01.02.1979
Sameinað þing: 46. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2258 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þessi till. til þál. um staðfestingu á niðurstöðu viðræðna um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga, sem hér liggur fyrir til umr., hefur orðið til þess, að áður en stjórnarandstaðan kæmist að hafa hæstv. utanrrh. og leiðtogi eins stjórnarflokksins, Alþb., ekki orðið á eitt sáttir frekar en fyrri daginn um meðferð mála. Annar ráðh. hefur einnig komið fram í þessum umr. til þess að gagnrýna vinnubrögð utanrrh. Ég furða mig á að slík gagnrýni skuli eiga sér stað innan ríkisstj. Ég hélt að ríkisstj. ræddi mál eins og þessi innan sinna vébanda og ráðh., sem fjölluðu um samningsmál sem þessi, hefðu heimild ríkisstj. Ég bjóst einnig við að þeir hefðu jafnframt heimild þeirra flokka sem að ríkisstj. standa.

Ég vil í þessu sambandi minna á að fyrir ári komu fulltrúar Færeyinga hingað til Íslands í þeim tilgangi að leita samninga við okkur Íslendinga um að fá leyfi til loðnuveiða, og það voru sömu menn og nú komu til viðræðna, eða lögmaðurinn Atli P. Dam og þáv. sjútvrh. Færeyinga, Pétur Reinert og Danielsen menntmrh. Færeyinga, eða menn frá öllum flokkum sem stóðu að ríkisstj. í Færeyjum. Ég taldi sjálfsagt, vegna þess að þáv. hæstv. utanrrh. var erlendis og var væntanlegur heim seint að kvöldi þess dags sem fulltrúar Færeyinga komu, að gefa fulltrúum allra stjórnmálaflokka, sem þá áttu sæti á þingi, tækifæri til þess að ræða við Færeyinga og kynnast skoðunum þeirra og láta í ljós skoðanir sínar í sambandi við það sem hér var verið að fara fram á. Ég undanskildi ekki fulltrúa eins einasta flokks í því tilfelli. Hins vegar er mér ljóst, að það er ekki venja, þó að það sé kannske að mörgu leyti æskilegt, að fulltrúar stjórnarandstöðu taki þátt í slíkum viðræðum. En mér fannst rétt þá að formaður þingflokks Alþfl., fulltrúi frá Alþb. — utanrmn.-maður — og fulltrúi þriðja þáv. stjórnarandstöðuflokksins fengju tækifæri til þess að ræða við þessa menn ásamt íslenskum sérfræðingum og embættismönnum, bæði í utanrrn. og sjútvrn., og þess vegna gerði ég þeim kleift að hittast áður en til viðræðna var gengið. Þetta tel ég að hefði átt að gera einnig í þessu tilfelli.

Í sambandi við fullyrðingu hæstv. utanrrh. um að fulltrúum flokkanna í utanrmn. hafi verið falið að tilkynna sínum flokkum um þessi mál vil ég spyrja: Hvað höfðu fulltrúar flokkanna í utanrmn., a.m.k. fulltrúar Sjálfstfl. og fulltrúar Alþb. líka, að tilkynna flokkum sínum um þessar viðræður? Það væri von á mönnum frá Færeyjum, ekkert meira. Eina, sem við höfðum að leiðarljósi, voru neikvæð viðbrögð hæstv. sjútvrh. á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna um samninga við Færeyinga, boðun þess að segja upp fiskveiðisamningum og neikvæð viðbrögð hæstv. utanrrh. Ég hugsaði sem svo: Af hverju eru mennirnir að boða þessa fulltrúa færeysku landsstjórnarinnar til Íslands, ef það á ekki að segja við þá annað en: Farið aftur heim, þið fáið ekkert, skrattarnir ykkar. Þið getið lifað á ykkar eigin fiskimiðum, eins og hv. 1. þm. Austurl. sagði áðan, sem ég á eftir að koma að síðar. — Þannig var í pottinn búið, þannig var farið að í sambandi við þetta mál. Ég harma að slík vinnubrögð skuli viðhöfð í þessum efnum. Hér er um viðkvæm og erfið mál að ræða og þarf sannarlega við fyllstu víðsýni, eiga viðræður við fulltrúa allra flokka, því að fiskurinn er ekki eign Alþfl. eins eða þeirra sem kusu Alþfl., hvorki botnlægur fiskur, loðna né annar fiskur. Hann er eign íslensku þjóðarinnar allrar — fólks sem hefur kosið alla flokka í landinu. Viðskipti og samskipti við aðrar þjóðir og þá ekki síst við nágrannaþjóð eins og Færeyinga er líka sameiginlegt hagsmunamál Íslendinga allra.

