05.02.1979
Efri deild: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2298 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforku eins og það var afgreitt frá Nd. 21. des. s.l. Þar urðu miklar umr. um málið og í fjölmiðlum í tengslum við meðferð þess í Nd., og veit ég að sú umr. hefur ekki farið fram hjá hv. þm. í Ed. Alþingis Meginefnisbreyting þessa frv., miðað við gildandi lög, er sú, að lagt er til að verðjöfnunargjaldið hækki úr 13% í 19%. Jafnframt var að minni tillögu bætt inn í frv. við 2. umr. í Nd. ákvæði um að tekjum af hækkun gjaldsins um 6% skuli varið til að ná fram verðjöfnun á töxtum til heimilisnotkunar og iðnaðar hjá þeim aðilum er þess njóta, þ.e. Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða. Var það gert til að taka af tvímæli um ráðstöfun á afrakstri af hækkun gjaldsins, en nokkurrar tortryggni virðist gæta á uppbyggingu sumra taxta hjá Rafmagnsveitunum, einkum að því er varðar svonefndan marktaxta sem fyrst og fremst er selt eftir til sveitabýla. Gagnrýni þar að lútandi tel ég efnislega ekki hafa við rök að styðjast, og greinargóðar skýringar liggja fyrir frá Rafmagnsveitunum um samsetningu þessa taxta og fylgni hans við olíuverð að því er varðar rafmagn til húshitunar. Hefur sá þáttur nú verið endurskoðaður af Rafmagnsveitunum með tilliti til verðbreytinga á olíu að undanförnu.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um fjárhagsörðugleika Rafmagnsveitnanna og það háa raforkuverð sem viðskiptavinum þeirra er gert að greiða. Vaxandi fjárhagsörðugleikar fyrirtækisins á undanförnum árum hafa birst í rekstrarhalla og hafa tekjur af verðjöfnunargjaldinu hvergi nærri nægt til að standa undir honum. Mismunurinn hefur æ ofan í æ verið brúaður með óhagstæðum lánum sem viðskiptaaðilar Rafmagnsveitnanna hafa verið látnir standa undir með gjaldskrárhækkunum umfram almennar kostnaðarhækkanir vegna verðbólgu. Þannig hefur skapast sá mikli ójöfnuður í raforkuverði sem endurspeglast í 88% hærra gjaldi fyrir kwst. samkv. heimilistaxta en gerist í Reykjavík og á helstu þéttbýlisstöðum sem reka eigin rafveitur. Hliðstæður munur, eða um 82%, er á iðnaðartöxtum á milli þessara svæða. Þessi verðmunur á nauðþurft eins og raforku er að sjálfsögðu með öllu óviðunandi, enda hefur ríkisstj. bundið það í stefnuyfirlýsingu að vinna gegn honum og stefna að sambærilegu raforkuverði um allt land. Slíku markmiði verður ekki náð í einni svipan, en brýnt er að fá nokkru um þokað nú þegar og stöðva þá öfugþróun sem hér hefur viðgengist allt of lengi.

Skipulagsbreyting í raforkuiðnaðinum, sem nú er unnið að og á að felast í sameiningu helstu raforkuöflunarfyrirtækja landsins í eitt landsfyrirtæki, verður spor í átt til verðjöfnunar þegar því hefur verið komið á. Þessu fyrirtæki er ætlað að selja raforku í heildsölu á sama verði til allra landshluta. Undirbúningi að því máli er nokkuð komið á veg í iðnrn. með starfi nefndar sem skipuð var s.l. haust og brátt mun skila áliti.

En með jöfnun heildsöluverðs, t.d. út frá meginstofnlínum með 132 kw. spennu, verður engan veginn náð því markmiði um jöfnun raforkuverðs sem ríkisstj. hefur sett fram. Eftir stendur dreifingin innan landshlutanna með mjög mismunandi tilkostnaði, og á þeim vanda þarf að taka sérstaklega. Þar má eflaust sitthvað færa til betri vegar með skipulagsbreytingum. Að þeim verður hugað í samvinnu við heimaaðila. En eftir standa ólíkar landfræðilegar og byggðalegar aðstæður sem valda mismunandi tilkostnaði í raforkudreifingunni hversu vel sem að henni er staðið.

Viðskiptaaðilar Rafmagnsveitnanna eru sem kunnugt er íbúar hinna dreifðu byggða, og miðað við höfðatölu þeirra, sem Rafmagnsveiturnar sjá fyrir raforku, búa 48% í sveitum, 37% í kauptúnum og aðeins 15% í kaupstöðum. Í þessum tölum endurspeglast það viðfangsefni og sá erfiði markaður sem þessu ríkisfyrirtæki er ætlað að sinna. Orkubú Vestfjarða starfar við síst betri aðstæður að þessu leyti. Það þarf því enga spekinga til að sjá að viðfangsefni þessara fyrirtækja er annað og kostnaðarsamara en hjá rafveitum sem nær einvörðungu dreifa raforku um þéttbýli.

Orkuöflunarþáttur Rafmagnsveitnanna hefur ekki síður verið erfiður, en stendur nú til bóta, m.a. eftir tilkomu Austurlínu, og eftir ca. 11/2 ár á samveitusvæðið á Vestfjörðum að fullu að vera komið í tengsl við landskerfið. Gert er ráð fyrir að létta undir með Rafmagnsveitunum með sérstöku framlagi að upphæð 600 millj. kr. samkv. lánsfjáráætlun sem bráðlega verður kynnt hér á hv. Alþ. Ég hef lagt áherslu á að hér verði um eigendaframlag að ræða, þ.e. að ríkið sjái um kostnað af þessu fjármagni, og vænti ég að sú verði raunin á í reynd. Væri það í samræmi við óskir stjórnar Rafmagnsveitnanna og kæmi á móti þeim óarðbæru framkvæmdum sem fyrirtækinu er ætlað að ráðast í á þessu ári og stjórn Rafmagnsveitnanna hefur að því er mig minnir metið að jafngildi 800 millj. kr. meðaltalskostnaði á ári umfram væntanlegar tekjur. Eftir sem áður hefur verið reiknað með verulegum halla eða sem nemur um 700 millj. kr. að óbreyttu verðjöfnunargjaldi, og ef mæta ætti honum með gjaldskrárhækkunum, eins og gert hefur verið hingað til, ykist enn sá ójöfnuður sem ég hef getið um og lesa má í fskj. með þessu frv.

Ætlað var að tekjur af hækkun verðjöfnunargjaldsins skiluðu um 700 millj. kr. á ársgrundvelli, þ.e. um 560 millj. kr., sem kæmu í hlut Rafmagnsveitnanna, og 140 millj. til Orkubús Vestfjarða. Vegna seinkunar á samþykkt þessa frv. hafa þeir tekjuöflunarmöguleikar þegar rýrnað nokkuð. Vænti ég hins vegar að frv. fái greiða meðferð hér í hv. þd.

Ég vil að endingu geta þess, að iðnrn. mun á þessu ári beita sér fyrir athugun á tekjuöflun og fleiri þáttum hjá Rafmagnsveitum ríkisins og þá m.a. huga að þeim tekjustofni sem hér er mælt með að á verði lagður til loka þessa árs. Að mínu mati þarf ríkissjóður að gera ráð fyrir að leggja Rafmagnsveitunum til eigendaframlag árlega, a.m.k. fyrst um sinn, sem svari til félagslegra þátta í framkvæmd fyrirtækisins.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni umr. hér í d. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.