05.02.1979
Neðri deild: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2309 í B-deild Alþingistíðinda. (1860)

69. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þeir hv. þm., sem sæti áttu á síðasta þingi, kannast vel við frv. það, sem hér er til umr., og eins við þá ræðu, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson flutti s.l. miðvikudag er hann talaði fyrir frv. Þar kom fram mjög fátt nýtt. Það kom þó fram í máli hv. frsm., að það fyrirkomulag, sem gildir um verðábyrgð ríkissjóðs, er frá tíð viðreisnarstjórnarinnar. Hitt kom ekki fram hjá hv. frsm., að sú breyting, sem gerð var á þessum málum þá, var byggð á samkomulagi eða samningi við Stéttarsamband bænda.

Þegar umrædd breyting var gerð á lögunum hafði landbúnaðurinn um nokkurra ára bil notið bestu kjara sem útflutningssjóður veitti sjávarútveginum. T.d. kemur það fram í hagskýrslum, að árið 1958 greiddi útflutningssjóður á bátafisk 95.04%, þ.e.a.s. að fyrir 1 kg, sem flutt var út og fengust fyrir 10 kr. fob., greiddi útflutningssjóður 9.50 kr. á kg, framleiðandinn fékk samtals 19.50 kr. fyrir framleiðslu sína. Ef þetta dugði ekki hafði framleiðsluráðið rétt til þess að hækka verðið á innlendum markaði að því marki að ná með þeim hætti verðmismun á framleiðsluverðinu og markaðsverðinu erlendis. Þennan rétt vildi ríkisvaldið taka af framleiðsluráði. Það varð að samkomulagi, að í staðinn yrði tekin upp sú verðábyrgð sem í gildi hefur verið síðan.

Ef frv. það, sem hér er til umr., yrði samþ. nú væri gengið á gerða samninga við bændur, nema nýtt samkomulag yrði áður við þá gert. En hvaða stjórnmálaflokkar stóðu að þessu samkomulagi og bera því höfuðábyrgð á þeirri breytingu sem varð í kjölfar þessara samninga? Það skyldi nú ekki vera, að Alþfl. ætti þar ekki lítinn hlut að máli.

Það er athyglisvert í þessu sambandi, að forusta Alþfl. 1959 taldi sér ekki fært að taka af bændum þann rétt sem þeir höfðu í lögum þá, að hækka verð á búvöru innanlands til þess að mæta hallanum á útflutningnum, öðruvísi en semja um það við bændasamtökin að þau fengju eitthvað í staðinn. Eftir þessu frv. að dæma telur hin nýja forusta Alþfl. ekki þörf á eða ástæðu til að taka upp samninga við bændur um þær breytingar sem í þessu frv. felast. Ætli það sé í fullu samræmi við tal þessara manna um réttlæti, tillitssemi og heiðarleika í umgengnisháttum, sem öðrum er talin trú um að sé haft í hávegum í hinum nýja endurreista Alþfl.?

Hv. frsm. eyddi enn miklum tíma í talnalestur sem hann sjálfur virðist því miður ekki skilja nema að mjög takmörkuðu leyti. Þar sem ég tók þennan kafla í ræðu hans til meðferðar á síðasta þingi sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það nú. Hitt vil ég leggja höfuðáherslu á enn og aftur, að þessi lagasetning var byggð á samningum á milli þáv. ríkisstj. og Stéttarsambands bænda. Hvað sem fulltrúar Alþfl. á hinu háa Alþingi halda langar ræður og reyna að sýna fram á að ýmis atriði í lögunum séu ekki að þeirra skapi, þá eru þessi lagaákvæði niðurstaða samninga sem flokksmenn þeirra stóðu að og lögfestu á sínum tíma. Því er þýðingarlaust fyrir þá að reyna að firra sig ábyrgð nú.

