greinilega með okkur. Við þær aðstæður höfðum við Íslendingar lýst því yfir, að við mundum veita þeim þjóðum, sem hér hefðu veitt áður, nokkurn umþóttunartíma. Við vorum auðvitað í þeim efnum eins og oft áður miklu betri við Færeyinga, því að við leyfðum þeim að stórauka afla sinn á Íslandsmiðum frá því sem þá hafði verið um nokkurra ára skeið, og það var mjög athyglisvert, að á sama tíma sem dregið var úr veiðiheimildum allra annarra, þá var það svo að Færeyingar juku afla sinn hér á Íslandsmiðum. Eftir að við færðum út okkar landhelgismörk juku þeir veiðar sínar hér til verulegra muna einir allra útlendinga.

En svo kom að því í þessum málum, að það lá orðið ljóst fyrir að nær allir höfðu viðurkennt rétt strandríkja til þess að taka sér 20 mílna fiskveiðilandhelgi, og þann rétt áttu Færeyingar engu síður en við Íslendingar. Um svipað leyti var komin upp sú staða hjá okkur, að við töldum að fiskstofnar okkar, þeir sem skiptu mestu máli, væru komnir þannig að við yrðum að fara að draga talsvert úr eigin veiði, og eins og allir hér á hv. Alþ. kannast við voru reglur um það fyrst settar varðandi þorskveiðar. Á s.l. ári var svo komið, að það var upp í tvo mánuði sem íslenskum veiðiskipum var beinlínis bannað að stunda þorskveiðar með eðlilegum hætti, sumum skipunum. Hér var því vitanlega um það að ræða, að farið var að leggja verulegar hömlur á.

Eftir að við tókum upp þessar hömlur gátum við þó heimilað Færeyingum að veiða hér loðnu, því að við töldum að við ættum allmikla möguleika til slíkra veiða hér við land. Þá lýsti ég yfir á Alþ. að ég vildi fella niður veiðiheimildarsamninginn við Færeyinga og eins við Belga og Norðmenn og við alla útlendinga varðandi þorsk og skyldar tegundir, þar sem við vorum farnir að takmarka veiðarnar verulega fyrir okkur sjálfa, en hins vegar gætum við vel boðið Færeyingum að veiða hér nokkuð af loðnu.

Svo kom aftur að því, að við fórum að leggja hömlur á eigin skip að veiða loðnu, og á s.l. ári vorum við farnir að takmarka þá veiði þannig, að afkastamestu skipum okkar er bannað að veiða í heilan mánuð, og yfir vofir svo að segja að menn grípi til enn meiri takmarkana í þessum efnum. Þegar svona var komið taldi ég að það ætti ekki heldur að semja við Færeyinga eins og ástatt er um þessi mál, um veiðiheimildir varðandi loðnu hér við land. Þetta kemur einnig saman við það, að mér hefur verið það ljóst, ég hef fylgst með því nokkuð vel, að Færeyingar hafa ekki tekið upp sömu afstöðu og við í fiskveiðimálum. Þeir fengu vitanlega rétt til 200 mílna fiskveiðilandhelgi heima hjá sér, en þeir hafa ekki viljað nota þá heimild nema að takmörkuðu leyti gagnvart þeim útlendingum sem á mið þeirra sækja. Um þetta hafa verið miklar deilur í Færeyjum og þar hafa verið uppi harðar kröfur um það, að Færeyingar stugguðu meira við útlendingum en þeir gera. Það er býsna athyglisvert, að einmitt um það leyti sem sá samningur var gerður, sem er nú verið að ræða um, komu tilkynningar um það í einu íslensku blaði, að Færeyingar sjálfir veiða á heimamiðum sínum á s.l. ári rétt 99 þús. tonn af fiski, en á sama tíma veiða útlendingar 203 þús. tonn á þeim miðum. Það er vitað, að hér er ekki aðeins um kolmunna að ræða, það er mesti misskilningur, það er lítill hluti af þessu kolmunni. Á þessi mið sækja breskir togarar í mjög ríkum mæli og vestur-þýskir togarar. Þeir, sem voru útilokaðir á Íslandsmiðum, hafa allan tímann sótt á þessi mið, og það hafa verið og eru enn miklar deilur í Færeyjum um það, hvort Færeyingar eigi að halda áfram þeirri stefnu að heimila þessum aðilum í jafnríkum mæli veiðar á þorski og ýsu og öðrum dýrmætum fiski á sínum miðum, en sækja svo í staðinn aukinn afla til Íslands. Ég hafði nokkrum sinnum sagt það við ýmsa af forsvarsmönnum Færeyinga, þegar þeir ræddu við mig um þessi mál: Lokið fyrst útlendingana úti frá ykkar miðum, eins og við höfum gert, og talið svo við okkur á eftir. — En þetta hafa þeir ekki þurft að gera, því að það hafa alltaf verið svo ágætir menn hér á landi að þeir hafa verið tilbúnir að veita þeim veiðiheimildir hér þó að þeir drægju ekki meira en raun er á úr veiðiheimildum útlendinga við Færeyjar.