Ég vil koma að því strax, enda þarf enginn að búast við öðru frá minni hendi, að ég mun greiða atkv. með þeim samningi sem fyrir liggur, því að ég vil ekki vera eitt í dag og annað á morgun. Ég hef verið þeirrar skoðunar, að við eigum að sýna Færeyingum fyllsta skilning. Það eru alltaf til menn, og sérstaklega þeir sem eru ríkir og hafa úr nógu að spila, sem svara því til: Við eigum ekkert aflögu, þess vegna getum við ekkert látið. — Og það kemur úr hörðustu átt þegar fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar, sem svo kalla sig, fulltrúar smælingjanna, fulltrúar þeirrar sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, taka undir svona gömul orð, bæði gamalla og nýrra svíðinga, sem alltaf segja: Við eigum ekkert aflögu. (Gripið fram í: Við hvern á þm.?) Þm. á við þá sem taka alltaf undir orð þeirra sem eru nískir og vilja aldrei láta neitt af hendi, skilja ekki þarfir annarra, skilja ekki þarfir samfélagsins, — og þá er ekki endilega farið innan eins ákveðins þjóðfélagshóps, heldur má einnig líta til næsta bæjar.

Hv. 1. þm. Austurl. talaði mjög á móti öllum veiðiheimildum fyrir Færeyinga og vildi segja upp þeim samningi, sem verið hefur í gildi, og það strax. Það er í samræmi við það sem hefur verið látið liggja að hjá sumum Alþfl.-mönnum. En hv. 1. þm. Austurl., sem er mjög minnisgóður maður, ætti að muna útfærslu fiskveiðilögsögunnar 1. sept. 1972, en það ár veiddu Færeyingar 16 200 tonn. Það ár kom út aðvörunarskýrsla fiskifræðinganna um að draga úr veiðunum. Það ár kom út aðvörun allra helstu sérfræðinga á sviði efnahagsmála og þeirra ótal spekinga sem þessi fámenna þjóð á, sem kröfðust þess þá jafnhliða að dregið yrði úr skipakaupum og skipabyggingum því að fiskurinn væri búinn í sjónum. En þáv. sjútvrh. og þáv. ríkisstj. hélt áfram að byggja upp fiskveiðiskipaflotann. Ég hef aldrei áfellst hv. 1. þm. Austurl. fyrir þá stefnu hans — aldrei — og mun ekki gera. En þá var ástæða til að draga úr veiðum útlendinga og það verulega, og þá áttum við að draga að einhverju leyti úr veiðum Færeyinga, frænda okkar, eins og annarra. Það, sem skeður, er að þegar á að draga úr veiðunum eftir útfærsluna 1. sept. 1972, þá aukast veiðar Færeyinga á árinu 1973 upp í 21 500 tonn. Var þetta aðeins aukning að magni til, kunnið þið að spyrja, eða náði þáv. hæstv. sjútvrh. frjálsu samkomulagi við þessa nágranna okkar um að draga úr þorskveiðunum? Nei, ekki aldeilis, það gerði hann ekki, því að þorskveiðar þeirra einar jukust úr 11 þús. tonnum í 14 200 tonn eftir að við færðum út í 50 mílur.

