05.02.1979
Efri deild: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2295 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég skal leitast við að verða við tilmælum um að stytta mál mitt. Hins vegar hygg ég að tíma þessarar hv, d. í dag geti ekki verið betur varið en að ræða um mikilvægustu málefni þjóðarinnar, landhelgismál, þó að allur fundartími einn dag færi til þess. En ég skal reyna að stuðla að því að svo verði ekki.

Mér er skylt að þakka hæstv. utanrrh. svör hans. Kannske voru þau ekki beinskeytt að því er beinlínis hverja fsp. um sig varðar, en hins vegar voru það svör. Það, sem ég þó vil sérstaklega þakka honum, eru þær málefnalegu umr., eins og vænta mátti að hann vildi að hér færu fram, en ekki skætingur eða orðhengilsháttur.

Tilefni mitt, sem ég gat í upphafi ræðu minnar, voru ummæli hans úti í Noregi, sem mér fundust ill tíðindi eins og þau voru fram sett. Ég fagna þess vegna mjög að hann lýsti því eindregið yfir úr þessum ræðustól, og væntanlega alls staðar þar sem hann fær tækifæri til, að það hefði alls engin viðurkenning, eins og hann orðaði það, verið fólgin í þessum ummælum og slíkt hafi aldrei verið ætlun hans. Hins vegar gat hann þess, eins og hæstv. ráðh. sagði orðrétt: Orð mín hafa verið túlkuð á mismunandi máta. — Þau hafa sannarlega verið túlkuð þannig og yfirleitt á hinn versta veg fyrir okkur Íslendinga. Þess vegna er auðvitað brýn nauðsyn að hann komi við leiðréttingum sínum. Ég tel raunar ekki nægilegt að hæstv. ráðh. einn komi með leiðréttingu, heldur tel ég það skyldu ríkisstj. á þeim fundi, sem hún heldur í fyrramálið, að taka af skarið í þessu máli, að ríkisstj. í heild gefi út yfirlýsingu og einnig að hún óski þegar í stað formlegra viðræðna við Norðmenn um þetta mál. Ég hef þegar borið fram ósk um að yfirlýsing í þessa átt verði gefin við umr. í Sþ. á morgun. Vænti ég þess, að hæstv, ráðh. og ríkisstj. í heild telji það kærkomið tækifæri til að hreinsa andrúmsloftið, og skora enn á hæstv. utanrrh. að beita sér fyrir því, að ítarleg umr. fari fram í hæstv. ríkisstj. í fyrramálið um Jan Mayen-málið, svo við þurfum ekki lengur en til síðdegis á morgun að bíða eftir því að loftið verði hreinsað.

Ég vil víkja að örfáum atriðum úr ræðu hæstv. utanrrh., þó að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hafi tekið af mér ómakið að sumu leyti í mjög góðri og rökfastri ræðu.

Ráðh. bendir á að uppi hafi verið raddir um að svo kynni að fara, að ein þjóð ætti eignarrétt að hafsbotni, önnur að auðæfum hafsins. Þetta þekkjum við. Það hefur gerst í sögunni. Við vitum að þó að stórþjóðirnar berðust gegn því að við gætum tekið okkur fiskveiðilögsögu, helgað okkur auðæfi hafsins, þá stóðu þær að alþjóðasamþykkt um að ríki mætti tileinka sér hafsbotninn. Sannleikurinn er raunar sá, að strax árið 1945 þegar Truman Bandaríkjaforseti lýsti yfir eignarhaldi Bandaríkjanna á öllu landgrunni þess ríkis út í 200 mílur, var alveg ljóst hvert stefna mundi. Stórblaðið New York Times benti einmitt á það á þeim tíma, að ekki yrði lengi, a.m.k. ekki um aldur og ævi, staðið gegn því að ríki fengju 200 mílna fiskveiðilögsögu, úr því að stórveldið Bandaríkin hefði þegar kastað eignarhaldi sínu á botninn. Það var upphaf þessa máls.

Við Íslendingar urðum einna fyrstir til að feta í fótspor Bandaríkjamanna, þótt með öðrum hætti væri þar sem við lögðum áherslu á fiskveiðarnar. Við settum þegar árið 1948 lög um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, sem allar okkar aðgerðir hafa síðar verið byggðar á. Þetta þekkir auðvitað landslýður allur.

