05.02.1979
Neðri deild: 48. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2319 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

160. mál, forfalla- og afleysingaþjónusta í sveitum

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 274. er flutt stjfrv. um forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum. Frv. þetta er liður í samkomulagi ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins um félagslegar umbætur sem taldar voru í aths. við frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, sem venjulega eru kenndar við 1. des. s.l. Hins vegar, eins og kemur fram í grg. með þessu frv., hefur þetta mál töluvert langan aðdraganda. Skal ég drepa á nokkra þætti þess undirbúnings.

Á Búnaðarþingi árið 1976 var lagt fram erindi frá Agnari Guðnasyni og Sigurði J. Líndal um forfallaþjónustu í landbúnaði. Afgreiddi Búnaðarþing það erindi með jákvæðri ályktun þar sem lagt var til að kjósa þriggja manna mþn. til að semja frv. til l. um vinnuaðstoð í sveitum og skila áliti fyrir Búnaðarþing árið eftir 1977. Í þá n. voru kjörnir Sigmundur Sigurðsson, Sigurður J. Líndal og Agnar Guðnason.

Á aðalfundi Stéttarsambands bænda 1976 var einnig samþ. ályktun sem ítrekar mikilvægi slíkrar þjónustu. Ákvað stjórn Stéttarsambandsins sama ár að tilnefna tvo menn til samstarfs við fyrrnefnda mþn. Voru þá tilnefndir Böðvar Pálsson og Jón Kr. Magnússon, báðir bændur.

Þessi n. samdi frv. til l. um vinnuaðstoð í sveitum í veikinda- og slysatilfellum, og var það frv. lagt fyrir Búnaðarþing 1977 ásamt grg. og var samþ. þar. Á Búnaðarþingi 1978 var frv. tekið til endurskoðunar og breytt lítillega og síðan sent landbrh.

Í þessu sambandi verður einnig að geta þess, að 1973 fól þáv. landbrh., Halldór E. Sigurðsson, þeim Gunnari Guðbjartssyni, formanni Stéttarsambands bænda, og Jónasi Jónssyni ritstjóra að semja frv. til l. um orlof bænda. Þeir gengu frá frv. um þetta efni sem var að verulegu leyti byggt á norskri fyrirmynd. Stéttarsamband bænda sendi frv. til umsagnar allra búnaðarsambanda í apríl 1973 með ósk um að málið yrði kynnt á kjörmannafundum það ár. Var óskað umsagna um málið. Þarna var um það að ræða hvort orlof yrði áfram inni í verðlagsgrundvelli eða tekið út úr honum og stofnaður orlofssjóður til að standa undir kostnaði við afleysingamenn vegna orlofs bænda og húsfreyja.

Það er skemmst frá því að segja, að þetta frv. fékk misjafnar undirtektir af þeirri ástæðu fyrst og fremst, að gert er ráð fyrir slíku orlofsfé inni í grundvellinum. Er það nú reiknað 8.33% á launaliði í verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða. En því nefni ég þetta, að ég vil að það komi hér fram, að unnið hefur verið að þessum málum að hluta í tvennu lagi. Annars vegar er um að ræða forfallaþjónustu vegna slysa, veikinda og annarra forfalla og hins vegar um afleysingaþjónustu vegna orlofs.

Á árinu 1978 var enn skipuð n. af þáv, landbrh. sem fékk það verkefni að taka þessi mál bæði fyrir og reyna að samræma þau. Í n. þá voru tilnefndir þeir Hjörtur E. Þórarinsson, Ólafur Andrésson og Leifur Kr. Jóhannesson. N. hefur síðan unnið að þessu máli.

Ég ákvað s.l. haust, að skynsamlegast mundi vera að flytja sérstaklega frv. til laga um forfallaþjónustu vegna slysa, veikinda og annarra forfalla, en láta orlofsmálin hins vegar bíða síðari tíma. Það er á margan máta töluvert viðameira og umdeildara, eins og fram hefur komið í því sem ég hef hér sagt.

