05.02.1979
Neðri deild: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2308 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

69. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Finnur Torfi Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef áhuga á því að leggja nokkur orð í belg í umr. um þetta frv. Það er greinilegt að frv. er ætlað að stuðla að lausn á þeim mikla vanda sem við er að etja í framleiðslumálum landbúnaðarins. Eins og kunnugt er eru ætlaðir á fjárl. tæpir 6 milljarðar til þess að greiða útflutningsbætur, og því hefur verið spáð, að áður en yfir lýkur kunni þörfin á þessu ári fyrir útflutningsbætur að verða yfir 10 milljarða kr. Það er því fullt tilefni til að taka á þessu máli og reyna að leysa það á skynsamlegan hátt. Satt að segja er það sorglegt, hvað menn hafa sýnt þessum vandamálum landbúnaðarins mikið sinnuleysi undanfarin ár, hvernig vandinn hefur verið látinn hlaðast upp smátt og smátt þannig að nú er svo komið að hann er nánast óviðráðanlegur.

Ég vil taka það fram varðandi frv. sem hér liggur fyrir, að ég er samþykkur markmiðum frv. Það er greinilegt, að því er ætlað að vinna nokkuð hressilega að lausn þessa vandamáls. En því miður get ég ekki verið samþykkur þeirri aðferð sem þar er gert ráð fyrir að beita.

Ég geri ráð fyrir að það sé orðin nokkuð víðtæk samstaða um þá almennu stefnumörkun í landbúnaðarmálum, að landbúnaðarframleiðslan eigi að miðast við innanlandsþarfir eða því sem næst. Þó hafa flestir eða allir, að ég hygg, þann fyrirvara á, að samdráttur í landbúnaðarframleiðslunni verði ekki til þess, að fækkun í sveitum verði teljandi, né heldur að til byggðaröskunar komi.

Nú er það svo með frv. sem hér liggur fyrir, að yrði það samþykkt og framkvæmt, þá mundi það nokkuð örugglega leiða til mjög verulegrar fækkunar í bændastéttinni. Það mundi áreiðanlega koma ákaflega illa niður á þeim bændum, sem smæst búin hafa og verst standa að vígi fjárhagslega, og gæti einungis leitt það af sér, að slíkir bændur yrðu að hætta búrekstri og leita annað. Það er þróun sem ég tel varhugaverða og vil ekki að verði.

Það má segja um frv., að það beinist í raun og veru að því að lækna sjúkdómseinkennin, en ekki sjúkdóminn sjálfan. Frv. stefnir að því að draga úr útflutningsbótunum, sem má segja að séu sjúkdómseinkenni, en ekki nauðsynlega að því að draga úr framleiðslunni. Mér sýnist að einhliða skerðing á útflutningsbótunum þurfi alls ekki að hafa í för með sér neina hvatningu fyrir einstaka bændur til þess að draga úr framleiðslu. Þvert á móti mundi ég halda að þegar harðnar á dalnum hjá bændum, þá hljóti viðleitni hvers og eins að verða sú að auka rekstur sinn og reyna að bæta fjárhagsafkomu sína þannig. Af þessum ástæðum ítreka ég það, að þarna er verið að lækna sjúkdómseinkenni. Sjúkdómurinn sjálfur yrði nánast óhreyfður og vandinn eftir sem áður jafnmikill.

Nú er þingheimi kunnugt um það, að landbrh. hefur lagt fram annað frv. um breytingu á framleiðsluráðslögum, þar sem þess er freistað að leggja fram aðrar till. til þess að finna lausn á sama vanda og hér er til umfjöllunar, þ.e.a.s. reyna að draga úr offramleiðslu í landbúnaði. Það frv. er auðvitað ekki til umr. hér núna, en ég tel ástæðu til að skýra frá því, að mér virðist það frv. miklu raunhæfari grundvöllur til að taka á málinu, enda þótt ég vilji undirstrika það, að ég hef og mun gera aths. og jafnvel flytja brtt. við það frv.

Ég er alveg sannfærður um að það er vel framkvæmanlegt að draga nokkuð verulega úr offramleiðslu á landbúnaðarvörum án þess að til þurfi að koma veruleg fækkun í sveitum. Í grundvallaratriðum hlýtur leiðin að verða sú að draga úr framleiðslunni á hinum stærri býlum, en gefa kost á því, að hin smærri býli og allt að meðalbúum haldi framleiðslumagni sinu óbreyttu, þannig að ekki verði um neina fækkun að ræða, fjöldi bændanna og fjöldi býlanna verði nánast óbreyttur, en framleiðslumagnið minnki á stærstu býlunum. Þetta er í aðalatriðum sú leið sem ég tel eina færa, ef menn vilja ná þeim markmiðum báðum að draga úr framleiðslunni, en halda samt byggðaröskun í lágmarki og halda byggðinni jafnþéttri og hún er nú.

Það vill svo vel til, að bændur sjálfir hafa sýnt mikinn skilning á þessu vandamáli og verið sjálfir með ýmsar till. um hvernig eigi að leysa þennan vanda. Auðvitað eru um það skiptar skoðanir meðal þeirra, en margt af því, sem þeir hafa sagt, er skynsamlegt og raunhæft. Vil ég þar einkum nefna hugmyndir um svokallað kvótakerfi, sem komið hafa fram hjá bændum sjálfum og ég tel réttan og skynsamlegan grundvöll til að vinna að þessu vandamáli.

Ég ítreka það, að ég er algerlega samþykkur þeim markmiðum sem augljóslega er stefnt að með því frv. sem hér er til umr., en er ósammála aðferðinni og get þess vegna ekki stutt það.