Það er út af fyrir sig alveg rétt, sem hæstv. ráðh. segir, að hugsanlegt er að semja um málið á þennan hátt, en einmitt vegna þess að reglur í þessu efni eru ekki raunverulega ráðnar í einu eða neinu, þá á að taka upp viðræður við Norðmenn. Kannske gætum við samið við þá á gagnstæðan hátt: við hefðum meiri réttindi á hafinu, þeir meiri réttindi á botninum. Þetta er allt opið enn þá, það er alveg rétt. En enginn stafur í uppkasti að hafréttarsáttmála bendir mér vitanlega í þessa átt, sem hæstv. ráðh. orðaði. Í 55. gr. l. tl. a. er því einmitt lýst rækilega, að í hugtakinu efnahagslögsaga felist ekki einungis yfirráð yfir hafinu og lifandi verum þess, heldur líka yfir hafsbotninum og öllum verum á honum og auk þess öllum jarðefnum. Það er meginreglan í þessu uppkasti. En uppkastið er ekki orðið samningur. Þess vegna er allt hugsanlegt. Og einmitt þess vegna eigum við þegar í stað að ræða málið við Norðmenn til að reyna að forðast árekstra og til að reyna að finna-lausn sem gæti mjög vel rúmast innan endanlegs samkomulags.

Það yrði gleðiefni á Hafréttarráðstefnunni, ef á einu hafsvæði, víðáttumiklu hafsvæði eins og hér er, væru málin leyst eftir sanngirnissjónarmiðum, sem er sú meginregla sem allt þetta plagg byggist á, það eigi að vera sanngirnissjónarmið sem ráði. Það er leitast við að fá 150 þjóðir veraldar til þess að ganga frá samkomulagi án þess að ganga til atkv. um eitt eða neitt. Þetta er í fyrsta skipti í veraldarsögunni sem slíkt hefur gerst. Menn fárast yfir því, að Hafréttarráðstefnan dragist á langinn, og vissulega eru menn stundum þreyttir. En það hefur þó gífurlega mikið gerst. Það hafa myndast þjóðréttarreglur „de facto“ um geysilega mikilvæg málefni, flest þau mikilvægustu. Þegar hafréttarsáttmáli verður samþykktur, ef hann verður einhvern tíma samþykktur, þá myndast þjóðréttarreglur „de jure“. En að því er smáeyjar varðar og um það sem hérna skiptir máli hafa engar reglur myndast, auðvitað ekki „de jure“ og ekki heldur „de facto“. Þess vegna er óleyfilegt að bera aðstöðu eyjar eins og Jan Mayen við aðstöðu stórs strandríkis — þjóðríkis. Jan Mayen er ekki þjóðríki.

Það er á þessu sem við verðum að byggja málflutning okkar, og það eigum við auðvitað öll að vera sammála um. Við verðum að leitast við að hafa samstöðu í þessu máli og í landhelgismálinu oftast, þó að út af hafi brugðið. Ég fyrir mína parta geri allt sem í mínu valdi stendur til að hefja ekki illdeilur um þetta mál. Ég held að tillögumenn að hafréttartillögunum í haust hafi sýnt langlundargeð, hafi gengið talsvert langt, einmitt vegna þess að við vissum að það voru miklar annir hjá nýskipaðri ríkisstj.

Ég harma það vissulega, að það skuli ekki fyrir mörgum mánuðum hafa verið gerðar ráðstafanir bæði til að hefja formlega viðræður við Norðmenn og eins til þess að sjá til þess að rannsókn landgrunnsins héldi áfram. Sannleikurinn er sá, að því miður er mér ókunnugt um að núv. hæstv. ríkisstj. hafi nokkurn skapaðan hlut gert í því að hraða rannsókn landgrunnsins. Ég held m.a.s. að ég geti fullyrt að hún hafi ekkert gert.