Ég ætla ekki að vera að fara inn á bresku samningana og allt það sem menn átu ofan í sig á þeim árum ofan á þetta.

En hvað tók svo við? Það fyrsta, sem fyrrv. ríkisstj. varð að gera, var auðvitað að halda áfram baráttunni fyrir því að losna við erlendar þjóðir úr íslenskri fiskveiðilögsögu. Það tókst með góðum árangri. Gagnrýnin var hörð. Hún var óvægin oft og tíðum hjá þáv. stjórnarandstöðu — og þá ekki síður hjá Alþfl. sem nú hefur skipt dálítið um skoðun, svo sem ég skal koma einnig að síðar.

Þegar við tókum við og losuðum okkur við Breta og Þjóðverja og fiskveiðar annarra þjóða fóru minnkandi, var ásælni fjölmargra þjóða í samninga um fiskveiðar við Ísland og ásælni Efnahagsbandalagsins og fundum Efnahagsbandalagsins tekið á annan hátt en þáv. stjórnarandstaða vildi. Þáv. stjórnarandstaða sagði: Það á ekki að tala við þessa menn um neitt. Við höfum ekki af neinu að taka. Og hér verður ekki um neina fiskveiðisamninga að ræða. En við, sem þá vorum í stjórn, töldum að það bæri að tala við fulltrúa Efnahagsbandalagsins eins og aðra fulltrúa, og við lýstum fyrir þeim á þremur fundum, tveimur með stuttu millibili, afdráttarlaust, að það væri ekki um neinar fiskveiðiheimildir að ræða, en hins vegar værum við reiðubúnir að ræða við þá um fiskverndarsamning. Það höfum við gert við fleiri þjóðir og m.a. gert samninga við tvær þjóðir í þeim efnum, bæði Rússa og Pólverja, um vísindalega verndun.

Við áttum svo fyrsta samningsfundinn við Færeyinga. Sá fundur var Færeyingum ekki sársaukalaus. Þeir töldu sig taka fullt tillit til óska okkar í þessum efnum öllum og fóru ákveðið fram á heimild til að veiða 25 þús. tonn af botnfiski á ári. Að lokum var þá samið um 20 þús. tonn eftir mikið þóf og erfiðleika og síðan var samningurinn endurnýjaður og samið um 17 þús. tonn, þar af voru 9 þús. tonn annar fiskur en þorskur og 8 þús. tonn af þorski.

Þegar enn harðnaði á dalnum, þegar farið var að takmarka veiðar Íslendinga sjálfra, þá tilkynntum við Færeyingum og þeim þjóðum tveimur öðrum, sem hafa hér takmörkuð fiskveiðiréttindi, að þær yrðu að hætta veiðum á meðan íslenskum skipum væri bannað að veiða. En áður en þetta gerðist óskaði ég eftir því við sjútvrh. Færeyinga, að hann kæmi til viðræðna við okkur. Það varð að munnlegu samkomulagi, sem skýrt var frá í blöðum, en enginn milliríkjasamningur gerður um það, að Færeyingar drægju úr þorskveiðiafla sínum um 1000 tonn fram yfir það sem sagði í samningnum. Nú hefur það svo aftur gerst í þessum síðustu samningaumleitunum, að enn draga Færeyingar um 1000 tonn úr þorskveiðiafla sínum, en hámarksveiðikvótinn af botnlægum fiskum er alveg óbreyttur. Ég er alveg sammála um þetta atriði og taldi óg tel nauðsynlegt að með þessum hætti eigum við að draga úr þessum veiðum Færeyinga eins og við mögulega getum.