Ég hygg að menn geti tekið undir það, að að öllu leyti er eðlilegt að bændur njóti slíkrar þjónustu sem geri þeim kleift að víkja frá búi sínu við slys og önnur forföll, og að því er stefnt með þessu frv. Hér er farið mjög að dæmi Norðmanna og Svía, þar sem slík forfallaþjónusta er fastur liður í landbúnaðarstarfinu og hefur þótt takast með miklum ágætum og vera mikið réttindamál þeirra sem landbúnað stunda. Raunar má einnig segja að frá þjóðfélagslegu sjónarmiði sé æskilegt að þeir, sem veikir verða, geti horfið frá þessari mikilvægu framleiðslu. Mjög eru mismunandi hér á landi þau réttindi sem þjóðfélagsþegnar njóta í slíkum forföllum, allt frá því að vera full laun í aðeins tvo veikindadaga fyrir lausráðinn verkamann og hjá opinberum starfsmönnum 90–360 daga.

Með þessu frv. er lagt til að slíkri forfallaþjónustu verði komið á fót og skal ég nú fara örfáum orðum um aths. við einstakar greinar.

Það er grundvallaratriði í þessu frv. sem fram kemur í 1. og 2. gr., að Búnaðarfélagi Íslands er falið að hafa yfirumsjón með þessari þjónustu. Gert er ráð fyrir því að búnaðarsamböndin eingöngu setji á stofn slíka vinnuaðstöðu. Hins vegar er jafnframt gert ráð fyrir því, að aðalfundir búnaðarsambandanna taki ákvörðun um hvort og hvenær stofna skal til vinnuaðstoðar. Ljóst er að þetta tekur töluverðan tíma, varla minna en 3–4 ár og jafnvel lengri tíma að koma slíkri þjónustu á fót. Gert er ráð fyrir að tveir menn verði til afleysinga fyrir hver 150 heimili, og er þá miðað við þá reynslu sem fengin er erlendis af slíku. Miðað við þann fjölda bænda, sem í landinu er, mun þörf vera fyrir um 50–60 afleysingamenn, ef öll búnaðarsambönd ákveða að koma á stofn forfalla- og afleysingaþjónustu. Jafnframt getur verið eðlilegt í ýmsum tilvikum að skipta búnaðarsambandssvæði í fleiri en eitt þjónustusvæði, eins og hentugt getur verið á hverjum stað, og að einn afleysingamaður þjóni að hluta til tveimur sambandssvæðum. Einnig getur verið æskilegt að skipta fullu starfi á milli fleiri manna, þannig að það sé ekki fullt starf hjá hverjum. M.ö.o.: við erum þeirrar skoðunar, að þetta verði að vera sveigjanlegt og verulega í hendi búnaðarsambanda á hverjum stað miðað við aðstæður.

Gert er ráð fyrir að afleysingamenn hafi rétt til aðildar að Lífeyrissjóði bænda og hafi hliðstæð laun og frjótæknar. Í frv. er lagt til að ríkissjóður leggi fram fé til að greiða föst mánaðarlaun starfsmanna forfalla- og afleysingaþjónustunnar í dagvinnu, en bændur greiði annan kostnað, sem sagt eftirvinnu og ferðakostnað. Jafnframt fá afleysingamenn frítt fæði og húsnæði hjá viðkomandi búi á starfstímanum. Um þennan þátt hefur að sjálfsögðu verið mikið fjallað og er það dálítið breytilegt t.d. í þeim löndum sem ég hef áður nefnt. Sums staðar, eins og í Svíþjóð, greiðir hið opinbera ákveðna aðstoð miðað við gripafjölda á búi, en í Noregi ákveðinn hundraðshluta af heildarkostnaði. Skynsamlegast þótti að miða aðstoð hins opinbera við föst laun starfsmannsins, eins og ég hef nú rakið.