En látum það liðna vera gleymt og látum nú hendur standa fram úr ermum. Það eru aðeins örfáar vikur þangað til Hafréttarráðstefnan kemur saman, og við getum ekki mætt þar bæði stefnulausir og vopnlausir. Við verðum a.m.k. að safna saman þeim jarðfræðikortum, sem til eru, og fá þá jarðfræðinga, sem við eigum innanlands, til að gefa okkur upplýsingar og leiðbeina um hvaða stefnu við eigum að taka, og þó að verði kannske fengnir einn eða tveir erlendir sérfræðingar í viku eða hálfan mánuð til þess að aðstoða okkur. Við getum ekki framkvæmt neinar vísindalegar rannsóknir lengur og ekki heldur um miðjan vetur, en þetta, sem ég nefndi, er þó enn þá hægt. Ég skora á hæstv. utanrrh. að beita áhrifum sínum í ríkisstj. þannig að þetta verði líka ákveðið af hendi þeirra í hæstv. ríkisstj. Hann og stjórnin mundu vaxa af því.

Þá vík ég að skoðun hæstv. utanrrh., að stórveldi og aðrar þjóðir mundu þegar í stað grípa inn í ef við hæfum formlegar viðræður við Norðmenn. Ég get ekki séð að það geti með nokkru móti gerst, að nein þjóð geti krafist þess að fá að taka þátt í viðræðum milli tveggja annarra þjóða. Mér finnst það vera alveg fráleitt. Ég veit ekki til að það séu neinar þjóðréttarreglur í þá átt. En við skulum gæta þess, að til eru atriði þar sem hagsmunaárekstrar hljóta að verða ef ekki verða samningar við Norðmenn, þó ekki væri nema þetta eitt, að eftir þeim texta, sem nú liggur fyrir, ættum við að eiga svo og svo mikið af botninum, en þeir ættu líka að eiga botninn, þ.e.a.s. ef þeir fara út í 200 mílur erum við firrtir þeim rétti, og það gæti þó aldrei talist sanngirnissjónarmið af Norðmanna hálfu að ætla að firra okkur þeim rétti. Ég held þess vegna að það sé alveg ljóst mál, að samninga verði að taka upp.

Ég vil aðeins víkja örfáum orðum að ræðu Stefáns Jónssonar sem sagði flest vel. Ekki veit ég um það, hvort hernaðaraðstaða hafi ráðið einhverju um að Norðmenn eru ekki búnir að færa út í 200 mílur við Jan Mayen, og ef svo er, að þeir hafa tekið þessa afstöðu af þeim sökum, þá það. Ég held nú ekki að svo sé. Ég held að Norðmenn geri sér grein fyrir því, að þeir hafa ekki lagalegan rétt til útfærslu við Jan Mayen, og það er meginatriðið. Þeir vilja ekki brjóta á öðrum þjóðum — og kannske síst þeirri sem minni máttar er, frændþjóð og vinaþjóð.

Ég ætla Norðmönnum það ekki að þeir muni færa út í 200 mílur við Jan Mayen. Ég trúi því ekki, enda hefur utanrrh. góðu heilli hér og nú sagt að það hafi verið gefin fyrirheit um samráð við Íslendinga áður en nokkuð verði aðhafst, og hann hefur sagt að Norðmenn virðist a.m.k. ekki færa út á þessu ári. Það gleður okkur alla auðvitað mjög að vita það þó, að slíkt eigi ekki að gerast á næstunni. En það breytir engu um hitt, að samráð á að taka upp og formlegar viðræður sem allra fyrst. Það er báðum þjóðunum og öllum til heilla og mundi verða tekið eftir því á alþjóðavettvangi — og á fundum Hafréttarráðstefnunnar til þess vitnað.

Ég ítreka að ég treysti því, að hæstv. ríkisstj. taki af skarið strax á morgun, þannig að við þurfum ekki að vera í neinum vafa um að Íslendingar hafi engum rétti afsalað og enginn íslenskur ráðamaður hafi nokkru sinni afsalað neinum rétti á Jan Mayen-svæðinu. Þann rétt eigum við, eins og ég þykist hafa rökstutt í frumræðu minni. Við eigum þar rétt, mikinn rétt. Við skulum ekki dæma um á þessu stigi hver hann er. Við skulum mæta með opnum huga í viðræðum við Norðmenn, en við krefjumst formlegra viðræða við Norðmenn. Og við krefjumst þess, að íslenska ríkisstj. geri hreint fyrir sínum dyrum. Ef hún gerir það ekki á morgun hlýtur Alþ. að taka af skarið á miðvikudaginn og lýsa því skýrt og skorinort yfir, hver vilji þess sé.