En þá komum við að hinu atriðinu, sem er loðnan. Færeyingar hafa haft leyfi til þess að veiða hér loðnu á s.l. tveimur árum, fyrra árið að mig minnir 25 þús. tonn og á s.l. ári 35 þús. tonn. Hér var um að ræða þær veiðar sem við höfum engar hömlur sett á. Það eru ekki nema tvö ár síðan íslenskir fiskifræðingar sögðu að loðnustofninn þyldi að veidd væri af honum 1–1.5 millj. lesta á ári. En á s.l. sumri tapar veiðiflotinn loðnunni í nokkra daga, ég man ekki hvað þeir voru margir, og þá féll barómetið alveg niður í botn hjá fiskifræðingunum, sem sögðu að nú væri orðið alvarlegt ástandið með loðnustofninn, nú þyrfti verulega að draga úr veiðinni því að gengið væri hættulega nærri stofninum. Þó hafði ekki verið veitt nálægt lægri mörkum þess sem þeir töldu að væri sjálfsagt að veiða. Svo fann loðnuflotinn aftur loðnuna og mokaði henni upp og þrærnar fylltust og þá lyftist barómetið aftur, fiskifræðingabarómetið, og fór alveg á „blíðviðri“ með sama, og nú var óhætt að bæta aftur við loðnuveiðina. Hvað gerist svo? Það hefjast veiðar á loðnu austur í hafinu, austan við fiskveiðilögsögu Íslands. Þá segja fiskifræðingar: Þetta er sami stofninn og okkar loðna, alíslensk. — Ég ætla ekki að draga það í efa, mér dettur ekki í hug að gera það, ég hef enga þekkingu til þess, hvorki að segja að það sé rétt né rangt. Það er farið að veiða hana af öðrum þjóðum og við vitum ekkert nema þeirri veiði verði haldið áfram. — Það er alveg óhætt að drepa 1 millj. tonna ef hún er drepin innan 200 mílna, en það skiptir engu máli hvað er drepið af sama stofni ef það er gert utan við 200 mílur. Eftir þessu fara íslensk stjórnvöld og trúa þessu eins og kristinn maður trúir biblíunni. Þeir mega það fyrir mér, sem það vilja. Mér dettur ekki í hug að trúa þessu.

Svo er sett bann á loðnuveiðiflotann í vetur. Það er sett eftir dagatali, en ekki eftir veðráttunni. Það hefur aldrei verið betra tíðarfar út af Vestfjörðum en í desember í vetur, ekki nokkur ísingarhætta. En það var um að gera að setja bann, ekkert farið eftir veðráttu. Og skipstjórarnir á loðnuflotanum voru allsendis ófærir um að álykta, hvort nú væri fært að stunda veiðar á þessu svæði, eða þá að ráða því, hvað þeir létu hver í sitt skip. Það varð að gera á einhverju skrifborðinu. Það er líkt og um útlánaþörf Seðlabankans. Hún fer ekkert eftir því, hvað fiskast og hvað er unnið í landi. Það er ákveðið á skrifborði bankastjóranna. Eins var með þetta. Hver ætlar svo að telja nokkrum heilvita manni trú um að það skipti nokkru máli þó að Færeyingum sé veitt leyfi til þess að fiska hér loðnu, þó það hefðu verið 35 þús. lestir eins og ég hef leyft mér að segja, en ekki 17 500, sem þeir Alþfl.-menn telja að sé hámark sem loðnustofninn þoll og afkoma íslenska loðnuflotans? Það skiptir miklu meira máli hvernig samstarfið verður við þá sem ráða miðunum fyrir austan fiskveiðilögsögu okkar, hvernig samstarf og samvinna verður um þessar veiðar. Ég tel að þessar tölur, sem nefndar hafa verið, hafi verið sveiflukenndar og draumórakenndar. Ég sé ekki vísindamennskuna á bak við þær. Það getur vel verið að ég sé svo vitlaus að ég sjái það ekki, en allir aðrir sjái þetta betur. Þá fara þeir auðvitað eftir því. Ég hefði ekki hikað við að sýna Færeyingum þá vinsemd að leyfa þeim að veiða hér allt að 35 þús. tonnum af loðnu. En ég er þakklátur samningamönnum fyrir að hafa tekið sig til um að lækka þorskveiðikvótann og lækka hann eins og við höfum gert að undanförnu, með þeim hætti sem ég áðan lýsti.