Ef gert er nú ráð fyrir því, að laun og launatengd gjöld nemi 3.1 millj. á ári fyrir hvern mann á núgildandi verðlagi, og jafnframt gert ráð fyrir því, að kostnaður við yfirstjórn starfseminnar verði á bilinu 2,5–5 millj. kr. á ári, verður heildarkostnaður ríkissjóðs, þegar starfsemin er komin í fullan gang, um 160–190 millj. kr. á ári miðað við núgildandi verðlag. En eins og ég sagði áðan er gert ráð fyrir að þetta náist ekki nema á allmörgum árum.

Í frv. er jafnframt lögð áhersla á að þeir, sem að slíkri þjónustu starfa, verði nýttir, ef ég má orða það svo, til ýmissa annarra starfa í þágu landbúnaðarins ef forfallaþjónustan gerir ekki kröfu til starfskrafta þeirra. Einnig er hér fjallað um starfsreynslu o.fl. sem þessir menn þurfa að hafa, því ljóst er að mjög er mikilvægt að slíkir menn, sem taka við búrekstri ýmiss konar í forföllum, hafi nauðsynlega reynslu og þeim sé vel treystandi fyrir slíku starfi.

Ég sé ekki ástæðu til að fjalla nánar um þetta frv. Um framkvæmdina verður að sjálfsögðu sett reglugerð, ef Alþingi fellst á frv., og að henni verður staðið í fullu samráði við samtök bænda.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, leggja til að frv. verði vísað til hv. landbn. að lokinni þessari umr. Pálmi Jónsson: Herra forseti. Á Alþingi veturinn 1971–72 flutti ég ásamt þremur öðrum þm. Sjálfstfl. till. til þál. um orlof og þjónustu staðgöngumanna í landbúnaði. Tillgr. þeirrar þáltill, var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela landbrh. að skipa n. til þess að semja frv. til l. um orlof sveitafólks og þjónustu staðgöngumanna í landbúnaði. N. skal skipuð í samráði við Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands. Niðurstöður skulu lagðar fyrir Alþingi svo fljótt sem verða má.“

Þessi þáltill. var afgr. á Alþ. hinn 18. maí 1972 nálega óbreytt. Aðeins var orðalagsbreyting, að í stað þess að n. skyldi falið að semja frv., þá skyldi n. falið að athuga um möguleika á lagasetningu, sem er smekksatriði um orðalag. Síðan eru bráðum liðin 7 ár og þetta mál hefur ekki komist fram.

Í grg. og umr. nm þessa þáltill. var lögð áhersla á þá staðreynd, að hinar ýmsu stéttir þjóðfélagsins freistuðu þess eftir megni að tryggja sér síaukin félagsleg réttindi. Þær stéttir, sem yrðu útundan í þessu kapphlaupi, mættu búast við því, að erfitt yrði að fá ungt fólk til endurnýjunar í stéttinni. Svo er t.d. með bændastéttina, vegna þess að bændastéttin hafði ekki þá og hefur ekki enn þau félagslegu réttindi sem flestar stéttir þjóðfélagsins hafa, þ.e. rétt til orlofs og annarrar þjónustu sem geri slíkt mögulegt.

Ég hef harmað það nokkuð á undanförnum árum, að þetta mál skyldi ekki ná fram að ganga. Ég og við flm. þessarar till. á þinginu 1971–72 lögðum á það ríka áherslu, að þetta mál allt yrði unnið í nánu samráði við bændasamtökin, og í sjálfu sér get ég ekki kvartað undan því, að það hafi ekki verið gert, vegna þess að nefndir á vegum Búnaðarþings og bændasamtaka hafa hugað að þessu máli af og til á s.l. nærri 7 árum, eins og fram kom í máli hæstv. landbrh.

Mér þykir augljóst, ef bændastéttin og það fólk sem býr í sveitum og sinnir störfum sínum við æ meira fámenni, æ meiri bindingu við dagleg störf án tillits til helgidaga eða venjulegra frídaga í þjóðfélaginu, — ef þessi stétt manna fær ekki þau félagslegu réttindi sem a.m.k. launastéttunum í þjóðfélaginu eru búin, þá sé a.m.k. ekki hvetjandi fyrir unga fólkið að hasla sér völl innan þeirrar stéttar. Þess vegna vil ég taka það fram, að ég tel að þeir, sem vilja viðgang landbúnaðarins í landinu og huga að því, að það fólk, sem þar velst til starfa, fái svipuð réttindi og flestir aðrir landsmenn, hljóti að vilja styðja að því, að mál af þessum toga komist áfram.

