01.02.1979
Sameinað þing: 46. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2282 í B-deild Alþingistíðinda. (1844)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég lýsi undrun, furðu og hneykslun á þeim fundarsköpum sem hafa verið höfð í dag. Hér eru til umr. samningar við aðra þjóð um fiskveiðar og allra annarra flokkamenn fá að tala, en þegar kemur að síðasta flokknum, þ.e.a.s. Framsfl., þá er málið tekið út af dagskrá og annað mál tekið fyrir sem engin ástæða var til að ræða í dag, ekki mér vitanlega. Má vera að það hafi legið einhver refsing við gagnvart 11. þm. Reykv., þannig að hann þyrfti að bera af sér sakir áður, en mér er ekki kunnugt um það. Ég tel að með þessu sé mér sýnd lítilsvirðing, sem ég sætti mig ekki við, og ég ætla ekki að ræða þetta mál yfir auðum stólum. Læt ég svo útrætt um það, en óska þess við forseta, að þessum fundi verði frestað þannig að ég fái að flytja ræðu mína og bera af mér ýmsar sakir á eðlilegum þingtíma, en ekki á þeim tíma þegar aðrir menn fara heim og fá sér að borða.