Einn þátt í þessum talnalestri kemst ég þó ekki hjá að taka til athugunar. Hv. þm. sagði, með leyfi forseta: „Fram til ársins 1959 hafði t.d. útflutningur landbúnaðarvara, þegar hann var mestur, aðeins numið 5.45% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar. Og auðvitað gengu menn út frá því sem gefnu að þetta væri vísbending um þá fjárhagslegu ábyrgð sem ríkissjóður væri að taka á sig með þessari lagasetningu.“

Ég hef ekki haft tíma til þess að rifja upp, hvernig þessi mál stóðu frá ári til árs á áratugnum 1950–1960. Hins vegar athugaði ég heildarframleiðsluna og útflutninginn árin 1957 og 1958. Árið 1957 var heildarframleiðslan á kindakjöti 8298 tonn. Af því magni voru flutt út 2700 tonn, eða 32,5%. Af heildarframleiðslu landbúnaðarins það ár var kindakjötsframleiðslan talin 34.4%. Það ár hafa því verið flutt út um 11% af heildarframleiðslu landbúnaðarins. Árið 1958 var kindakjötsframleiðslan 9919 tonn. Flutt voru það ár út 3533 tonn, eða 35.6%.

Þá var líka fluttur út ostur til Þýskalands, 370 tonn. Er því sýnilegt að það ár var flutt út hlutfallslega meira magn en árið áður. Á þessu sést að það, sem hv. þm. sagði um þetta efni, er úr algerlega lausu lofti gripið og röksemdin, að menn hefðu ekki gert sér ljóst hver þörfin kynni að verða á útflutningi á landbúnaðarvörum, getur því ekki staðist — eins og ég hef sýnt fram á, þrátt fyrir tilvitnun hans í ræðu hv. fyrrv. þm. Ingólfs Jónssonar.

Ég sá líka að niðurgreiðslur hafa þá verið eins miklar og nú eða meiri. T.d. var kindakjöt greitt niður um 11.21 kr. 1957 og þá var útsöluverðið 3.50 kr. lægra en verð til bænda það ár. Og þá var mjólkin einnig í útsölu 84 aurum lægri en bændur fengu þá fyrir mjólkina. Ég tel rétt að þetta komi fram við þessa umr. vegna þess hvernig öll umr. um þessi mál hefur verið upp á síðkastið.

Hv. þm. sagði enn fremur í framsöguræðu sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég held að það séu allir sammála um það, og það sé engin undantekning þar á, að það beri að tryggja bændum eðlileg kjör og sambærileg við það sem aðrar stéttir hafa. Ég held að það séu allir sammála um að það beri að tryggja bændum að skaðlausu, þó svo að sveiflur verði í framleiðslu landbúnaðarvara þannig að það þurfi t.d. að standa undir talsverðri eða einhverri offramleiðslu í landbúnaðinum til þess að tryggja íslensku þjóðinni jafnan nægilegar búvörur.“

Ég vona að það reynist rétt, sem kom fram í máli hv. frsm., að allir séu sammála um það, og engin undantekning þar á, að bændum séu tryggð eðlileg kjör og sambærileg við það sem aðrar stéttir hafa. Og nú vil ég spyrja hv. þm. Sighvat Björgvinsson að því, hvaða hugmyndir hann hafi um það, hvernig eigi að tryggja bændum nú svipuð laun og aðrar stéttir hafa.

Nú blasir við, ef ekki finnast ráð sem hv. þm. geta sameinast um, að að öllu óbreyttu verður að leggja 200 kr. verðjöfnunargjald á hvert kg kindakjöts á þessu verðlagsári. Mundi þá vanta 16.5% á verð til bænda, sem mundi þýða að vantaði 1/3 á kaup þeirra miðað við það sem verðlagsgrundvöllurinn gerði ráð fyrir. Þannig standa málin í dag, þó hlutfallslega þurfi ekki að flytja út meira magn, t.d. af kindakjöti, en árið 1958. Hins vegar þarf að flytja út miklu meira af mjólkurvörum, hvort sem miðað er við magn eða hlutfall, enda eru allir sammála um að ekki sé um neitt annað að ræða en gera ráðstafanir til að draga úr framleiðslu á mjólk nú. Hins vegar eru það mjög gleðileg tíðindi, ef það reynist rétt sem kom fram hjá hv. þm., að enginn ætlist til að bændur beri skaða af þessum samdrætti. Og fast mun verða eftir því leitað, með hvaða hætti slíkt verði tryggt nú.