Við megum ekki líta á stundarhagsmuni kannske segir útgerðarmaður loðnuskipa eða skipstjóri loðnuskips, en þeir hafa haft ágætar tekjur að undanförnu, sem betur fer, og þeir eiga það skilið, bæði útgerðarmenn og skipstjórar, — kannske segir einn: Við skulum vera á móti öllu til Færeyinga. — Þá segja hinir: Já, húrra, við skulum vera það. — Það þýðir ekki að stjórnvöld eigi endilega að segja: Við gerum allt eins og nokkrir menn segja sem komu saman í fundarsal á Hótel Loftleiðum. — Það eru ekki þrýstihóparnir, sem eiga alltaf að ráða og segja fyrir öllu í þessu þjóðfélagi. Þeir hafa fengið að gera of mikið af því, en ekki of lítið. Þá munar ekki nokkurn skapaðan hlut um það sem Færeyingar hafa fengið. En það munaði miklu meira um það, þegar þeir sigldu öllum flotanum inn til Akureyrar og hættu veiðum. Það kostaði þá miklu meira. Þá talaði enginn um að senda mánaðarlaunin sín til þeirra, ekki einu sinni hv. 1. þm. Austurl. Ég held að hann hafi ekki einu sinni sent vikukaupið sitt.

Hv. 1. þm. Austurl. kom inn á samninga við Norðmenn og fiskveiðilögsöguna út frá Jan Mayen. Þegar reglugerðin um útfærslu í 200 mílur var gefin út 15. júlí 1975 afsöluðu Íslendingar sér engum rétti til 200 mílna útfærslu í áttina að Jan Mayen. Sá réttur er enn í dag okkar, en ekki Norðmanna. Hins vegar með þeirri útfærslu og þeirri skýringu sem þáv. ríkisstj. gaf töldum við ekki rétt að fara að efna til deilna við Norðmenn eins og málin stóðu á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna þá. En við tókum það fram þann dag bæði við Norðmenn sjálfa og marga aðra, að hér væri um mál að ræða þar sem við hefðum ekki afsalað okkur neinum rétti. Þessi réttur er því alveg óskoraður okkar. Og það er alveg rétt, að við getum ekki litið á Jan Mayen sem óbyggðan klett. En það er litið þannig á málið af Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, að til þeirra ríkja einna, sem hafa fiskveiðar fyrir atvinnu að einhverju leyti, eigi að taka tillit. Í þessu tilfelli þarf ekki að taka tillit til Jan Mayen, vegna þess að þar er ekki um neinar fiskveiðar að ræða. Hins vegar tel ég brýna nauðsyn bera til þess, að ríkisstj. og hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh. gangi til samningaviðræðna við Norðmenn um nýtingu loðnumiðanna austur í hafi án þess að afsala sér þessum rétti.

