01.02.1979
Sameinað þing: 46. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2276 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

Umræður utan dagskrár

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það skal vera stutt aths. nú, það gefst væntanlega tækifæri til þess síðar að ræða þessi mál ítarlegar.

Hæstv. iðnrh. sagðist hafa frétt, að ég mundi hreyfa þessu máli, þegar hann var að ganga hingað niður í Alþingi. Þetta finnst mér undarlegt þar sem ég tilkynnti ráðuneytisstjóra iðnrn. í morgun milli kl. 10 og 11 að þessu máli yrði hreyft hér.

Rétt er að geta þess, að fyrir 2–3 dögum óskaði ég eftir því við hæstv. ráðh. að fá nokkrar upplýsingar frá rn., m.a. hverjar till. hann sjálfur hefði lagt fram á ríkisstjórnarfundi 25. jan., því að í fréttatilkynningu frá honum segir: „Ríkisstj. samþykkti á fundi sínum í dag tillögur iðnrh. í sambandi við meðferð málsins.“ Hæstv. ráðh. neitaði að láta mér í té þessar tillögur sínar. Ég vil endurtaka þá ósk og sé ekki hvaða ástæða getur verið til að leyna því, hvaða tillögur hann gerði til hæstv. ríkisstj.

En það er annað: Í tilefni af þessum fsp. mínum eða óskum um gögn málsins, ákvað hæstv. ráðh. að senda formönnum þingflokka upplýsingar um málið, sem ég býst við að þeir hafi fengið. En það vekur athygli, að þar stingur hann undir stól mikilvægasta gagni þessa máls. Það er skýrsla stjórnar Járnblendifélagsins frá 19. jan., 17 bls., þar sem sterkar röksemdir eru færðar gegn aðaláhugamáli hæstv. ráðh. að fá frestað öðrum ofninum. Hvaða ástæðu hefur hæstv. ráðh. til þess að stinga þessu undir stól og leyfa ekki hv. þm. eða formönnum þingflokka að fá þetta skjal? Fyrst hæstv. iðnrh. er á annað borð að birta fréttatilkynningu og fleiri gögn, eins og álitsgerð lögfræðings síns í málinu, finnst mér þetta harla undarleg vinnubrögð. Ég hef hins vegar þessa ítarlegu skýrslu undir höndum og rakti nokkuð úr henni í minni ræðu áðan.

Ég vil taka það fram, að það er alveg ljóst og óumdeilanlegt, að 23. gr. rafmagnssamningsins eða breyting á honum skiptir engu máli í þessu sambandi. Auðvitað var öllum ljóst frá upphafi vega, að uppsetning ofnanna og tímaáætlanir um verksmiðjuna voru eitt af grundvallaratriðum samninganna sem annar aðilinn gat ekki breytt, heldur yrði að vera samkomulag beggja. Þetta er vegna ákvæðanna í aðalsamningnum og er grundvallaratriði í þessum samningi sem auðvitað var ekki hægt að rifta með einhliða ákvörðun. Þessi breyting á 23. gr. skiptir engu máli og er furðulegt að ráðh. skuli leyfa sér að vera með slíkan fyrirslátt eins og að gera þetta að einhverju aðalmáli.

En það er annað sem full ástæða er til að spyrja hæstv. ráðh. um. Hann ræðir hér tiltölulega lítið um það efni málsins, hvort væri hagkvæmt eða óhagkvæmt að fresta gagnsetningu annars ofns. Hann bæði ræðir lítið um það, fer ekki út í þau atriði sem ég nefndi og vill ekki senda frá sér til þm. skýrslu stjórnar Járnblendifélagsins, heldur aðeins bréf þar sem niðurstaða er reifuð.

Ég vil taka það fram, að Elkem-Spigerverket hefur alls ekki borið fyrir sig 23. gr. rafmagnssamningsins, ekki nefnt hana á nafn. Það sýnir m.a. hvað það er út í hött sem hæstv. ráðh. er að fara. En þegar hæstv. ráðh. bæði í fréttatilkynningu og þeim skrifum Þjóðviljans, sem hann stendur að, og í ræðu sinni nú gerir þetta synjunarvald Elkem-Spigerverket að aðalefni máls, þá vil ég spyrja: Ef ekki lægi fyrir að þyrfti samþykki hins aðilans til þess að fresta ofninum, bera þessi ummæli og málflutningur ráðh. þá vitni um að þá mundi hann fyrirskipa íslensku fulltrúunum í stjórn Járnblendifélagsins að fresta ofninum í svo sem 10 mánuði? Er hið pólitíska ofstæki í þessu máli í raun og veru svo gegndarlaust að hæstv. ráðh. mundi þá, þrátt fyrir það gífurlega tjón sem fyrirtækinu og þjóðinni væri bakað með slíkri frestun, engu að síður gera það? Orð hans og tilkynningar gefa það í skyn, þar sem hann æ ofan í æ ber eingöngu fyrir sig neitunarvald hins aðilans.