Auðvitað veit ég að Færeyingar eiga ekki jafnlétt með það og við að útiloka útlendinga þar með öllu. Þeir höfðu byggt upp fiskveiðar sínar að mínum dómi á mjög ranglegan hátt, og ég hygg að dómi flestra þeirra sem mest tala nú um þessi mál í Færeyjum einnig. Þeir höfðu lagt mjög mikla áherslu á það lengi í sínum fiskveiðimálum að stunda veiðar á fjarlægum miðum og gátu ekki nýtt þann afla heima hjá sér nema að sáralitlu leyti. Sá afli fór að mestu leyti fram hjá Færeyjum. Í seinni tíð hafa þeir þó verið að byggja upp eigin fiskiðnað og eiga nú orðið yfir 30 frystihús og hafa fundið að þeir geta nýtt heimamið sín miklu meira en þeir hafa gert og geta gert það miklu betur en þeir gera í dag.

Það kom líka fram í upplýsingum um afla Færeyinga á s.l. ári, um það leyti sem þessi samningur var gerður, að þeir hafa tekið hér á Íslandsmiðum 56 700 tonn á s.l. ári. Hér er um verulegan afla að ræða. Hér er um aflamagn að ræða sem sannarlega munar um þegar um það er að ræða að það þarf orðið að banna ekki aðeins sjómönnum okkar og þeim, sem stunda útgerð, að stunda aðalatvinnu sína, heldur þarf einnig beinlínis að stöðva vinnu manna í landi sem hafa af þessu aðalatvinnu. Ég vil segja við þá ágætu menn, sem eru svo góðir við Færeyinga, miðað við þá stöðu sem við höfum í þessum efnum, að þeir vilja allt fyrir þá gera: Vilja þeir ágætu menn ekki taka svo sem eins og mánaðarkaup frá sjálfum sér — þó að það væri ekki tveggja mánaða kaup — og senda Færeyingum það í vináttuskyni? Vilja þeir ágætu menn ekki leggja eitthvað á sjálfa sig? Eða er það eingöngu þannig, að þeir séu tilbúnir að gefa Færeyingum fjármuni á kostnað annarra manna í landinu sem sagt er að skuli ekki vinna neitt á meðan?

Færeyingar hafa sem betur fer verið að auka fiskafla sinn allverulega á síðari árum, og þeir hafa einnig eins og við verið að læra að hægt er að nýta aflann miklu betur en áður var gert. Og það er skoðun mín, að þeir eigi eftir að fá út úr afla sínum, alveg eins og við, miklu meiri verðmæti en þeir þegar fá.

Þessar upplýsingar, sem ég hef minnst á, áttu að liggja fyrir þeim sem um þessi mál hafa fjallað. Þeir áttu að vita um þessar staðreyndir.