Ég er sammála hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um að ekki kemur til mála að ný stefna í þessum málum verði á þann veg að það verði látið bitna á bændum, þeirra hlutur verði fyrir borð borinn, þó að breytingar verði á framleiðslumagni, og þá verði bændum með einhverjum hætti tryggðar svipaðar tekjur og aðrar stéttir hafa á hverjum tíma. Hins vegar hefur tillöguflutningur þm. Alþfl. — og þar er ekki þetta frv., sem hér er til umr., undanskilið — og málflutningur þeirra ekki verið með þeim hætti fram að þessu. Hefðu hugmyndir þeirra og tillögur náð fram að ganga, þá hefðu þær breytingar bitnað á bændum tekjulega og leitt til mikillar byggðaröskunar. Hins vegar hefði slík breyting bitnað enn meira á ýmsum þéttbýlisstöðum, þannig að þúsundir manna og kvenna hefðu við slíka breytingu misst vinnu sína og tekjur. En ég kem betur að því síðar.

Áður en lengra er haldið vil ég undirstrika það og taka undir með hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, að það voru ekki bændur sem settu verðábyrgðina í lög, heldur Alþ. sjálft. Þess vegna er það einnig Alþ. sem ber að leysa þann vanda sem nú steðjar að bændastéttinni án þess að þeir verði fyrir áföllum umfram það sem hver stétt og hver þegn verður fyrir vegna þess vanda sem verðbólgan hefur leitt þjóðina í. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hv. þm., að hann og flokkur hans séu reiðubúnir að skoða þennan vanda, taka þátt í lausn hans á þann veg að það komi ekki niður á tekjum bænda.

Því er nú haldið fram í fjölmiðlum, að framleiðslan í landinu sé um þessar mundir baggi á þjóðinni og það sé framleiðslan sem standi í vegi fyrir að ekki eru betri lífskjör í landinu en raun ber vitni. Þessu halda fram menn sem hafa titla sem benda til þess að þeir séu langskólagengnir. Og landbúnaðurinn hefur sannarlega fengið sinn skerf af þessari umræðu. Mjög mikið af þessari umr. sýnir hvað vanþekkingin er mikil hjá mörgum þeim mönnum sem skrifa um framleiðslumálin. Að vísu hafa lífskjör aldrei verið eins góð í landinu og þau eru nú, en því miður búum við við fölsk lífskjör, því að við eyðum meiru en við öflum, og það getur ekki gengið til lengdar. Slíkur lífsmáti stefnir í ófæru, ekki síður hjá þ jóð en ef einstaklingur á í hlut. Annað tveggja verður að gerast: Við verðum að afla meira í þjóðarbúið með einhverjum hætti, að öðrum kosti verðum við að draga úr eyðslunni þannig að heildarumsvif og eyðsla séu innan þeirra marka sem þjóðin aflar, nema um sé að ræða meiri háttar framkvæmdir sem koma til með að skila til baka þeim fjármunum, beint eða óbeint, sem við þurfum að taka að láni til þeirra erlendis frá.

Umr., sem fer fram um þessi mál, snýst ekki fyrst og fremst um hvaða úrræði kunna að vera fyrir hendi til að þjóðin geti haldið þeim lífskjörum sem við búum við og höfum vanist, heldur hitt, hvaða framleiðsla og rekstur það sé sem með ýmsum reikningskúnstum er hægt að sýna fram á að ekki borgi sig að reka í þessu landi, vegna þess að svipaða framleiðslu sé hægt að fá keypta annars staðar, úti í hinum stóra heimi, fyrir minna verð en kostar að framleiða hér — og í sumum tilfellum fyrir aðeins brot af því verði. Þessir snillingar hafa jafnvel reynt að sýna fram á með þessum hætti, að raunverulega borgi sig ekki að framleiða neitt í þessu landi, það sé hægt að fá allt milli himins og jarðar fyrir minna verð erlendis frá en framleiðslukostnaðurinn er hér. Umr. eru sjaldan um það, með hvaða hætti þjóðin á að afla gjaldeyris fyrir það, sem inn er flutt, eða með hvaða hætti væri hægt að breyta til framleiðsluhátta, sem gæfu meira í þjóðarbúið en það sem lagt er til að verði lagt niður. Frá þjóðhagslegu sjónarmiði hlýtur að vera betra að framleiða einhver verðmæti en hafast ekkert að, gera ekkert og þess í stað sækja sér lífeyri í Atvinnuleysistryggingasjóð.