Nú get ég sagt það, að ég hef ekki áttað mig út í hörgul á einstökum greinum þess frv. sem hér er til umr. um forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum. Það stefnir þó væntanlega að því að taka á einum þættinum í því máli, sem ég flutti hér inn á Alþ. á þinginu 1971–72, og stefnir í þá átt að tryggja nokkurn hluta þeirra félagslegu réttinda sem ég vildi þá beita mér fyrir að bændur og sveitafólk næði. Þess vegna lít ég á þetta mál allt með jákvæðu hugarfari. Ég tel þó að það þurfi að vinna áfram að því og ekki fresta því um of, að orlofsmál bænda komist í eðlilegt horf. Það fólk, sem ekki nýtur frídaga í daglegu starfi, hvorki sunnudaga né annarra helgidaga sem ákveðnir eru í þjóðfélaginu, hefur a.m.k. ekki síður þörf fyrir að geta tekið sér orlof tiltekinn tíma heldur en annað það fólk sem vinnur ekki nema fimm daga vinnuviku. Þess vegna er mér nokkuð mikið kappsmál að hugað verði að því að koma í framkvæmd þeirri ályktun sem samþ. var á Alþ. hinn 18. maí 1972. Ég hef enda stundum á undanförnum árum lagt fram fsp. á þingi til þess að ýta á eftir framkvæmd þeirrar þáltill., en ég hef ævinlega fengið þau svör, að þessi mál væru í höndum bændasamtakanna og væri verið að vinna að þeim. Ég sannast sagna vil láta það í ljós, að mér finnst sú vinna hafa gengið hægt, og harma það nokkuð, sem hæstv. landbrh. sagði áðan, að meginhluta þessa máls, þ.e. orlofsmálinu og því sem ég nefndi staðgöngumannakerfi, en hér er nefnt afleysingaþjónusta í sambandi við orlof sveitarfólks, skuli enn einu sinni hafa verið slegið á frest. Ég vil beina því til hæstv. ráðh., að hann hlutist til um að það mál verði ekki svæft svefninum langa, heldur verði að þessu máli unnið af fullum krafti, eins og segir í ályktun Alþ. frá 1972, í fullu samráði við Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands.

Ég skal ekkert segja frekar, hæstv. forseti, um það frv. sem hér er lagt fram. Ég vonast til þess að það nái þeim tilgangi sem það stefnir að um forfallaþjónustu í veikinda- eða slysatilfellum. Í raun og veru hefði ekki átt að þurfa einhverjar sérstakar ráðstafanir í sambandi við efnahags- og kjaramál til þess að koma slíku frv: fram. En það virðist þó hafa þurft, því að þetta er eitt af þeim málum sem samið var um í sambandi við lausn efnahagsvandans 1. des. Verður að segja, að það er næsta hlálegt um jafnsjálfsagt mál og tilgangur þessa máls er, án þess að ég taki efnislega afstöðu til einstakra gr. frv., skuli þurfa að semja það þegar verið er að gera út um sérstakar vandræðaráðstafanir í efnahagsmálum, — það er næsta hlálegt.

Ég skal svo ekki segja fleira um þetta frv., herra forseti. Ég vænti þess, að heildarmálið, orlofsmálið og sú afleysingaþjónusta eða þjónusta staðgöngumanna sem því þarf að fylgja, verði ekki látið sofa til langframa og þegar það verður tekið upp, þá verði þessi mál tengd saman í eitt, sem er eðlilegt, þó að ég út af fyrir sig fagni því, að sá litli hluti þessa máls, sem hér er nú borinn fram á Alþ., skuli þó loksins hafa komið fram.