En þá skulum við koma að öðrum þætti þessa máls, en það eru yfirleitt þau viðhorf sem eru ríkjandi í sambandi við utanríkissamningagerð okkar Íslendinga. Mér þykir mjög bera á því, að þar reisi menn höfuðið ekki ýkjahátt. Þá þurfa menn alltaf að sýna svo mikla sanngirni, svo mikla vináttu og vinsemd: Þetta eru nágrannar, frændur og vinir. Það er út frá þessu sem nágrannar, frændur og vinir okkar Norðmenn hafa fengið að veiða hér með sérstökum heimildum nú um áraskeið. En hvað höfum við fengið að veiða á Noregsmiðum? Auðvitað ekkert. En þeir eru líka frændur okkar, vinir og nágrannar. Og nú eru jafnvel flutt fram þau rök, að vegna þess að það sé eðlilegt að við höfum ákveðna samvinnu við Færeyinga og ýmsar aðrar þjóðir og eigum ýmsa sameiginlega hagsmuni við þá, þá séu rök fyrir því að við gerum samninga af því tagi sem hér liggja fyrir. Ég vil benda mönnum á það, að ef ætti að vera einhver samkvæmni í svona málflutningi, þá ættum við ekki aðeins að heimila Færeyingum að veiða hér við land vegna þess að það eru til fisktegundir sem við eigum sameiginlega með þeim, við ættum að veita miklu fleiri þjóðum þennan rétt, af því að svona er ástatt um ýmsar aðrar fisktegundir.

Hér var minnst á kolmunnann. Það er alkunna að aðalhrygningarslóðir kolmunnans eru taldar vera að nokkru vestur af Írlandsströndum og að nokkru leyti vestur af Skotlandi. Og eins og sagt var áðan gengur sá fiskur síðan nokkuð norður á við eftir hrygningartímann og kemur við á hinum eiginlegu Færeyjamiðum á leiðinni hingað til Íslands. Við vitum líka um þann mikla og fræga fiskstofn okkar, norsk-íslenska síldarstofninn, að aðalhrygningarslóðir þeirrar síldar eru við Noregsstrendur og síðan gengur þessi síld allajafna norður í höf og kemur að Íslandi og heldur svo áfram út á hið gamla Rauðatorg eða á svæði sem er að talsverðu leyti innan færeyskrar landhelgi. Við vitum að svona er ástatt með miklu fleiri fiskstofna. Við vitum líka að t.d. sum okkar ágætustu karfamið liggja bæði innan íslenskrar landhelgi og grænlenskrar landhelgi þegar Grænlendingar hafa fullan kraft í sér til þess að taka sér 200 mílna landhelgi.

Hér er ekki aðeins um loðnuna að ræða, heldur miklu fleiri fiskstofna. En auðvitað þýðir þetta, að svona er ástatt, ekki að við eigum að semja um veiðiheimildir útlendinga, hvernig svo sem ástatt er hjá okkur og viðkomandi þjóðum þrátt fyrir þessa sameiginlegu eign okkar. Auðvitað kemur að því, að við semjum við Norðmenn, Færeyinga, Skota og Íra og eflaust margar fleiri þjóðir um ýmis mál sem eru gagnkvæmismál. Ef ætti að nota þær röksemdir sem hæstv. utanrrh. notaði fyrr í sambandi við þessa samningagerð, þá ættum við að semja við Efnahagsbandalagið, vegna þess að hagsmunir okkar koma saman við hagsmuni Grænlendinga, en Grænland telst til Efnahagsbandalagssvæðisins. Fyrir nokkrum árum vorum við þó menn til þess að segja nei við beiðni Efnahagsbandalagsins, þó að við vissum um þetta.

Auðvitað eru rök af þessu tagi engin frambærileg rök. Hér er auðvitað fyrst og fremst um það að ræða, hvort málin snúi þannig við nú í dag, að við höfum efni á að láta eitthvað af fiski úr okkar fiskveiðilandhelgi til Færeyinga og annarra og hvort það sé í eðli sínu sanngjarnt að láta aðrar þjóðir hafa af þessum fiskafla miðað við stöðu þeirra og miðað við það, hvernig þeir halda á sínum málum. Ég hef líka margsagt það sem mína skoðun, að jafnhliða því sem við ættum að segja upp öllum fiskveiðisamningum við útlendinga um veiðar hér við land, þ.e.a.s. við ættum að segja upp samningunum við Belga, sem eru enn í gildi, og við Norðmenn og einnig við Færeyinga, þá hef ég sagt að ég teldi það vera sjálfsagt, að þegar Færeyingar leituðu til okkar skoðuðum við beiðni þeirra í alveg sérstöku ljósi. Það er enginn vafi á því, að það er margt sem gerir það að verkum, að við viljum teygja okkur lengra í samningagerð í þessum efnum við Færeyinga en við aðra, en það þýðir engan veginn að við eigum að heimila þeim veiðar eins og gert er ráð fyrir í þessum samningi.