Það er ekki úr vegi að íhuga hvernig þessi umr., sem fram fer nú um þessi mál, snertir allt þjóðfélagið. Því er haldið fram með réttu, að iðnaðurinn sé sá vaxtarbroddur sem þurfi að sinna og efla á allan hátt, því að þar muni vera mestir möguleikar fyrir þjóðina til að efla og bæta lífskjör sín í næstu framtíð. Hitt er hálfbroslegt, að á sama tíma og þessu er haldið fram eru uppi háar kröfur um það t.d., að sauðfjárframleiðslan í landinu sé minnkuð a.m.k. um 33–40%, sem mundi hafa gífurleg áhrif á iðnaðinn og þá möguleika sem virðast vera fyrir hendi í ullar- og skinnaiðnaðinum í landinu. Ef aðrar greinar iðnaðar, sem eru þannig búnar að þjóð okkar ræður við þær með sæmilegu móti, væru nú búnar að hasla sér völl á erlendum vettvangi með svipuðum hætti og árangri og ullar- og skinnaiðnaðurinn hefur gert og gætu þá komið í staðinn fyrir hann, þá væri þetta mál ekki eins alvarlegt. En því miður er það ekki. Ég undirstrika það, að allur iðnaður í landinu, sem framleiðir fyrir innlendan markað og sparar okkur gjaldeyri, er okkur jafnmikils virði og sá iðnaður sem er framleiddur fyrir erlendan markað. En við, sem erum mjög háð innflutningi og vantar alltaf gjaldeyri til vörukaupa, þurfum enn fremur að byggja upp iðnað okkar á þann hátt að framleiðslan sé seljanleg á erlendum mörkuðum og það í verulegum mæli. Því miður hefur þetta ekki tekist fram að þessu.

Þegar áli og álmelmi og kísilgúr sleppir og framleiðslu úr sjávarafla eru nær einvörðungu ullar- og skinnavörur fluttar út unnar. Árið 1977 gaf sá útflutningur í gjaldeyri 4 milljarða og 100 millj. kr., en allur annar iðnaður, fyrir utan það sem ég hef áður talið, ekki nema 600 millj. Af því voru málning og lökk 260 millj., fiskilínur og fiskinet rúmar 100 millj., umbúðir 120 millj. og ýmislegt annað rúmar 100 millj. Á s.l. ári hefur útflutningur á ullar- og skinnavörum farið eitthvað yfir 6 milljarða, en tölur fyrir desembermánuð liggja ekki enn fyrir. Á þessari framleiðslu virðast vera mjög miklir vaxtarmöguleikar enn. En á þessu sviði sem öðrum verður ekki framleitt úr því hráefni sem ekki er til. Því eru þessi mál ekki mál bændanna einna, heldur einnig þeirra, sem búa í þéttbýlisstöðum víðs vegar um landið, og þjóðarinnar allrar.

Talið er að einn maður, sem vinnur að framleiðslustörfum í landbúnaði, veiti með framleiðslu sinni 3–4 atvinnutækifæri í þéttbýli. Þessi mál þarf að skoða öll í samhengi. Við þurfum að átta okkur á, hver atvinnumálastefna okkar þurfi að vera, hvað geti komið í stað þess sem fyrir er, áður en ákvarðanir eru teknar um breytingar á framleiðsluháttum þjóðarinnar sem kunna að leiða til minni atvinnu, minni framleiðslu. Ekki batna lífskjör þjóðarinnar við það, ef minna verður til skipta. Það þarf að gera marktæka úttekt á því, hvað það mundi þýða fyrir þjóðarbúið ef landbúnaðarframleiðslan minnkaði t.d. um 1/3, hvaða áhrif það mundi hafa á einingarverðið til hækkunar fyrir neytendur, hvaða áhrif það mundi hafa á atvinnuástandið á hinum ýmsu stöðum í landinu, hvað gjaldeyristekjur okkar minnkuðu við slíkan samdrátt, hvað heildarverðmætasköpun hjá þjóðinni minnkaði við slíkan samdrátt og hvort og hvernig þjóðin gæti beitt því vinnuafli, sem við slíka breytingu mundi missa atvinnu sína, í önnur störf sem gæfu a.m.k. eins mikið í þjóðarbúið og á samdrættinum í landbúnaðarframleiðslunni og iðnaði í sambandi við hann mundi tapast.