Í samningsdrögum að hafréttarsáttmála, eins og hann liggur nú fyrir á Hafréttarráðstefnunni, eru mikilvægustu ákvæðin í þessum drögum fyrir Ísland ákvæðin um efnahagslögsögu strandríkja. Samkv. þeim ákvæðum hefur strandríkið fullan rétt til að hagnýta lifandi auðæfi á 200 sjómílna belti undan ströndum sínum. Strandríkið hefur og samkv. þeim vald til að ákveða hámarksafla og eigin veiðigetu, en gert er ráð fyrir, að öðrum ríkjum sé veittur aðgangur að þeim afla sem þar er umfram. Drögin gera því ráð fyrir reglum sem eru í fullu samræmi við hagsmuni Íslendinga og stefnu þeirra í þessum málum. Á meðan mál standa á þann hátt sem nú er, á meðan hafréttarsáttmáli hefur ekki verið samþykktur eða fullkomlega frá honum gengið, á meðan þessi ákvæði eru í drögunum sem tókst fyrir harða baráttu þeirra ágætu manna, sem sótt hafa hafréttarráðstefnurnar, að ná fram og í raun og veru hafa þessi drög, löngu áður verið sett inn, þá held ég — og ég geri meira en halda, ég veit að það lítur illa út í augum fjölmargra ríkja þegar Ísland segir upp þeim þremur smáu fiskveiðisamningum sem enn þá eru eftir. Ef hagsmunir þjóðarinnar stæðu og féllu með því, að þessum samningum væri sagt upp, þá yrðum við auðvitað að taka þessa miklu áhættu. En hver er þessi áhætta í dag? Samningurinn við Færeyinga er um þetta sem þegar hefur verið lýst og ég ætla ekki að orðlengja frekar, 17 500 lestir af loðnu og 17 000 lestir af botnlægum fiski og þar af 6000 lestir af þorski. Samningurinn við Belga um fiskveiðar er samningur sem er í reynd að renna út. Það er að verða sáralítið um veiðar Belga. Samkv. síðasta samningi við Belga, sem gerður var og staðfestur á Alþingi 18. maí 1976, mega alls 12 belgískir togarar veiða á 6 tilteknum svæðum innan 200 mílna fiskveiðilögsögu, og það er um ákveðinn hámarksafla að ræða. Þeir verða að hlíta öllum sömu reglum og íslensk skip verða að hlíta. Ef við lítum nú á þennan geigvænlega belgíska togaraflota, sem talinn er upp í þessum samningi, þá eru það 5 togarar undir 200 tonnum og 4 á milli 200 og 300 tonn. Það þykja nú ekki stór togveiðiskip hjá okkur Íslendingum. Og svo er einn á milli 300 og 400 tonn, einn á milli 400 og 500 og einn á milli 500 og 600. 4 af þessum togurum eru hættir veiðum og komu hingað ekki allt árið 1978. Þá eru 8 eftir. Það eru færri en 3 togarar hér samfellt að veiðum. Þetta var eina röddin í Efnahagsbandalaginu í erfiðum samningum þar sem hélt uppi vörn fyrir okkur þegar Vestur-Þjóðverjar beittu þar neitunarvaldi gegn því að tollasamningurinn kæmi til framkvæmda. Og Belgar hafa sagt það, og ég hef ekki heyrt að þeir hafi skipt um skoðun, að þeir fari ekki fram á neina nýja fiskveiðisamninga við Íslendinga og ekki fram á að skipta um skip, heldur væru þetta skip sem væru að ganga sér til húðar, — meðalaldur skipanna í þessum samningi er 23 eða 24 ár og elsta skipið er komið eitthvað á fimmtugsaldur. Og hvað veiða svo Belgar hér við land og hvað veiddu þeir? 1962 veiddu þeir 23.2 þús. tonn. 1977 veiddu þeir 5960 tonn, þar af var þorskaflinn 1408 tonn, uppistaðan í öðrum afla er karfi-fiskurinn sem við vannýtum í dag. Það væri góð auglýsing á hafréttarráðstefnu að segja: Við rákum út þjóð sem fiskaði aðallega karfa. — Það væri ekki til þess að styrkja stöðu okkar í þeim drögum sem okkar menn hafa barist fyrir og fengið inn í frv. að hafréttarsáttmála. Mér er ekkert kappsmál að leyfa Belgum eða Norðmönnum að veiða hér. Mér er kappsmál, að íslenska þjóðin og stjórnvöld láti heilbrigða skynsemi ráða, en ekki að segja: Alla útlendinga burt úr íslenskri fiskveiðilögsögu. Aðalatriðið var að fá þá burt, sem hér fiskuðu og gerðu okkur stóran skaða, og þann sigur höfum við unnið. — [Frh.]