Menn hafa einnig reynt að afsaka þessa samningagerð á ýmsa vegu, eins og t.d. á þann hátt, að hér hafi í rauninni aðeins verið til umr. loðnuveiðisamningur. Samt var samið um það í þessum samningum að minnka þorskveiðar Færeyinga um 1000 tonn. Auðvitað vissu það allir og enginn betur en þeir sem að þessum samningum stóðu, að það var enginn vandi að taka upp þorskveiðisamninginn jafnhliða beiðni Færeyinga um loðnuveiðar. Það var enginn vandi. Og auðvitað átti að vera búið að segja þeim samningi upp með löglegum fyrirvara. Það hefðu allir þeir gert sem hefðu haft að mínum dómi eðlilegan skilning á þessu máli, og það er enn þá mín till., að þeir, sem með þessi mál hafa að gera, drífi sig í það að segja upp veiðiheimildarsamningum við Belga, Norðmenn og Færeyinga.

Inn í þessa umr. hefur ýmsu verið blandað. Hæstv. utanrrh. kom með þá hliðarröksemd, að Íslendingar hefðu veitt talsvert af loðnu á s.l. ári utan 200 mílna landhelgismarka okkar. Auðvitað hefði hann mátt athuga það, að alveg sérstaklega stóð á í sambandi við þessar veiðar einmitt á s.l. ári og kom í rauninni öllum á óvart og þá var veiðin á þessum slóðum ekkert svipuð því sem hún hafði verið áður. Okkar skip, eins og komið hefur fyrir, eltu þennan fisk langt norður í haf og fóru því út fyrir okkar 200 mílna mörk. En við vorum ekki í þeim efnum að fara inn á yfirlýst veiðisvæði neinna annarra. Við fórum þar út á opið og frjálst haf sem við eigum jafnmikinn rétt á og hver annar. Auðvitað hafa reglurnar um 200 mílna efnahagslögsögu aldrei skert rétt okkar til þess að veiða utan þeirra marka eftir því sem almennar reglur standa til.

Í þessum efnum var farið að minnast á það, að raunverulega væri það svo, að við hefðum veitt nokkuð af loðnu á s.l. ári á svæði sem Norðmenn gætu hugsanlega tekið undir efnahagslögsögu Jan Mayen. Ég verð að segja það, að ég tel yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda í þessa átt alveg forkastanlegar, vegna þess að það er afstaða mín og ég veit miklu fleiri, að það eru engin frambærileg rök fyrir því að Jan Mayen eigi að fá 200 mílna efnahagslögsögu. Ég veit mætavel að það eru ekki til nein alþjóðalög enn þá sem kveði skýrt á um þetta. En hitt vitum við, að allar þær röksemdir sem fluttar hafa verið fram fyrir því, að það væri réttmætt og sanngjarnt að ríki gæti tekið sér 200 mílna efnahagslögsögu, öll sú umr. var byggð á þeirri meginröksemd, að þar væri um þjóðríki að ræða, þar væri um formlegt þjóðfélag að ræða, sem þyrfti á efnahagslögsögu að halda, og að slíkt þjóðríki gæti líka með eðlilegustum hætti haftyfirstjórn á þeim verðmætum sem þar var um að ræða.

Ég veit mætavel að í þeim drögum, sem legið hafa fyrir varðandi efnahagslögsögumálið, hefur orðalagið verið bundið við það, að 200 mílna efnahagslögsaga ætti ekki að ná til óbyggðra eyja eða kletta. Það er auðvitað ljóst, að Jan Mayen getur ekki talist venjulegur klettur úr hafinu. Þar er um land að ræða. En þar er vitanlega ekki um neitt formlegt þjóðfélag að ræða, þó að þar dveljist veðurathugunarmenn tímabundið. Og það stríðir í rauninni á móti grundvallarröksemdum í þessu máli þegar Norðmenn, auðvitað af hagsmunaástæðum, reyna að teygja rök sín út í það — og eru ekki allir á eitt sáttir í málinu — að þeir eigi að fá efnahagslögsögu í kringum Jan Mayen.