Það hefur komið fram í blaðaviðtölum og með ýmsum öðrum hætti, að miklir möguleikar virðast vera til að framleiða í landinu ýmiss konar fatnað úr ull og skinnum. Þarf að athuga vel hvaða möguleikar eru í þessari framleiðslu og hvaða þýðingu það hefur fyrir þjóðarbúið t.d. ef sauðfjárframleiðslan dregst saman að því marki sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Í lok ræðu sinnar vitnaði hv. þm. Sighvatur Björgvinsson í till. Alþfl. sem hann flutti við afgreiðslu fjárl. nú fyrir jólin, og þar sem hv. þm. vitnaði þannig í tillöguflutninginn að mér sýnist að hann væri ekki nægilega heima í þessum málum, kemst ég ekki hjá því að gera þennan tillöguflutning að umræðuefni.

Fyrsti liður þessar till., a-liðurinn, er um að lækka framlag til Stofnlánadeildar landbúnaðarins um 143.5 millj. kr. Framlag ríkisins til Stofnlánadeildar hefur byggt upp deildina á undanförnum árum, en að verulegu leyti þó farið til þess að jafna fjármagnskostnað á milli bænda. Hinn mikli munur á fjármagnskostnaði hjá bændum eftir því, hvenær þeir fóru í framkvæmdir, er að verulegu leyti ástæðan fyrir hinum mikla tekjumun þeirra. Það kemur áþreifanlega í ljós þegar t.d. eru athugaðar lausaskuldir bænda, að þeir, sem eru í erfiðustu aðstöðunni nú, eru bændur sem hafa staðið í framkvæmdum eða hafið búskap síðustu árin. Þó þessir menn hafi yfirleitt stærri bú en meðalbúið er í landinu, þá reynast nettótekjur þeirra flestra hryggilega lágar vegna þess að vaxtagreiðslur eru svo miklar, þrátt fyrir að Stofnlánadeildin hafi ekki lánað þeim fjármagnið á þeim kjörum sem hún hefur þó neyðst til að sæta sjálf.

Við teljum höfuðatriði að jafna lífsaðstöðuna í landinu, hvort sem er til sjávar eða sveita. Á síðasta þingi var lögunum um Stofnlánadeild landbúnaðarins breytt. M.a. var lögfest að taka 1% verðjöfnunargjald af allri landbúnaðarframleiðslu. Gjald þetta á að fara til að greiða niður fjármagnskostnaðinn af nýjum lánum. En þó þetta væri gert þurfti samt á síðasta ári að þyngja lánakjörin frá því sem þau voru áður, og í raun og veru hefði þurft að þyngja þau enn meira en gert var.

B-liðurinn er um að lækka jarðræktarframlag um 300 millj. kr. Jarðræktarstyrkur er samkv. lögum greiddur út á framkvæmdir sem unnar hafa verið í sveitum landsins árið áður. Þessi styrkur reyndist vera á síðasta ári 930 millj. kr. Verðbólgan á síðasta ári var um 50%. Ef framkvæmdir hafa að magni til verið svipaðar og árið áður hefði styrkurinn þurft að vera 1395 millj. kr. Nú er ekki vitað hvað þessar framkvæmdir hafa verið miklar, talið að þær hafi verið eitthvað minni en 1977. Hins vegar liggur ljóst fyrir, að þær eru ekki það miklu minni að þessar 990 millj. kr., sem nú eru á fjárl. til þessa verkefnis, nægja alls ekki, hvað þá ef till. Alþfl. hefði náð fram að ganga.

Þriðji liðurinn er um að lækka styrk til framræslu um 100 millj. kr. Þessi styrkur er einnig út á framkvæmdir sem unnar voru á síðasta ári. Talið er að þessi fjárlagaliður, eins og hann er settur í fjárl. nú, fari langt til að nægja. Ef löggjafinn kemst á annað borð að þeirri niðurstöðu að rétt sé að lækka þessa styrki samkv. jarðræktarlögunum, tel ég að um það þyrfti að taka ákvörðun áður en framkvæmdatími hefst. Þeir menn, sem sífellt tala um spillingu, tillitssemi og réttlæti, ættu að leggja það niður fyrir sér, undir hvað svona tillöguflutningur flokkast.

