06.02.1979
Sameinað þing: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (1870)

328. mál, nafnlausar bankabækur

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég held að það sé almennt viðurkennt af þeim, sem fara með bankamál og peningamál hér á landi, að eitthvert ódýrasta veltufé þjóðarinnar sé sparifjáreign almennings. Menn hafa almennt haft af því áhyggjur, að sparifjársöfnun landsmanna hafi verið allt of hæg undanfarin ár, og hafa nefnt tölur í því sambandi, að það vanti mikið á að eðlileg sparifjármyndun sé hjá þjóðinni og kenna aðallega verðbólgunni.

Hv. frsm. eða flm. þessarar fyrirspurnar taldi að í sambandi við þessar nafnlausu bækur, sem tíðkast hafa í bönkunum, væri tilgangur fyrirspurnar hans að varpa einhverri ljósglætu í myrkviði íslenskra fjármála, eins og hann orðaði það. Það er nú svo með þessar handhafabækur eða nafnlausu bækur, að þær sæta lélegustu vaxtakjörum sem til eru í bankakerfinu. Þær bera lélegustu vaxtakjörin. Ofan á þetta er eigandinn auðvitað ofurseldur verðbólgubálinu. Nú er mér spurn, með tilliti til þeirra orða sem ég hef haft um þetta: Er ekki sá aðili, sem að mínu mati er svo heimskur að hann vilji, miðað við ríkjandi aðstæður í okkar þjóðfélagi, láta geyma fé á þennan máta fyrir ekki meiri umbun og takandi á sig þá ábyrgð sem fylgir því að þetta sparifé hans rýrnar svo mjög, eins og verðbólguhraðinn í þessu þjóðfélagi ber vitni um, — er hann ekki búinn að borga keisaranum það sem keisarans er? Og er það þá nokkur skaði af þjóðfélagsins hálfu, er ekki þessi maður búinn að borga fullan skatt?

Ég verð nú að segja það, með tilliti til þess sem ég sagði í upphafi máls míns, að ef við litum á sparifjársöfnun almennings sem nauðsynlega til þess að geta útvegað þjóðinni rekstrarfé á sem hagkvæmastan hátt, þá mundi ég telja að ástæða væri fyrir löggjafann að gera það aðlaðandi fyrir almenning að leggja inn fé í innlánsstofnanir gegn lítilli umbun en þá um leið tryggja að það væri ekki verið að eltast við það frá einum eða öðrum skattyfirvöldum eða hverju nafni sem þið kallið það. Ég held að það sé búið að borga fullan skatt af þessu fé.