Að mínum dómi á það að vera afstaða okkar Íslendinga, að Jan Mayen eigi í rauninni aldrei að fá nema 12 mílna landhelgi, en efnahagslögsaga í kringum Jan Mayen sé óeðlileg. Ég vil því segja það, að allar yfirlýsingar, sem koma frá íslenskum stjórnvöldum í þá átt, að Norðmenn geti tekið sér efnahagslögsögu við Jan Mayen, eru vægast sagt óheppilegar og ekki vel hugsaðar. Það kann vel að vera, að Norðmenn geti boðið okkur einhverja samninga í þeim efnum, hvort við getum fallist á að standa með þeim varðandi kröfuna um efnahagslögsögu við Jan Mayen gegn því að þeir séu þá ekki að skerða 200 mílna landhelgi okkar, þar sem 200 mílna landhelgi þessara svæða kemur saman, þeir séu ekki að gera þar kröfu til neinnar miðlínu, að við fáum að hafa sem sagt óskerta 200 mílna landhelgi í áttina til Jan Mayen. En ég mundi fyrir mitt leyti aldrei vilja taka undir neitt slíkt. Sannleikurinn er sá, að hafsvæðið þar norður af er auðvitað langsamlega tengdast okkur á allan hátt og við höfum langbesta aðstöðu allra til þess að nýta þau mið sem þar er um að ræða — langtum betri en Norðmenn. Við eigum því ekki að vera að gera neitt afbrigðilegt samkomulag við þá í þeim efnum.

Hitt getum við auðvitað ekki ráðið við, ef svo fer að skýlaus ákvæði í samþykktum alþjóðalögum gerðu það ljóst, að landssvæði eins og Jan Mayen ættu rétt á 200 mílna efnahagslögsögu, sem ég tel ekki vera. Ef svo yrði, þá yrðum við auðvitað að beygja okkur undir það eins og annað sem þannig verður ákveðið. En við vitum um mjög hliðstæð dæmi á ýmsum öðrum stöðum, og þá er einmitt uppi það sjónarmið sem ég hef verið að túlka, að svæði eins og Jan Mayen á ekki að eiga neina efnahagslögsögu fyrir þjóðfélag sem þar er ekki til.

Ég minntist á það í upphafi máls míns, að afstaða mín í þessum efnum byggist hreinlega á því, að ég tel að aðstæður okkar séu þannig nú, að við getum ekki veitt neinum útlendingum veiðiheimildir hér við land og eigum ekki að gera það. Það breytir vitanlega ekki því, að upp getur komið sú staða að við viljum taka upp gagnkvæmissamninga jafnt við Færeyinga sem aðra.

Afstaða mín er ekki á nokkurn hátt mótuð af neinni óvild til Færeyinga, síður en svo. Ég vil fyrir mitt leyti láta þá njóta fyllsta réttar sem við látum útlendinga njóta í fiskveiðilandhelgi okkar. Og mér er það ljóst, að eðlilegt er að við höfum gott samstarf við Færeyinga í fiskveiðimálum almennt séð. En réttlætir ekki það að mínum dómi, að við eigum að veita þessar heimildir, miðað við núverandi aðstæður.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að þeim vinnubrögðum sem ég var einnig að mótmæla þegar ég greindi frá afstöðu minni til þessa máls. Ég vil að það komi hér skýrt fram, að þessi samningagerð var aldrei lögð fyrir minn flokk, Alþb. — aldrei, og það er alrangt sem sagt var, að Alþb. og jafnvel öðrum flokkum hafi ekki unnist tími til að taka málið fyrir. Slíkt er hreint slúður. Það var aldrei farið fram á það við okkur sem flokk að taka afstöðu til málsins og við áttum þess engan kost. Okkur var ekki gefinn neinn kostur á því að eiga fulltrúa við samningagerðina, og málið var aldrei borið undir okkur.

Þær upplýsingar, sem ég hef fengið frá fulltrúum okkar bæði í ríkisstj. og í utanrmn., eru þær, að talsvert áður en Færeyingar komu hingað til þessara viðræðna var málið lauslega rætt í ríkisstj. Var þá fyrst og fremst um það að ræða að taka upp viðræður við Færeyinga, og var sjálfsagt að ræða við þá um málið. En þessi samningagerð var aldrei lögð fyrir ríkisstj. og aldrei borin þar upp til samþykktar. Það sama er að segja um utanrmn. Utanrmn. er engin sérstök stofnun til þess að ganga frá máli eins og þessu. Það er sjálfsagt að hafa samráð við hana, en vitanlega er hún í þessum efnum eins og hver önnur undirnefnd Alþingis.