D-liðurinn er um að lækka útflutningsbætur á útfluttar landbúnaðarvörur um 1 milljarð. Fyrir liggur að þó að bændur fengju þá útflutningstryggingu, sem lög mæla fyrir um, mundi vanta 3 500 millj. kr. til þess að þeir fengju grundvallarverðið, sem mundi þýða að 6% vantaði á einingarverðið, eða 12% á vinnuliðinn ef þessi skerðing kæmi jafnt niður á báðar búgreinar. Komið hefur fram tregða hjá Seðlabankanum að lána afurðalán út á smjörbirgðirnar sem nú eru í landinu. Ef niðurstaðan verður sú, að Seðlabankinn bindur t.d. afurðalánin út á smjör við ákveðið magn birgða gæti það leitt til þess að flytja yrði út töluvert magn af smjöri. Ef t.d. væru flutt út 1000 tonn af smjöri mundi láta nærri að til þess þyrfti 2 500 millj. kr. í útflutningsbætur. En þar sem slík skerðing kæmi aðeins á mjólkurframleiðendur, eins og nú horfir, mundi það þýða um 5% á einingarverð eða 10% á launaliðinn til viðbótar þeirri skerðingu sem að framan greinir. Ætli það mundi ekki heyrast í öðrum stéttum, ef þær stæðu nú frammi fyrir slíkri kjaraskerðingu.

Á undanförnum árum hefur verulega vantað á að bændur hafi náð þeim launum sem ætlast er til að þeir fái með verðlagningunni, sem eru svipuð laun og aðrar stéttir í þjóðfélaginu hafa á hverjum tíma. Þessi vöntun hefur reynst vera 15–33%, þrátt fyrir að grundvallarverðið hafi náðst. Nú liggur fyrir að um leið og bændur ákváðu ásetning sinn á s.l. hausti var ákveðið framleiðslumagn á sauðfjárafurðum á þessu ári, ef ekkert óvænt kemur fyrir. Hins vegar má segja að framleiðsla mjólkur sé ekki eins fyrir fram ákveðin, vegna þess að fleira en kúafjöldinn hefur áhrif á framleiðslumagn hennar. En það skiptir ekki máli í þessu sambandi. Það liggur ljóst fyrir, að markaðsaðstaðan er þannig nú miðað við framleiðslukostnaðinn í landinu að útflutningstryggingin, sem bændur hafa lögum samkv., dugar ekki, jafnvel þó að mjólkurframleiðslan minnkaði frá því sem hún er nú.

Þó þessar tillögur Alþfl. hefðu náð fram að ganga hefðu þær ekki haft áhrif á framkvæmdir samkv. lögunum vegna þess að búið er að styrkja þá sem styrkja á. Þær hefðu ekki heldur haft áhrif á framleiðslumagn sauðfjárafurða og ekki líklegt að þær hefðu haft nein umtalsverð áhrif á mjólkurframleiðsluna, a.m.k. ekki á þessu ári. En þær hefðu gert annað. Þær hefðu lækkað verulega tekjur bænda. Samkv. hagskýrslum eru bændur og hafa verið tekjulægsta stéttin í landinu. Aðeins öryrkjar og ellilífeyrisþegar hafa reynst vera með lægri tekjur að meðaltali.

Af þeim 1543.5 millj. kr. sem Alþfl. gerði tillögur um að skerða fjárveitingu til landbúnaðar um á yfirstandandi ári, lagði hann til að 543.5 millj. yrðu lagðar til hans eftir öðrum leiðum. 100 millj. skyldu renna til framleiðni. Gæti það komið að fullu gagni ef þær hefðu t.d. gengið í framleiðnisjóð. 200 millj. skyldu renna til eflingar ábatasamra hliðarbúgreina í landbúnaði, svo sem veiðibúskapar, æðarræktar, fiskeldis o.s.frv., eins og segir í tillögunni.

Nú liggur fyrir Alþ. þáltill. frá Alþfl. þess efnis að leggja gjald á veiðileyfi, ef erlendir menn eiga í hlut. Í grg. með þáltill. kemur fram, að tilgangurinn með tillöguflutningnum er að gera veiðileyfin fyrir íslenska stangveiðimenn til muna ódýrari en þau eru nú. M.ö.o.: tillöguflutningurinn verður til þess að lækka þær tekjur sem bændur hafa haft af veiðihlunnindum, ef samþ. yrði. E.t.v. var till. um að styrkja fiskeldi liður í því að gera sportveiðimennsku arðvænlegri en verið hefur. En ætli bændur eigi að hirða arð af þeim hlunnindum? Fáir þeirra munu vera sportveiðimenn.