Ef svona væri haldið á málum allajafna, þá gæti maður alveg eins átt von á því, að einhvern daginn endurtækju þeir kröfur sínar, þeir Efnahagsbandalagsmenn, og óskuðu eftir viðræðum um veiðiheimildir í íslenskri fiskveiðilandhelgi, eins og þeir hafa gert áður, og næst heyrðum við, sem erum stuðningsaðilar að ríkisstj., frá því skýrt í útvarpinu að búið væri að semja við þá. Það væru vinnubrögð nákvæmlega af sama tagi og hér er um að ræða. Þessu hlýt ég auðvitað að mótmæla fyrir hönd flokks míns. Þetta eru ekki frambærileg vinnubrögð. Auðvitað var það hið eðlilega, að sú n., sem tók upp þessar viðræður við Færeyinga, kæmi með drög að samningi fyrir ríkisstjórnarfund og þar yrði tekin afstaða til samningsins, og þá vænti ég þess, að þá hefðu samningsdrögin líka legið fyrir þeim flokkum sem að ríkisstj. standa svo að þeir hefðu getað sagt sitt álit.

Varðandi vinnubrögðin breytir það í rauninni engu máli hver afstaðan verður. Ég veit mætavel að það eru ekki allir í mínum flokki á sömu skoðun og ég varðandi þessa samningagerð. Slíkt hefur líka legið fyrir á undanförnum árum. Það hefur ekki farið fram hjá neinum, hver hefur verið afstaða mín í sambandi við hliðstæða samninga áður, og það hefur ekki heldur farið fram hjá neinum, hver hefur t.d. verið afstaða hv. þm. Gils Guðmundssonar. Hann hefur ekki dregið neitt undan í þeim efnum, hver væri afstaða hans til slíkra samninga. En það breytir vitanlega engu um það, hvernig á að vinna að svona málum.

Ég hlýt að lýsa undrun minni yfir því, hvernig þarna var að málum staðið, og mótmæla því. Og ég vil satt að segja gjarnan fá það fram í þessum umr. á hverju hv. þm. Einar Ágústsson t.d. byggir það, þegar hann segir í blaðaviðtali á eftir og hæstv. utanrrh. Benedikt Gröndal, að þeir telji sig hafa haft fullt umboð til þess að gera þennan samning. Hver veitti umboðið? Ég vil gjarnan að það komi fram. Hver veitti umboðið til þess að gera samninginn án þess að hann væri borinn undir rétta aðila?

Ég þarf í rauninni ekki að ræða þetta mál frekar. Ég hef gert grein fyrir því, hver er afstaða mín til þessa máls og hvaða ástæður liggja til þeirrar afstöðu. Ég mun haga atkv. mínu varðandi þessa samningsgerð í fullu samræmi við það. En á hitt vil ég einnig minna menn, að þeir ættu að fara að hugsa sig um, sumir hverjir, sem virðast alltaf vera tilbúnir að samþykkja hverja þá stöðvun sem um er að ræða gagnvart okkur Íslendingum sjálfum til þess að loka flotann inni og til þess að neita mönnum um það jafnvel að geta fengið að kaupa fiskiskip til að stunda þær veiðar sem þó er heimilt að stunda. Þeir ættu að hugsa sig betur um þá afstöðu sína gagnvart Íslendingum sjálfum áður en þeir bæta við heimildum til útlendinga til þess að veiða hér af okkar takmarkaða fiskstofni.

Aðalforsvarsmenn útgerðarinnar í landinu hafa látið til sín heyra í þessu máli, og það er í rauninni sama úr hvað landsfjórðungi það er, þeir hafa mótmælt þessu. Það er vegna þess að viðkomandi menn finna það mætavel, hvernig þessi mál standa. Það er ekkert þægilegt að standa þannig að málum að banna Íslendingum að veiða, en heimila útlendingum á sama tíma veiðarnar, eins og verið hefur. Og það er rétt að menn fari að átta sig á því, að það getur farið að heyrast meira í mönnum en hefur gert til þessa, ef slíkri stefnu verður hér fram haldið.