243.5 millj. kr. fari til greiðslu á aðkeyptri vinnu vegna orlofs bænda. Þetta er í meira lagi athyglisverð till. og sýnir hvað þessi þingflokkur er vel að sér í málefnum landbúnaðarins. Þeir leggja til að greiðslur séu verulega skornar niður á ýmsum liðum sem lögum samkv. á að inna af hendi til landbúnaðarins. Hins vegar leggja þeir til að sérstök fjárveiting verði ákveðin í fjárl. til að standa undir greiðslu á vinnulaunum vegna orlofs bænda. Þessi till. er eins og svo margt annað, sem frá þingflokknum hefur komið á þessu þingi, alveg botnlaus. Í þeim verðlagsgrundvelli, sem gildir til 1. sept. n.k., er búið að reikna inn í vinnulaun verðlagsgrundvallar orlof 8.33%, eins og aðrar stéttir hafa, og hefur lengi verið. Ætla þessir þm. að tvíborga bændum orlofið? A.m.k. er það ekki í samræmi við þær tillögur sem þeir hafa flutt fram að þessu þegar landbúnaður á í hlut, og þó svo væri veit ég að bændur vilja ekkert með slíkar greiðslur hafa. En þeir vilja ekki láta skerða laun sín. Þeir vilja hafa sambærileg laun við það sem aðrir hafa í þjóðfélaginu, og veit ég ekki um neina stétt sem mundi gera sig ánægða með að hafa verri hlut og annan en aðrar stéttir hafa.

Herra forseti. Að síðustu vil ég ítreka það vegna yfirlýsingar hv. þm. Sighvats Björgvinssonar um að Alþfl. sé reiðubúinn að standa að tillögugerð um breytta stefnu í landbúnaðarmálum, þar sem haft sé að leiðarljósi að slík breyting dragi ekki úr tekjum bænda og að viðurkennt sé að sölutregða á búvörum nú sé vandamál þjóðfélagsins alls, en ekki bænda einna, að ég skora á hv. þm., þar sem hann er formaður þingflokks Alþfl., að beita áhrifum sínum með mér svo að gengið verði í þessi mál og leitað viðunanlegra lausna á þeim. Ég geng út frá því sem gefnu að ekki standi á Alþb. að vinna að lausn þessara mála, eftir þeim yfirlýsingum að dæma sem sá flokkur gaf fyrir síðustu kosningar, og ég vænti þess einnig að margir hv. þm. Sjálfstfl. séu fúsir til þess að leggja því lið að finna lausn sem viðunandi er fyrir bændastéttina á þeim gífurlega vanda sem blasir nú við bændastéttinni.

Þetta vandamál er fyrst og fremst afleiðing af verðbólgunni, en einnig af því að orðið hefur neyslubreyting hjá þjóð okkar, sérstaklega síðustu árin. Enn fremur er þessi vandi nú vegna þess, að viðskiptaþjóðir okkar greiða í vaxandi mæli niður verð á framleiðsluvörum landbúnaðarins, sem framleiddar eru í viðkomandi löndum, og við verðum að keppa við þetta niðurgreidda verð á öllum erlendum mörkuðum. Á þessari upptalningu sést að þróunin hefur orðið mjög óhagstæð á öllum sviðum fyrir landbúnað okkar síðustu árin, en þar á þó verðbólgan stærstan hlut. Hvort þessi þróun breytist til batnaðar alveg á næstunni getur enginn sagt nú. Hins vegar virðist að framleiðsla á ullar- og skinnavörum hafi vaxandi möguleika. Hvort þeir möguleikar gera hagkvæmt að halda uppi svipaðri framleiðslu á sauðfjárafurðum og er nú eða jafnvel sé hagkvæmt að auka hana skal ósagt látið.

Þess verður að krefjast, að ítarleg könnun verði gerð á þessum möguleikum öllum áður en ákvörðun er tekin um hvert skuli stefna í þessum málum. Ef niðurstaðan yrði sú, að hagkvæmt sé að draga úr þessari framleiðslu, þá verður að finna aðra leið til verðmætasköpunar fyrir það fólk, sem hefur unnið að þessari framleiðslu, sem ekki gefur minna í þjóðarbúið en sú framleiðsla sem það vinnur nú við.